Sunday, October 31, 2010

Þess vegna er megrun fitandi

Sem fullvaxnir einstaklingar höfum við hvert og eitt ákveðinn viðmiðunarpunkt í líkamsþyngd, sem kallaður er eiginleg þyngd. Eiginleg þyngd hvers og eins fer eftir hæð, beinabyggingu og arfgerð. Mannslíkaminn hefur gegnum aldir og árþúsund þróað með sér kerfi sem á að viðhalda okkar eiginlegu þyngd. Ef við förum undir hana, þá örvast hungurtilfinning og löngun í orkuríka fæðu. Ef við förum yfir hana, dofnar hungurtilfinningin og löngun í orkuríka fæðu minnkar. Mannskepnan hefur lengst af þurft að hafa fyrir því að ná sér í mat og halda lífi. Þess vegna er kerfið sem örvar hungurtilfinninguna mun öflugra en það sem letur hana. Líkaminn vill frekar að við séum yfir eiginlegu þyngdinni en undir henni.

Í gegnum tíðina hafa árstíðir, veðurfar og náttúrulegar sveiflur gert að verkum að framboð á mat hefur verið mismikið. Það hafa skipst á tímar þar sem gnægð matar var að hafa, og tímar hungursneyðar eða baráttu um þá litlu fæðu sem til var. Það var því mikilvægt að líkami mannsins hefði orkuforðabúr, sem gengið væri á um vetur eða á tímum uppskerubrests. Þetta orkuforðabúr er fituvefurinn. Hann gegnir fleiri hlutverkum, t.d. einangrar hann okkur frá kulda, og svo myndar hann mjúkan púða utan um beinin og líffæri kviðarholsins sem ver okkur fyrir hnjaski. Þegar nóg er um orkuríka fæðu stækkar fituvefurinn, en þegar lítið er um fæðu göngum við á þennan forða, brennum fitunni. Fituvefurinn getur stækkað nánast óendanlega, en áður fyrr var afar óalgengt að mannskepnan hefði aðgang að svo mikilli og orkuríkri fæðu í svo langan tíma að líkaminn sýndi merki um offitu.

Þegar hungur sverfur að er hormónum seytt sem minnka orkunotkun líkamans til að spara þá orku sem við eigum í fituvefnum og fáum með fæðunni. Um leið er hungurtilfinningin örvuð, svo við verðum dugleg að afla okkur fæðu. Þegar aftur koma betri tímar með blóm í haga, er orkunotkunin eða brennslan áfram lág. Umframorkunni er þá breytt í fitu og geymd í forðabúrinu, fituvefnum. Eiginlega þyngdin getur líka hækkað, því líkaminn hefur fengið þau skilaboð að fæðuframboð sé stopult. Það borgi sig því að safna aukaforða. Líkaminn vill þannig undirbúa sig fyrir næstu hungursneyð. Ef blómatíminn verður nógu langur tekst líkamanum þetta ætlunarverk sitt og einstaklingurinn verður þyngri en hann var fyrir hungursneyðina.

Í samfélögum Vesturlanda í dag er framboð fæðu nánast óendanlegt, og ekki þarf að eyða orku í að hlaupa uppi bráð eða safna jurtum. Líkami okkar ætti því að fá stöðug skilaboð um að engin þörf sé á að safna forða. En þegar við förum í megrun skynjar líkaminn að nú sé hungursneyð. Hormónin fara á fullt, orkunotkun minnkar og hungur vex. Líkaminn sparar þá litlu orku sem við færum honum og æsir upp hungrið. Þegar við springum á limminu eða þegar megruninni lýkur veldur hungrið því að við borðum mikið og sækjum í orkuríka fæðu. Minni brennsla veldur því að stór hluti orkunnar er geymdur í forðabúrinu. Þess vegna fitnum við hratt þegar megrun lýkur og komumst fljótt upp í okkar fyrri þyngd. Auk þess hefur líkaminn fengið þau skilaboð að við búum við erfiðar aðstæður þar sem hungursneyðir geta orðið. Eiginleg þyngd okkar getur þess vegna hækkað. Líkaminn reynir sitt ítrasta til að komast upp í hina nýju eiginlegu þyngd, svo hann hafi aukaforða þegar til næstu megrunar kemur. Endurteknar megranir geta því valdið miklum sveiflum í líkamsþyngd og við endum alltaf enn þyngri en við vorum fyrir síðustu megrun. Það má því segja að megrun sé fitandi.

Friday, October 22, 2010

Hömlulaust ofát

Fyrir réttum tveimur árum síðan sótti ég mjög áhugaverða námsstefnu á Bifröst, sem fjallaði um hömlulaust ofát sem margir vilja skilgreina sem matarfíkn. Einstaklingur sem þjáist af matarfíkn getur ekki hamið matarlyst sína og borðar yfir sig. Hann hlustar ekki á merki líkamans um seddu, og heldur áfram og áfram að borða.

Öll upplifum við vellíðan þegar við borðum mat sem okkur finnst góður. Hjá matarfíklum myndast aftur á móti fíknarmunstur, þar sem haldið er áfram að borða til að halda í vellíðanina, þrátt fyrir að líkaminn sendi boð um seddu og vanlíðan frá meltingarfærum. Vellíðanin er andleg, tilfinningaleg og líkamleg, og hún yfirgnæfir seddutilfinningu og vanlíðan sem einnig lætur á sér kræla vegna úttroðins maga og þrýstings á vélinda.

Aðrir matarfíklar eru fremur að forðast andlega vanlíðan, en að sækja í vellíðan. Þeir aftengja sig um leið og byrjað er að borða, og geta þannig komist hjá því að finna erfiðar tilfinningar, eins og sorg, reiði, leiða eða einmanaleika. Þeir halda áfram að borða til að viðhalda aftengingunni, og því miður eru þeir líka aftengdir seddutilfinningunni.

Matarfíklar eru oft í mikilli yfirþyngd, og þjást af margs konar kvillum, eins og álagsmeiðslum í hnjám, mæði, vélindabakflæði, og jafnvel sykursýki II (fullorðinssykursýki). Margir matarfíklar eru fíknir í ákveðnar matartegundir, þær algengustu eru sykur, hvítt hveiti og fita. Hjá sumum matarfíklum er fíknin ekki einskorðuð við neina sérstaka matartegund, heldur bara magn, tilfinninguna að borða, og borða yfir sig.

Fyrir matarfíkil þýðir lítið að hlusta á skilaboð um breyttan lífsstíl, hófsemi í skammtastærðum og fjölbreytni í matarvali. Það er illmögulegt fyrir matarfíkil að hlusta á skilaboð líkamans um svengd og seddu og fara eftir þeim. Og það er vonlaust fyrir matarfíkil að leyfa sér að njóta þess að borða einn súkkulaðimola stöku sinnum, án þess að falla í þá gryfju að borða tíu mola eða heilan konfektkassa. Matarfíkill getur ekki hætt eftir einn súkkulaðimola, hann getur ekki hætt fyrr en allt súkkulaði í húsinu er búið.

Flestir matarfíklar eru margbúnir að reyna átak í ræktinni, alla mögulega megrunarkúra og lífsstílsbreytingu sem felur í sér strangt aðhald í mataræði. Þeir eru búnir að lesa og læra utan að alls kyns heilsuskilaboð, án árangurs.

Stjórnleysi einkennir fleiri þætti en mataræðið í lífi sumra matarfíkla, en aðrir matarfíklar eru samviskusamir einstaklingar sem hafa mikinn sjálfsaga í vinnu, námi og einkalífi. Og þeir hafa reynt að nota einmitt þennan eiginleika, sjálfsagann, til að takast á við matarfíknina, en ekkert hefur dugað.

Fyrir matarfíkil er ómögulegt að beita eingöngu innri stýringu, eins og að hlusta á líkamann, seddu og svengd, og á skynsemina. Hrein ytri stýring, með líkamsrækt og ströngu mataræði, hefur heldur ekki reynst vel til að hjálpa matarfíklum. Meðferð við matarfíkn krefst djúprar andlegrar og tilfinningalegrar vinnu, ásamt ytri stýringu og aðhaldi í mataræði, eða jafnvel fráhaldi frá ákveðnum matvælum.

Tuesday, October 12, 2010

Ofát, bakflæði og hósti

Flest höfum við borðað yfir okkur á jólunum og í stöku matarboði eða veislu. En sumir borða yfir sig í hverri máltíð. Maginn er þá troðfylltur svo myndast þrýstingur á opið efst í maganum, milli magans og vélindans. Hringvöðvinn þar getur með tímanum veikst og vélindabakflæði þróast. Þá sullast magasafi og jafnvel leifar magainnihalds upp í vélindað. Þetta skynjum við sem brjóstsviða (bruna eða sviðatilfinning undir bringubeini) eða nábít (súrt óbragð í munni eða koki). Vélindabakflæði getur líka valdið hósta, mæði og jafnvel astma. Hóstaköst eða andþyngsli í kjölfar máltíða, og mikil þörf fyrir að ræskja sig til að losna við berkjuslím, getur verið vísbending um vélindabakflæði.

Það mikilvægasta til að komast út úr ofáti er að koma reglu á máltíðirnar og sleppa tökunum á hindurvitnum eins og þeirri að við verðum að klára af disknum. Hófleg þolþjálfun (hreyfing sem gerir okkur móð eins og rösk ganga, skokk og hjólreiðar) styrkir lungu, berkjur og vöðva. Djúpslökun og hugleiðsla eru góð leið til að efla tilfinningu okkar fyrir líkamanum og þörfum hans, svo við verðum meðvitaðri um svengd og seddu.

Ofát er misalvarlegt en getur í sumum tilvikum flokkast sem átröskunin BED (binge eating disorder, sjúklegt ofát). Einstaklingar með BED taka endurtekin átköst, þar sem mikill matur er innbyrtur á stuttum tíma. Átköstin eru tekin í einrúmi, og mikil skömm fylgir í kjölfarið. Það sem greinir BED frá lotugræðgi (bulimiu) er að einstaklingar með BED losa sig ekki við matinn með uppköstum eða með notkun hægða- eða þvagræsilyfja, og nota heldur ekki mótvægisaðgerðir eins og föstu eða svelti.

Sjúklegt ofát er djúpstæður, tilfinningalegur vandi, sem krefst vinnu bæði með sjálfsmynd og líkamsvitund, auk þess sem taka þarf á matarvandanum sem slíkum.