Monday, December 7, 2015

Er döðlukaka hollari en kaka úr hvítum sykri?

Þessa spurningu fékk ég senda frá Vísindavef Háskóla Íslands og ég svaraði henni svona:

Ég býst við að hér sé verið að bera saman annars vegar hefðbundna köku sem inniheldur mikinn hvítan sykur og hins vegar köku sem inniheldur nógu mikið af döðlum til þess að magn einfaldra kolvetna (einsykra og tvísykra) sé það sama og í hefðbundnu kökunni. Hvorug kakan innihaldi önnur sætuefni.

Kolvetni eru 74,4% af þyngd daðla (1). Aðallega er um ein- og tvísykrur að ræða (2). Í hvítum sykri er aftur á móti ekkert nema tvísykran súkrósi.

Hver hefði trúað því að döðlur væru appelsínugular?


Rúmur fjórðungur af þyngd döðlunnar eru önnur næringarefni en kolvetni. Í döðlum er sáralítið af fitu en dálítið af próteini og mikið af trefjum (1). Ýmis vítamín og steinefni má finna í döðlum, t.d. fólat og járn, en þó ekki C-vítamín sem er óvenjulegt miðað við ávöxt (1,3). Í hvítum sykri eru aftur á móti engin næringarefni nema súkrósi sem gefur ekkert nema orku.

Gerum ráð fyrir að kökurnar séu bakaðar úr sömu hráefnum að öðru leyti en því að í annarri séu döðlur en í hinni hvítur sykur. Við fáum meira af hollum og góðum næringarefnum úr döðlukökunni en hefðbundnu kökunni þó sykurinnihaldið sé það sama.

Glúkósi og frúktósi


Ein- og tvísykrur eru meðhöndlaðar eins í líkamanum hvort sem þær koma úr döðlum eða hvítum sykri. Tvísykrurnar eru klofnar niður í einsykrurnar glúkósa og frúktósa og frásogaðar úr meltingarvegi. Glúkósinn hækkar blóðsykurinn hratt sem örvar insúlínseyti frá briskirtli. Insúlínið veldur því að blóðsykurinn lækkar aftur hratt og getur farið tímabundið undir normalgildi (4). Fæða með háum sykurstuðli veldur miklum sykursveiflum í blóði. Með aldrinum geta miklar sykursveiflur stuðlað að sykursýki af tegund 2, kransæðasjúkdómi og aldursbundinni augnbotnahrörnun (5).

Frúktósinn fer hins vegar beint til lifrar frá meltingarveginum og er umbreytt þar meðal annars í þríglýseríð. Frúktósi hefur minni áhrif á blóðsykur heldur en glúkósi, en í miklu magni getur frúktósi haft óæskileg áhrif á efnaskipti líkamans með því að stuðla að uppsöfnun fitu í lifrinni og hækka þríglýseríð og þvagsýru í blóði (6,7).

Samsetning máltíðarinnar hefur áhrif á blóðsykursveifluna. Trefjar í döðlunum draga úr blóðsykursveiflunni og hafa margvísleg jákvæð áhrif á meltingu og efnaskipti (8). Væntanlega er fita til staðar í kökunum báðum eða er borðuð með þeim á formi rjóma. Fita hægir á magatæmingunni svo sykrurnar berast hægar út í blóðrásina (4).

Trefjar og önnur næringarefni gera döðlukökuna hollari en hefðbundnu kökuna. Það er ekki þar með sagt að döðlukakan sé holl. Það er ekki hollt að borða mikið af ein- og tvísykrum og ekki víst að annað hráefni döðlukökunnar sé hollt.

Heimildir:


1) Næringarefnatöflur á vef MATÍS: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) – The Icelandic Food Composition Database.

2) What Kind of Carbohydrates in Dates? – Healthy eating – SF Gate.

3) Dates Nutrition Facts. Fruit Fact Date.

4) Shils ME, Olson JA, Shike M, Ross AC. Modern nutrition in Health and Disease, 9th ed. 1999 Lippincott Williams & Wilkins. ISBN 0-683-30769-X.

5) Chiu CJ, Liu S, Willett WC, et al. (2011): Informing food choices and health outcomes by use of the dietary glycemic index. Nutr Rev 69 (4): 231-242.

6) Malik VS, Hu FB (2015): Fructose and Cardiometabolic Health : What the Evidence From Sugar-Sweetened Beverages Tells Us. Journal of the American College of Cardiology 66 (14): 1615-1624.

7) Ouyang X, Cirillo P et al. (2008): Fructose consumption as a risk factor for non-alcoholic fatty liver disease. Journal of Hepatology 48 (6): 993-999.

8) Weickert MO, Pfeiffer AF (2008): Metabolic effects of dietary fiber consumption and prevention of diabetes. J Nutr 138 (3): 439-442.

Wednesday, September 30, 2015

Ætti ég að taka D-vítamín í vetur?Ráðlagður dagsskammtur (RDS) er það magn næringarefnis sem uppfyllir þörf alls þorra heilbrigðra einstaklinga til að forðast skortseinkenni. Þörf fyrir hvert næringarefni er einstaklingsbundin, þe. mismikil eftir einstaklingum. Næringarefnaþörf einstaklinga má setja upp á graf, eins og sést á myndinni. Á lárétta ásnum er dagleg þörf fyrir næringarefnið X í einingum á dag. Á lóðrétta ásnum er fjöldi einstaklinga. Rauða lóðrétta línan í miðjunni táknar meðalþörf. Þörf flestra liggur nálægt meðaltalinu eins og sést á því að þar er svarti ferillinn hæstur. Einstaklingur A þarf aðeins minna magn og einstaklingur B enn minna. Einstaklingur C þarf talsvert meira en útreiknaða meðalþörf. Fjólubláa lóðrétta línan táknar ráðlagðan dagsskammt, RDS (RDA á ensku). Það eru mjög fáir sem þurfa svo mikið magn, eins og þið sjáið á því hvað svarti ferillinn er lágur hjá fjólubláu línunni. Ráðlagður dagsskammtur er látinn vera nógu hár til að hann uppfylli þörf 97,5% heilbrigðra einstaklinga. Vissir sjúkdómar geta aukið þörfina tímabundið eða yfir lengri tíma.

Ef neysla þín er nálægt ráðlögðum dagsskammti, þá eru yfirgnæfandi líkur á því að þú fáir þörf þinni fullnægt. En þó neysla þín sé undir RDS getur vel verið að þú fáir þörf þinni samt fullnægt.

Þó einstaklingur uppfylli næringarþörf sína og sé laus við skortseinkenni er hugsanlegt að langtímaheilsa hans væri betri, eða sjúkdómsáhætta minni, ef hann fengi meira af einhverju næringarefni. Vísindarannsóknir snúast margar hverjar um þetta, þ.e. að kanna hvort neysla sem fer umfram hina útreiknuðu þörf bæti heilsuna eða minnki sjúkdómsáhættu á löngum tíma. Það þýðir ekki að meira sé alltaf betra. Neysla umfram ákveðið magn hefur engin frekari jákvæð áhrif og enn meiri neysla getur aukið sjúkdómshættu eða valdið eitrunareinkennum.

D-vítamín


D-vítamín er hormón sem gegnir mikilvægu hlutverki í líkamanum. Forveri D-vítamíns myndast í húðinni þegar sól skín á hana. Forverinn fer um blóðrásina til lifrar og síðan til nýrna. Hann tekur breytingum í þessum líffærum og kemst að lokum á virkt form, verður að virku D-vítamíni.

Sólin er svo lágt á lofti í skammdeginu á Íslandi að við þurfum að fá D-vítamín úr fæðu eða sem fæðubót. Átta mánuði ársins er skin hennar ekki nógu sterkt til að D-vítamín myndist í húðinni. Lýsi hefur bjargað okkur frá D-vítamínskorti öldum saman. Síld er líka góður D-vítamíngjafi. Að öðrum kosti verðum við að fá D-vítamín úr fæðubótarefnum, annað hvort lýsisperlum, lýsishylkjum, fjölvítamíntöflum eða D-vítamíntöflum.

Hlutverk


Virkt D-vítamín nýtist líkamanum á ýmsan máta. Það hvetur frásog kalks í meltingarvegi, þ.e. upptöku kalks úr meltingarveginum í blóð. Þetta þýðir að líkaminn á í erfiðleikum með að nýta kalk úr mjólk eða kalktöflum, nema D-vítamín sé til staðar. Kalkið er svo nýtt til að styrkja tennur, bein, neglur og hár. D-vítamín hefur fleiri hlutverk í líkamanum, t.d. í taugakerfinu og ónæmiskerfinu. Einnig hvetur það frásog annarra steinefna, svo sem járns, sínks, magnesíums og fosfats.

Vísindarannsóknir eru alltaf að sýna betur og betur hvað D-vítamín er okkur nauðsynlegt. Ýmislegt bendir til þess að skammturinn sem ráðlagður var áður fyrr hafi verið heldur lágur. Ráðlagður dagsskammtur af D-vítamíni var þess vegna hækkaður fyrir tveimur árum síðan og er nú 15 míkrógrömm (600 AE) fyrir aldurshópinn 10 til 70 ára en 20 míkrógrömm (800 AE) fyrir fólk yfir sjötugu. Ráðlagður dagskammtur fyrir börn yngri en 10 ára og ungbörn er 10 míkrógrömm (400 AE) á dag. Nú er einnig ráðlagt að byrja að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 míkrógrömm) frá 1-2 vikna aldri í stað fjögurra vikna aldurs. 

Skortur og ofskömmtun


D-vítamínskortur veldur beinkröm hjá börnum og beinmeyru hjá fullorðnum. Beinkröm og beinmeyra lýsa sér með mjúkum og bognum beinum og aukinni hættu á beinbrotum. Hvað taugakerfið og ónæmiskerfið áhrærir eru skortseinkenni ekki fyllilega þekkt ennþá. Þó hefur D-vítamínskortur verið tengdur auknum líkum á veirusýkingum, svo sem inflúensu, HIV og berklum.

Vísbendingar eru um að góð staða D-vítamíns í blóði tengist minni líkum á beinbrotum aldraðra og ýmsum sjúkdómum svo sem krabbameini í görn, elliglöpum, þunglyndi, bólgusjúkdómum í þörmum, MS sjúkdómnum, astma, hjarta- og æðasjúkdómum og hvað varðar þungaðar konur hefur góð staða D-vítamíns verið tengd minni líkum á meðgöngusykursýki, meðgöngueitrun og lágri fæðingarþyngd. Hafa ber í huga að lág D-vítamín staða í blóði getur verið afleiðing sjúkdóms fremur en að valda sjúkdómi. Það er því algjörlega óraunhæft að ætla að D-vítamín komi í veg fyrir alla þessa sjúkdóma, hvað þá að það lækni þá.

Við getum ekki fengið of mikið D-vítamín úr sólinni, því umframmagn þess er brotið niður jafnóðum í húðinni. Aftur á móti er ofskömmtun D-vítamíns úr fæðubótarefnum þekkt og getur valdið eitrunareinkennum. Ef of mikið er af virku D-vítamíni í blóði yfir langt tímabil verður kalkstyrkur í blóði of hár og það getur valdið kalkútfellingum í líffærum sem er sársaukafullt og eyðileggur líffærin.

Efri mörk daglegrar neyslu fyrir D-vítamín yfir langan tíma eru 100 míkrógrömm (4000 AE) fyrir fullorðna og börn yfir 11 ára aldri, 50 míkrógrömm (2000 AE) fyrir börn 1-10 ára og 25 míkrógrömm (1000 AE) fyrir ungbörn. Efri mörkin eru vel undir eitrunarmörkum, en samt ætti enginn að fara yfir efri mörkin án samráðs við lækni.

Heimildir

Holick MF (2006). High prevalence of vitamin D inadequacy and implications for health. Mayo Clin. Proc. 81 (3): 353-73.

Shaffer JA, Edmondson D, Wasson LT, Falzon L, Homma K, Ezeokoli N, Li P, Davidson KW (2014). Vitamin D supplementation, 25-hydroxyvitamin D concentrations, and safety. The American Journal of Clinical Nutrition 76 (3): 190-6.

Autier P, Boniol M, Pizot C, Mullie P (2013). Vitamin D status and ill health: a systematic review. The Lancet Diabetes & Endocrinology 2: 76.

Ma Y, Zhang P, Wang F, Yang J, Liu Z, Qin H (2011). Association between vitamin D and risk of colorectal cancer: a systematic review of prospective studies. Journal of clinical oncology 29 (28): 3775-82.

Feldman D, Krishnan AV, Swami S, Giovannucci E, Feldman BJ (2014). The role of vitamin D in reducing cancer risk and progression. Nature reviews. Cancer 14 (5): 342-57.

Pierrot-Deseilligny C, Souberbielle JC (2010). Is hypovitaminosis D one of the environmental risk factors for multiple sclerosis? Brain: a journal of neurology 133 (7): 1869-88.

Del Pinto R, Pietropaoli D, Chandar AK, Ferri C, Cominelli F (2015). Association Between Inflammatory Bowel Disease and Vitamin D Deficiency: A Systematic Review and Meta-analysis. Inflammatory bowel diseases.

Aghajafari F, Nagulesapillai T, Ronksley PE, Tough SC, O’Beirne M, Rabi DM (2013). Association between maternal serum 25-hydroxyvitamin D level and pregnancy and neonatal outcomes: systematic review and meta-analysis of observational studies. BMJ 346.

Hart PH (2012). Vitamin D supplementation, moderate sun exposure, and control of immune diseases. Discovery Medicine 13 (73): 397-404.

Balion C, Griffith LE, Strifler L, Henderson M, Patterson C, Heckman G, Llewellyn DJ, Raina P (2012). Vitamin D, cognition, and dementia: a systematic review and meta-analysis. Neurology 79 (13): 1397-405.

Beard JA, Bearden A, Striker R (2011). Vitamin D and the anti-viral state. Journal of clinical virology: the official publication of the Pan American Society for Clinical Virology 50 (3): 194-200.

Spector SA (2011). Vitamin D and HIV: letting the sun shine in. Topics in antiviral medicine 19 (1): 6-10.

Cannell JJ, Vieth R, Umhau JC, Holick MF, Grant WB, Madronich S, Garland CF, Giovannucci E (2006). Epidemic influenza and vitamin D. Epidemiology and Infection 134 (6): 1129-40.

Nnoaham KE, Clarke A (2008). Low serum vitamin D levels and tuberculosis: a systematic review and meta-analysis. International Journal of Epidemiology 37 (1): 113-9.Friday, September 4, 2015

Hvað þarftu að hafa í huga ef þú ætlar að gerast grænmetisæta?

Fæði úr jurtaríkinu er ofarlega á lista þess sem næringarfræðingar mæla með. Þeir sem borða mikið af grænmeti, ávöxtum, berjum og heilkorni, hnetum, fræjum og baunum eru ólíklegri til að þjást af ýmsum langvinnum sjúkdómum, svo sem sykursýki 2, hjartasjúkdómum, háþrýstingi og mörgum tegundum krabbameins.

En það er líka góð næring í fiski, kjöti, mjólkurafurðum og eggjum. Úr sjávarafurðum fáum við joð, D-vítamín og virkara form af ómega-3 fitusýrum en úr jurtum, úr kjöti fáum við prótein, járn, sínk og önnur steinefni, úr mjólkurafurðum kalk og prótein, og úr eggjum prótein og ýmsar fitusýrur. Næringarfræðilega er margt sem mælir með því að borða blandað fæði úr bæði jurta- og dýraríkinu, til dæmis bæði grænmeti og fisk.

GrænmetisætaEru rósaberin girnileg, Brandur?


Sumir vilja ekki að dýrum sé slátrað til að næra okkur mannfólkið. Þeir borða samt dýraafurðir eins og egg og mjólkurmat, sem hægt er að nýta án þess að dýr sé drepið. Egg frá eggjabúum eru ófrjóvguð, og eftir margra alda kynbætur eru kýr farnar að mjólka mun meira en kálfurinn þarf til vaxtar.

Erlendis kalla sumir sig “vegetarian” þó þeir borði fisk og jafnvel fuglakjöt. Þeir gera það af heilsufarsástæðum, telja rautt kjöt vera óhollt. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða mikið af rauðu kjöti eru í meiri hættu á að fá hjartasjúkdóma og krabbamein í görn. Ekki er víst að það gildi líka um kjöt af dýrum sem lifa á grasi og fjallagróðri. Fitusýrusamsetningin er til dæmis ólík, því í grasi og villtum gróðri er mikið af ómega-3 fitusýrum sem skila sér að einhverju leyti í kjötið. Lengi vel tíðkaðist hér á landi að gefa svínum og kjúklingum lýsi. Það skilaði sér í hærra hlutfalli ómega-3 fitusýra í afurðunum, bæði kjöti og eggjum.

Vegan, strangt jurtafæði


Þeir sem aðhyllast vegan fæði borða ekkert úr dýraríkinu. Ástæðan getur verið bæði hugsjón og heilsufarsleg.

Erlendis eru húsdýr oftar en ekki alin á ódýru korni eins og maís sem er ríkt af ómega-6 fitusýrum en snautt af ómega-3. Fæði eldisdýra er stundum of einhæft og heilsufar þeirra bágborið. Velferð dýranna er ekki í fyrirrúmi á stórum verksmiðjubúum þar sem þau búa við þrengsli, óþrifnað og þungt loft innan dyra alla sína ævi.

Önnur ástæða þess að sumir gerast grænmetisætur varðar umhverfið. Skógar eru ruddir til að rækta korn eða gras ofan í nautgripi og önnur húsdýr. Það þarf mun meira landsvæði undir akra til að rækta dýrafóður sem að lokum skilar sér sem kíló af kjöti, heldur en ef við myndum rækta korn eða aðrar jurtir til manneldis. Þannig myndi hver hektari lands nýtast betur og minna þyrfti að ryðja af skógum.

B-12 og D-vítamín


Grænmetisætur þurfa að velja fjölbreytta fæðu úr jurtaríkinu til að fá öll þau næringarefni sem þeir þarfnast. Þeir sem borða mjólkurafurðir og/eða egg og fisk auk jurtafæðis eru ekki í mikilli hættu á næringarskorti.

Veganar sem ekki borða neitt úr dýraríkinu þurfa að taka B12 vítamín sem fæðubót. Þeir þurfa líka að huga að því að fá nóg kalk, járn, joð, sínk og ómega-3 fitusýrur úr fjölbreyttri fæðu. D-vítamín þurfa þeir að taka sem fæðubót yfir veturinn og jafnvel allt árið ef þeir eru ekki mikið úti á sumrin. Auk þess þurfa þeir að huga að því að nota fjölbreytta próteingjafa svo þeir fái allar lífsnauðsynlegar amínósýrur.

Ráð fyrir vegana


B-12 vítamínið er eingöngu að finna í dýraríkinu og í bruggarageri (brewers yeast). Sumt morgunkorn og sojamjólk er með viðbættu B-12 vítamíni. Að öðrum kosti verða veganar að taka B-12 vítamíntöflur.

D-vítamín fáum við úr sólarljósi yfir sumarið. Þeir sem ekki taka lýsi þurfa annan D-vítamíngjafa yfir veturinn. Það er ekki nóg að borða D-vítamínbættar afurðir eins og morgunkorn eða sojamjólk.

Eftirfarandi afurðir innihalda jafn mikið prótein og kjötstykki á stærð við spilastokk:

3 bollar sojamjólk, 1 bolli hnetublanda, 6 msk jarðhnetusmjör, 1,5 bollar soðnar linsubaunir, ¾ bolli sojabaunir, sojapróteinstykki á stærð við spilastokk, ¾ bolli tofu.

Prótein eru keðjur af amínósýrum. Við þurfum lífsnauðsynlega að fá 9 mismunandi amínósýrur úr fæðunni. Sum prótein innihalda aðeins hluta af þessum amínósýrum.

Sojabaunir (tofu) og quinoa innihalda allar þær amínósýrur sem við þurfum á að halda. Hvað varðar önnur matvæli úr jurtaríkinu þarf að blanda saman jurtum til að fá allar amínósýrurnar:

Linsubaunir með hrísgrjónum veita allar 9 amínósýrurnar, sömuleiðis maísbaunir með hrísgrjónum, sesamfræ með baunum eins og í baunamauki (hummus), heilkornabrauð með bökuðum baunum, og baunasúpa með heilkornabrauði.

Einnig limabaunir, grænar baunir, rósakál, blómkál eða brokkál með sesamfræjum, brasilíuhnetum eða sveppum.

Ekki þarf nauðsynlega að fá allar amínósýrurnar í hverri máltíð.

Eftirfarandi afurðir innihalda jafn mikið kalk og 1 bolli af kúamjólk:

1 bolli af kalkbættri sojamjólk, 1,75 bollar sólblómafræ, 1 bolli dökkgrænt kál (collard greens), 3 bollar soðnar baunir (þurrkaðar), 1 bolli möndlur.

Eftirfarandi afurðir eru járnríkar.:

Linsubaunir, dökkgrænt grænmeti, þurrkaðir ávextir, sveskjusafi, blackstrap mólassi, graskersfræ, sojahnetur (bleyttar og ristaðar sojabaunir), járnbætt morgunkorn.

Frásog járns verður meira í meltingarvegi ef C-vítamínrík matvæli (t.d. ávextir, sítrónur eða rófur) eru borðuð með þeim járnríku.

Eftirfarandi afurðir eru ríkar af sínki:

Hveitikím, hnetur og þurrkaðar baunir.

Eftirfarandi afurðir eru ríkar af joði:

Söl, þari (kelp). Að öðrum kosti er hægt að nota joðbætt salt eða fá joð úr steinefnatöflum.

Eftirfarandi afurðir eru ríkar af ómega-3 fitusýrum:

Hörfræolía, repjuolía.

Iðraólga og lág-fodmap fæði


Jurtafæði er kolvetnaríkt. Hluti kolvetnanna er ómeltanlegur og getur valdið uppþembu og vindgangi. Sumir þola þessi kolvetni illa og fá ristilkrampa, niðurgang eða hægðatregðu. Þetta kallast iðraólga og er ekki hættuleg, en getur verið afar óþægileg. Lág-fodmap fæði getur hjálpað þeim að ráða við einkennin og öðlast betri líðan.

Það er mikilvægt að fá faglega ráðgjöf því það er ekki ætlast til þess að neinn sé á ströngu lág-fodmap fæði til lengdar. Eftir 4-8 vikur á lág-fodmap fæði þarf að fara gegnum vandað endurkynningarferli þar sem einni og einni há-fodmap fæðutegund er bætt inn í fæðið og fylgst með einkennunum.

Það þarf að vanda lág-fodmap fæðuvalið svo næringarskortur verði ekki niðurstaðan. Þetta er mikilvægt fyrir grænmetisætur og alveg sérstaklega þá sem ekki borða neitt úr dýraríkinu, þe. vegana.

Ráðgjöf


Heilræði býður upp á ráðgjöf um jurtafæði. Einnig ráðgjöf og meðferð við iðraólgu sem byggir á lág-fodmap fæði og endurkynningarferli í kjölfarið.


Thursday, April 30, 2015

Ofát - aftenging

Á mínu æskuheimili var skylda að klára matinn sinn. Helst vildi móðir mín að við kláruðum úr pottunum líka því henni leiddust matarafgangar. Þetta varð til þess að ég aftengdi mig svengd og seddu og var alveg að springa í lok máltíðar. Samt fitnaði ég aldrei. Ástæðan er örugglega margþætt. Erfðafræðilega hef ég ekki tilhneigingu til að fitna. Seddutilfinning mín er mjög öflug. Og eftir stóra máltíð forðaðist ég að hugsa um mat í þó nokkra klukkutíma á eftir. Það leið því tiltölulega langt á milli máltíða.

Eftir að ég varð fullorðin gerði ég ítrekaðar tilraunir til að breyta þessu ofátsmunstri því ég gat aldrei notið þess að borða, auk þess sem vélindabakflæði fór að gera vart við sig. Ég fékk óstöðvandi hóstaköst í lok hverrar máltíðar og var stundum þungt fyrir brjósti í klukkutíma eftir máltíð.

En þó ég væri laus undan kröfum móður minnar var svo ríkt í mér að aftengja mig um leið og ég settist að borðum og borða vélrænt.

Kvöldverðurinn - umbun

Það kostaði íhugun og yfirlegu og síðast en ekki síst æfingu að komast yfir ofátið. Fyrsta skrefið var að gefa mér leyfi til að leifa afgangnum af matnum ef ég var orðin södd. Annað skrefið var að gefa mér leyfi til að fá mér aukabita seinna ef ég varð svöng. Það bjó nefnilega í mér ótti um að ef ég borðaði mig ekki sprengsadda af kvöldmatnum yrði ég að svelta til morguns. Þegar leyfin voru fengin þurfti ég að æfa mig árum saman. Ég féll margoft í gamla farið, en með seiglunni sigraði ég sjálfa mig að lokum. Það var ekki síst þegar ég hætti að skamma mig fyrir ofátið, og fór í staðinn að umbuna mér þegar vel gekk, sem ég náði árangri. Umbunin mín er lítill biti af dökku súkkulaði sem ég má fá mér ef ég borða hæfilega mikið af kvöldmatnum.

Morgunverðurinn - meðvitund

Nú gat ég notið kvöldmatarins án þess að vera afvelta til miðnættis, hósti og mæði á kvöldin snarminnkuðu. En þá var komið að morgunverðinum. Ég eldaði mér hafragraut á hverjum morgni og brytjaði banana út í hann. Og alltaf borðaði ég yfir mig af grautnum. Ég reyndi að elda minna magn af graut, en þá varð ég svöng aftur löngu fyrir hádegi. Ég sá að ástæða aftengingarinnar við morgunverðarborðið var ekki síst sú að ég var upptekin við að lesa dagblað á meðan ég borðaði og þess vegna var ég ekki með athyglina á svengd og seddu.

Ég ákvað að hætta að lesa blaðið á morgnana. Í staðinn einbeitti ég mér að máltíðinni, borðaði meðvitað og var í núinu allan tímann. Þetta gekk vel í nokkra daga en svo þreyttist ég á því. Ég saknaði blaðalestursins og viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég tímdi ekki að sleppa notalegri morgunstundinni yfir blaðinu.

Magnmæling

Að lokum fann ég aðra leið að sama markmiði. Ég mældi magnið af haframjöli sem fór í pottinn nokkra morgna í röð. Þá komst ég að því að þegar magnið fór yfir 1,5 dl varð ég allt of södd, en þegar magnið fór niður í 1,0 dl varð ég aftur svöng löngu fyrir hádegi.

Núna mæli ég magnið á hverjum morgni og passa að það sé á bilinu 1,2 til 1,4 dl. Vandamálið er leyst. Ég les blaðið og klára grautinn af disknum. Ég er aftengd og með alla einbeitinguna á blaðinu. En mér líður samt vel til hádegis.


Líkamsþyngd mín breyttist ekkert þó máltíðirnar minnkuðu því ég verð fyrr svöng og þess vegna líður styttra milli máltíða.

Tuesday, March 31, 2015

Reynslusögur

Fæðubótarefni, allt frá vítamín- og steinefnatöflum upp í drykki úr framandi kryddjurtum, eru auglýst grimmt í fjölmiðlum landsins. Oftar en ekki fylgir auglýsingunum reynslusaga þar sem ánægður viðskiptavinur segir frá. Stundum lítur auglýsingin út eins og frétt eða viðtal við einhvern sem þjáðist en hlaut bót meina sinna, og er frískur og brosandi á myndinni. Nafn vörunnar kemur skilmerkilega fram í slíku viðtali enda er hér um keypta auglýsingu að ræða þó annað mætti halda við fyrstu sýn.

Við skulum hafa í huga að sá sem framleiðir og markaðssetur fæðubótarefni vill selja sem mest, græða sem mest. Frásagnir ánægðra viðskiptavina sem glímdu við vandamál en telja sig hafa hlotið fulla bót eru öflug auglýsing. Jákvæð reynslusaga kveikir von og væntingar hjá fjölda fólks sem kannast við vandamálið sem lýst er og þráir lausn.

Uppspuni eða einlægni?

Það er gott að vera gagnrýninn, líka á reynslusögur. Í fyrsta lagi er hugsanlegt að reynslusagan sé uppspuni frá rótum. Sumir söluaðilar eru nógu ósvífnir til að búa til sögu af persónu sem ekki er til. Það er þó líklega algengara í milljónasamfélögum en hér í okkar fámenna landi. Aðrar reynslusögur eru sannar að því leyti að hinn ánægði viðskiptavinur er manneskja af holdi og blóði. Hún hefur jafnvel prófað viðkomandi fæðubótarefni og er einlæg í viðtalinu, segir satt og rétt frá sinni upplifun. En það er ekki nóg sem gæðastimpill fyrir viðkomandi vöru. Ef þúsund manns hafa keypt og prófað tiltekna vöru og tveir hafa fengið bót meina sinna er ólíklegt að varan eigi þar hlut að máli, því 998 viðskiptavinir fengu enga bót.

En þessir tveir sem töldu sig hafa hlotið bót skrifuðu fyrirtækinu eða komu að máli við söluaðilana og lýstu reynslu sinni. Kannski voru þetta frænka og vinur söluaðilans sem voru áköf að gleðja hann. Söluaðilinn var að sjálfsögðu ánægður og bað um leyfi til að birta sögu þeirra. Og það var bara sjálfsagt. Kannski fengu þau greitt fyrir með úttekt á vörum fyrirtækisins?

Þessir 998 sem enga bót fengu létu flestir ekkert í sér heyra, en örfáir skrifuðu e.t.v. skammarbréf til fyrirtækisins. Sumir vegna þess að þeir höfðu sóað peningum í gagnslausa vöru, aðrir vegna þess að þeir fundu fyrir aukaverkunum, annað hvort magapínu eða hjartsláttaróreglu, svima eða almennri vanlíðan. Fæðubótarefni geta nefnilega valdið aukaverkunum rétt eins og lyf. En fyrirtækið hefur vitaskuld engan áhuga á að kosta fé til að birta sögur óánægðra viðskiptavina.

Raunveruleg bót eða tilviljun?

Hugsum okkur að þessir þúsund einstaklingar hefðu tekið þátt í rannsókn á vegum vísindamanna sem ekki voru tengdir fyrirtækinu á nokkurn hátt. Ef þátttakendum rannsóknarinnar hefði verið gefið viðkomandi fæðubótarefni í ákveðinn tíma og fylgst með árangrinum, þá hefði niðurstaðan verið afgerandi. Aðeins 0,2% fengu bót meina sinna sem er langt innan marka tilviljunar. Ekki hefði verið hægt að draga aðra ályktun en að fæðubótarefnið sé gagnslaust.

En hvað með þessa tvo sem fengu bót? Var það raunveruleg lækning sem kom til vegna neyslu fæðubótarefnisins? Mjög líklega ekki. Ámóta hlutfall hvaða þúsund manna hóps sem er hefði fengið bót hvort sem þeir hefðu notað vöruna eða sleppt því. Kvef, meira að segja síkvef, gengur oftast yfir að lokum. Magaverkur lagast, gigtarverkur líka, svefnleysi gengur yfir.

Betri og verri tímabil

Ýmsir vægari sjúkdómar læknast sem betur fer af sjálfu sér. Alvarlegri sjúkdómar ganga oft í bylgjum, það koma verri tímabil og svo betri þess á milli. Þar er einmitt önnur hlið á reynslusögunum. Sá sem fær bót meina sinna og þakkar það fæðubótarefni sem hann var að taka verður fullur gleði og langar að deila reynslu sinni með öðrum. Hann skrifar fyrirtækinu eða talar við söluaðilann, hann samþykkir með ánægju að saga hans sé birt og telur sig gera öðrum gagn með því. En oft er það svo að einhverjum dögum, vikum eða mánuðum seinna gengur bótin til baka. Sjúkdómseinkennin láta aftur á sér kræla þó hann hafi tekið fæðubótarefnið samviskusamlega allan tímann. Hann glatar trúnni á fæðubótarefnið og hættir að taka það, en sú saga birtist aldrei. Við heyrum ekki af viðskiptavinunum sem héldu að þeir væru læknaðir en versnaði því miður aftur. Kraftaverkasagan verður á netinu til eilífðarnóns, en hún er orðin ósönn.

Snúum okkur aftur að vísindamönnunum sem ég minntist á hér að ofan. Ímyndum okkur að þeir hefðu viljað ganga úr skugga um hvort fæðubótarefnið hafði eitthvað að gera með þá bót sem tveir þátttakendur rannsóknarinnar af þúsund upplifðu. Vísindamennirnir hefðu gert aðra rannsókn á stærri hópi sjúklinga þar sem þeir skiptu hópnum í tvennt og létu annan helminginn fá fæðubótarefnið og hinn helminginn fá óvirka töflu sem leit eins út en innihélt ekki umrætt efni. Það er ekki ólíklegt að álíka margir úr báðum hópum hefðu fengið bót meina sinna og því ljóst að fæðubótarefnið hafði enga virkni umfram óvirku töfluna.

Það eru þrjár mögulegar skýringar á bata þessara einstaklinga. Eins og áður sagði batnar sumt af sjálfu sér og aðrir sjúkdómar ganga í bylgjum svo einkenni minnka eða hverfa um hríð. Þriðja skýringin er von og væntingar, trúin á bata og vellíðan tengd því að verið sé að taka á vandanum. Þetta kallast lyfleysuáhrif (placebo).

Trúin á bata

Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér og að trúa því að manni geti batnað og muni batna. En það er slæmt að eyða peningum í dýr fæðubótarefni sem hafa ekki meiri áhrif en tafla úr sykri eða hveiti.

Vítamín, steinefni og plöntuefni ýmis konar er raunar langbest að fá beint úr matnum sem við borðum, og það er líka miklu ódýrara. Sum fæðubótarefni gera gagn við vissar aðstæður þannig að einhverjir þurfa á þeim að halda í lengri eða skemmri tíma. En það ætti að vera í höndum löggilts næringarfræðings að meta það.

Placeboáhrif mega aldrei verða réttlæting fyrir því að pranga rándýrum fæðubótarefnum inn á fólk. Það er óréttlætanlegt að framleiðendur og söluaðilar fæðubótarefna notfæri sér veikindi fólks og vonir þess um bata.

Verum gagnrýnin og beitum skynseminni. Reynslusaga er ekkert meira en upplifun einnar manneskju eins og hún mundi hana og túlkaði á því augnabliki sem viðtalið var tekið.


Saturday, February 28, 2015

Enn meira um gerjanlegar sykrur (FODMAP)

Ég þjáðist eins og margar ungar konur af meltingartruflunum frá unglingsaldri. Um 1990 fór ég til meltingarsérfræðings og í ristilspeglun. Ekkert reyndist að ristli mínum. Þá fór ég til næringarráðgjafa. Hún sendi mig í mjólkursykursþolpróf sem var um leið almennt sykurþolspróf. Ég var látin drekka vökva sem innihélt mjólkursykur á fastandi maga og fór svo í nokkrar blóðprufur næstu klukkutímana á eftir. Í blóði mínu mældist eðlileg hækkun á glúkósa og lækkun innan eðlilegs tímaramma. Það var því hægt að fullyrða að mjólkursykurinn hefði verið klofinn af ensíminu laktasa niður í glúkósa og galaktósa. Þessar sykrur hefðu verið frásogaðar yfir í blóð og hormónið insúlín hefði hjálpað glúkósanum að komast inn í frumur líkamans.

Niðurstaðan var því sú að ég væri hvorki með mjólkursykursóþol (laktósaóþol) né sykursýki. Næringarráðgjafinn sendi mig næst í magaspeglun. Ekkert reyndist vera athugavert við þarmavegg skeifugarnar þannig að niðurstaðan var sú að ég væri ekki með glútenofnæmi / glútenóþol / selíak.

Iðraólga (IBS)

En meltingartruflanirnar voru enn að hrjá mig. Læknirinn sagði mig vera með iðraólgu (irritable bowel syndrome, IBS). Þetta væri streitutengdur sjúkdómur og ég gæti reynt slökun. Að öðru leyti væri ekkert við henni að gera. Ég gat ekki með nokkru móti ráðið við streitu í lífi mínu á þessu skeiði.

Næringarráðgjafinn ráðlagði mér að prófa mig áfram með það hvaða matartegundir yllu einkennunum. Ég hlýddi hennar ráðum og komst að því að ég þoli mjólkurvörur mjög vel. Ávextir, brauð, baunir og kálmeti ollu mér aftur á móti vandræðum. Ég fann ég varð skárri ef ég sneiddi hjá þessum matvælum eða borðaði þau í litlu magni með öðru. Mér batnaði samt ekki alveg af iðraólgunni.

Nokkru seinna hóf ég nám í næringarfræði og fór í skiptinám til Kaupmannahafnar haustið 2000. Eitthvað var minnst á glænýjar rannsóknir á gerjanlegum sykrum sem gætu valdið meltingartruflunum. Það var samt ekki fyrr en uppúr 2010 sem ég fór að kynna mér þessar rannsóknir. Þá sá ég að auk matvælanna sem ég hafði talið orsakavalda iðraólgunnar inniheldur laukur mikið af gerjanlegum sykrum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því enda er laukur yfirleitt hluti af máltíð sem samanstendur af mörgum fæðutegundum svo erfitt er að greina áhrifin af honum einum og sér. Auk þess voru ekki allir ávextir jafn slæmir. Epli og perur valda frekar einkennum en appelsínur og bananar.

Gerjanlegar sykrur (FODMAP)

FODMAP er skammstöfun og stendur fyrir Fermentable Oligosaccharides, Disaccharides, Monosaccharides, and Polyols. Gerjanlegar sykrur er einfaldasta þýðingin. Þær er að finna í ýmsum kolvetnaríkum matvælum og geta valdið meltingartruflunum og iðraólgu. Gerjanlegar kallast þær vegna þess að gerlar í ristlinum geta brotið þær niður og nýtt sem fæðu fyrir sig. Sumar þessara sykra getur heilbrigður líkami brotið niður að hluta eða öllu leyti og frásogað (flutt úr meltingarvegi yfir í blóð) áður en gerlarnir komast í þær. Þetta á við um mjólkursykur og frúktósa. Þeir sem eru með mjólkursykursóþol skortir hins vegar ensím sem brýtur mjólkursykurinn niður og þeir sem eru með frúktósavanfrásog geta illa frásogað frúktósa. Aðrar gerjanlegar sykrur (frúktan, galaktan og fjölalkóhól) getur mannskepnan ekki nýtt. Þau eru í lauk, baunum, hveiti, rúgi, byggi og ýmsum grænmetistegundum. Hvað mig varðar var ég ekki með mjólkursykursóþol, en frúktósavanfrásog var klárlega hluti af ástæðu iðraólgunnar auk viðkvæmni fyrir öðrum gerjanlegum sykrum.

Gerjanlegar sykrur sem ekki eru frásogaðar úr smáþörmum yfir í blóð ferðast í staðinn langa og hlykkjótta leið eftir smáþörmunum og alla leið niður í ristilinn. Á meðan allar þessar agnir eru á ferð streymir vatn úr blóðinu inn í holrými þarmanna til að þynna blönduna. Þetta heitir osmósa, agnirnar draga vatn að sér. Við þetta þenjast þarmarnir út og gefa okkur þá tilfinningu að við séum uppþembd.

Þegar gerjanlegu sykrurnar eru komnar niður í ristilinn kætast gerlarnir og byrja að brjóta þær niður. Við það myndast gas og okkur finnst við enn þandari. Hluti gassins fer gegnum ristilvegginn inn í blóð og við öndum því út um lungun. Restin fer út um endaþarm með tilheyrandi hljóði og lykt.

Það kannast flestir við það að verða uppþembdir, t.d. af brauði og fá vindgang í kjölfar máltíða. Ef það gengur fljótt yfir og veldur ekki miklum óþægindum er vel hægt að sætta sig við það.

Ástæða iðraólgu

Iðraólga er líklega vanstilling eða ofurnæmni í meltingartaugakerfinu, þannig að taugarnar sem liggja utan á meltingarveginum bregðast óeðlilega við þaninu sem verður þegar gerjanlegu sykrurnar fara þar um. Meltingarvegurinn verður ýmist ofvirkur, ýtir innihaldi sínu of hratt niður í átt að endaþarmi, eða vanvirkur, þarmahreyfingar minnka eða stöðvast um tíma. Sá sem þjáist af iðraólgu fær meltingartruflanir sem lýsa sér með ristilkrömpum, miklum vindgangi og óreglulegum hægðum, ýmist niðurgangi eða hægðatregðu.

Árið 2009 kláraði ég námið og ákvað að vinna sjálfstætt. Álag minnkaði verulega í mínu lífi. Auk þess var ég farin að stunda hugleiðslu og jóga. Einkenni iðraólgunnar minnkuðu að sama skapi. Ég get í dag borðað gerjanlegar sykrur án vandkvæða nema magnið sé þeim mun meira eða ég stödd í streitufullum aðstæðum. Mér virðist hafa tekist að endurstilla eða róa meltingartaugakerfið. En lág-FODMAP fæði hefði hjálpað mér á sínum tíma og það hefur reynst mörgum vel. 

Vandað til verka

Fyrir þá sem þjást af iðraólgu skiptir miklu máli hvað borðað er í staðinn fyrir þær fæðutegundir sem innihalda FODMAP svo fæðið verði nógu fjölbreytt og næringarríkt. Annars getur vítamín- og steinefnaskortur skapast. Auk þess þurfa fæstir að forðast allar gerðir FODMAP nema í nokkrar vikur. Þá tekur við ferli þar sem þeim er bætt aftur við fæðið einni og einni í einu og fylgst með viðbrögðunum.

Þeir sem vilja fá nákvæman lista yfir fæðutegundir sem innihalda FODMAP og hvaða fæðutegundir best er að borða í staðinn geta pantað viðtal hjá mér í tölvupósti eða síma. Sömuleiðis geta þeir sem þurfa aðstoð við að bæta einni og einni gerð FODMAP aftur inn í fæðið fengið hjá mér upplýsingar og aðstoð.


Thursday, February 26, 2015

Eru sítrónur og aðrir sítrusávextir eins mikil töfralyf og margir halda fram á veraldarvefnum?


Sítrónur og aðrir sítrusávextir innihalda ýmis næringarefni, t.d. A, E og C-vítamín, fólasín, járn, kalsíum og kalíum, auk trefja og sítrónusýru. (1)

Hvað varðar sítrónur er algengast að nota bara safann. Í honum eru engar trefjar, sáralítið A og E-vítamín, sáralítið kalsíum og mun minna fólasín heldur en í heilum sítrónum. Safinn er aftur á móti ríkur af C-vítamíni, kalíum og sítrónusýru. (1)

Sítrónusýra gerir sítrusávexti súra, með lágt pH gildi. Sítrónusýra getur leyst upp tannglerunginn og valdið glerungseyðingu sem er óafturkræfur sjúkdómur og lýsir sér í mikilli næmni fyrir hita og kulda og síðar sársauka. (2)

C-vítamín og kalíum er líka hægt að fá úr öðrum ávöxtum og úr grænmeti. Bláber, brokkál og paprika eru rík af C-vítamíni. Bananar og spínat eru góðir kalíumgjafar. Ýmsar hnetur, baunir og fræ eru kalíumrík. (1)

C-vítamín og kalíum eru lífsnauðsynleg næringarefni sem við þurfum að neyta í hæfilegu magni flesta daga lífsins.

Það er aftur á móti löngu búið að afsanna að háskammta C-vítamín meðferð fyrirbyggi eða lækni kvef, aðrar sýkingar eða krabbamein. (3)

Eftir að líkaminn meltir og brennir fæðuna verða steinefnin eftir. Kalíum og aðrar plúshlaðnar jónir, s.s. kalsíum og magnesíum, binda sýru og hafa því basamyndandi áhrif, hækka pH gildið.  Dýraafurðir og kornvörur eru sýrumyndandi vegna fosfats og brennisteinssambanda en ávextir og grænmeti eru basamyndandi. Hrein fita, einföld kolvetni og sterkja hafa engin áhrif á sýrustig. (4)

Sýrustig munnvatns er breytilegt eftir því hvaða fæðu við innbyrðum. Sýrustig þvags er líka breytilegt. En líkaminn stýrir sýrustiginu að öðru leyti. Saltsýra magans og natríumbíkarbónat þarmanna stýra sýrustiginu í meltingarveginum. Sýrustigi blóðs er stýrt af stuðpúðum eða dúum sem leysa og binda sýru eftir þörfum. Ef dúarnir hafa ekki undan tekur það lungun örfáar sekúndur að bregðast við með því að auka eða minnka útöndun sýru (koldíoxíðs). Nýrun sjá líka um að skilja út umframsýru sem endar í þvagi. Séu lungun veik tekur það nýrun 2-3 sólarhringa að stilla sýrustigið. Þannig er sýrustigi líkamans ætíð haldið á þröngu bili kringum 7,4. Annars skapast lífshættulegt ástand. (4,5)

Þeirri kenningu var varpað fram að ef of lítið væri af plúshlöðnum jónum í fæðinu yrði líkaminn í súrari kantinum. Það gæti haft alvarlegar langtímaafleiðingar, því líkaminn brygðist við með því að leysa kalsíum úr beinunum til að hlutleysa sýru í blóðinu. Þar af leiðandi gæti neysla sýrumyndandi fæðis (dýraafurða og kornvara) orsakað beinþynningu, og basamyndandi fæði (grænmeti og ávextir) hindrað hana. Þetta hefur verið afsannað. Þau smávægilegu basísku áhrif sem plúsjónir í fæði hafa á blóð skipta engu máli fyrir beinheilsu. (6,7)

Fylgnirannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða mikið af trefjaríkri fæðu úr jurtaríkinu fá síður ýmsa langvinna sjúkdóma eins og krabbamein, gigt og hjarta- og æðasjúkdóma. (8) Það hefur þó ekki tekist að  sýna fram á að það tengist basamyndandi áhrifum plúshlaðinna jóna á líkamsvessa. (7)

Niðurstaða:


Sítrónur og aðrir sítrusávextir eru næringarrík matvæli sem ættu að vera hluti af fjölbreyttu fæði okkar allra. C-vítamín og kalíum eru lífsnauðsynleg næringarefni sem við fáum úr grænmeti, ávöxtum, berjum, hnetum, fræjum og baunum.

Tannanna vegna er betra að drekka sítrónusafa í hófi eða með röri svo tennurnar komist hjá sýrubaði.

Engar vísbendingar eru um að sítrónur og aðrir sítrusávextir lækni eða fyrirbyggi krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma, beinþynningu, gigt, kvef eða aðrar sýkingar.

Sítrónur og aðrir sítrusávextir eru því miður ekki töfralyf.

Heimildir:


(3) http://www.quackwatch.com/01QuackeryRelatedTopics/pauling.html

(8) http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item25886/Endurskodadar-radleggingar-um-mataraedi

Friday, January 30, 2015

Offita, er hún sjúkdómur eða ekki?Ég hef undanfarin ár haldið fyrirlestra um Heilsu óháð holdafari. Fyrirlesturinn hef ég að mestu unnið upp úr bók næringar- og sálfræðingsins Lindu Bacon Health at every size. Við Linda hvetjum lesendur / áheyrendur okkar til að hugsa um heilsu og líðan frekar en kaloríur og kíló. Fögnum fjölbreytni í líkamsvexti. Það eru mannréttindi að fá að vera í þeirri stærð sem maður er.

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir líkama okkar. Njótum lífsins, drífum okkur í sund og sólbað, hlaupum og dönsum af hjartans lyst. Borðum oftast hollan mat, en leyfum okkur stöku sinnum að borða það sem okkur langar í. Og þá skulum við njóta þess án samviskubits.

“Offita er ekki sjúkdómur”

Linda Bacon vill ekki líta á offitu sem sjúkdóm. Óheilbrigður lífsstíll á borð við kyrrsetu og ofneyslu á óhollum mat geti aftur á móti valdið sjúkdómum. Þess vegna sé um að gera að hreyfa sig og borða hollan mat, auk þess að fá þá hvíld og slökun sem við þurfum. Feitir lifi ekki allir óheilbrigðu lífi og því síður lifi allir mjóir heilbrigðu lífi. Fólk af öllum stærðum geti bætt heilsu sína og líðan með því að taka upp heilbrigðan lífsstíl, án þess endilega að grennast. Með bættum lífsstíl megi greina lækkun í blóðþrýstingi, minni mæði, betri blóðsykursstjórnun og fleira. Þetta gerist meira að segja hjá verulega feitu fólki án þess það hafi misst nema örfá kíló.

“Offita er sjúkdómur”

Kanadíski læknirinn Arya M Sharma hélt fyrirlestur fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Læknadögum. Hann er ósammála Lindu Bacon um eitt grundvallaratriði en um annað eru þau býsna sammála.

Offita er sjúkdómur, segir dr. Sharma. Hún er alvarlegur langvinnur sjúkdómur sem þróast og versnar ef ekkert er að gert. Fólk sem byrjar að fitna og tekur ekki á vandanum heldur áfram að fitna. Smám saman þróar það með sér fylgikvilla sem versna með tímanum.

Fitusöfnun á kvið getur valdið insúlínviðnámi. Mikill líkamsþungi reynir á liðamót í mjöðmum, hnjám og ökklum. Hreyfing verður erfiðari og beingigt getur þróast með aldrinum. Með ofáti og fitusöfnun á kvið og brjóstkassa er hætt við vélindabakflæði og kæfisvefni. Háþrýstingur, sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdómar geta fylgt í kjölfarið.

Það er erfitt að grenna sig

Ekki telja sjúklingum sem til ykkar leita trú um að það sé auðvelt að grenna sig og halda sér grönnum, sagði dr. Sharma. Það er ekki auðvelt, heldur þvert á móti verulega erfitt. Það er undantekning ef það tekst.

Ástæðan er sú að þegar líkaminn er kominn upp í einhverja þyngd, þá vill hann halda sér í þeirri þyngd og berst á hæl og hnakka gegn öllum okkar tilraunum til að breyta því (sjá pistil minn um þetta efni hér).

Það er hægt að hægja á þróun offitusjúkdómsins, jafnvel stöðva hana, og í sumum tilvikum er hægt að snúa henni við upp að vissu marki en það kostar ævilanga meðferð. Offitusjúklingar þurfa að vera einbeittir og á tánum alla ævi til að halda í við þróun sjúkdómsins og fylgikvilla hans.

Óraunhæfar væntingar

Meðferðin felst í því að taka lyf við fylgikvillunum (sykursýkislyf, blóðþrýstingslyf, hjartalyf, bakflæðislyf, gigtarlyf) ásamt lífsstílsbreytingu. En – segir dr. Sharma – það er óraunhæft að heilbrigður lífsstíll með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu muni skila meira en 5-10% tapi líkamsþyngdar þegar til lengri tíma er litið. Sá sem er 100 kg getur búist við að verða 90-95 kg ef hann tekur upp heilbrigðan lífsstíl og heldur sig við hann hvern einasta dag upp frá því. Sú sem er 110 kg getur búist við að verða 99-105 kg. Auðvitað eru til undantekningar, fólk sem nær af sér tugum kílóa. Flestir fitna þeir aftur, ekki þó allir. En fyrir langflesta er óraunhæft að ætla sér að missa meira en 5-10% líkamsþyngdar.

Arya M Sharma er sammála Lindu Bacon um að heilbrigður lífsstíll skili raunverulegum og mælanlegum heilsufarsávinningi þó líkamsþyngdin breytist ekki að ráði. Blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, þrek og þol séu þeir mælikvarðar sem gefa árangur offitumeðferðar til kynna en ekki líkamsþyngd og mittismál.

Andlegt niðurbrot

Það sem brýtur offitusjúklinga niður andlega eru útlitskröfur samfélagsins, væntingar þeirra sjálfra, aðstandenda þeirra og meðferðaraðila um þyngdartap upp á tugi kílóa, og skilaboðin um að þetta sé ekkert mál, þetta sé auðvelt og byggi bara á viljastyrk. Ekkert er fjær sanni, segir dr. Sharma.

Sátt

Hvort sem við erum sammála Bacon eða Sharma; hvort sem við lítum á offitu sem sjúkdóm eða ekki er ljóst að fylgikvillarnir eru alvarlegir. Þeir fyrirfinnast hjá fólki af öllum stærðum en eru mun algengari meðal þeirra sem eru feitir.

Sáttin skiptir miklu máli fyrir þá sem vilja breyta lífi sínu. Að sættast við sjálfan sig með öllum sínum veikleikum og sættast við fortíðina. Margir þurfa að syrgja það hvernig þeir hafa komið fram við líkama sinn hingað til. Þegar sáttinni er náð vaknar löngun til að lifa heilbrigðu lífi, löngun til að koma fram við sjálfan sig af virðingu og umhyggju. Því það er aldrei of seint að taka upp heilbrigðan lífsstíl, óháð holdafari.