Monday, May 23, 2016

Bakflæði, þrálát nefstífla og hósti. Gætu öndunaræfingar hjálpað?

Flestir hafa einhvern tíma fengið brjóstsviða en hjá sumum er vandamálið viðvarandi og kallast þá vélindabakflæði (gastroesophageal reflux disease, GERD). Oft er hægt að sjá með magaspeglun að opið milli magans og vélindans er of vítt og stundum eru komnar bólgur eða sár á slímhúð vélindans, því magasýran er ertandi.

Vægt vélindabakflæði (non-erosive reflux disease, NERD) sést ekki við magaspeglun en því fylgja miklar ræskingar og hósti á morgnana og/eða í kjölfar máltíða. Ástæðan gæti verið sú að lítið magn sýru sem kemst upp í vélindað erti taugar sem liggja til lungnaberkjanna og valdi því að þær fara að framleiða slím (1). Upp úr þessu getur smám saman þróast astmi.

Lífsstíll


Reykingar, áfengisneysla og ákveðnar matartegundir hafa þótt ýta undir bakflæði. Fyrir áratug tók vísindamaður nokkur saman allar rannsóknir á sambandi lífsstíls og bakflæðis (2). Vandaðar rannsóknir voru af skornum skammti og niðurstaðan var sú að ekki hefði verið sýnt nægilega vel fram á að það að forðast tóbak, áfengi eða fæðutegundir eins og fitu, kaffi, súkkulaði, myntu, sítrusávexti, kolsýrða drykki og sterkkryddaðan mat hefði marktæk áhrif á einkenni bakflæðis.

Fæðumunstrið getur aftur á móti skipt máli. Best er að borða ekkert 3 klst fyrir svefn (2). Maginn framleiðir meiri sýru fyrstu klukkustundirnar eftir máltíð og það er helst þegar við liggjum í láréttri stöðu sem magasafinn rennur upp í vélindað. Yfirfullur magi getur aukið hættuna á því.

Svefn


Svefnstaðan skiptir líka máli. Betra er að liggja á vinstri en hægri hlið, en þar sem flestir snúa sér oft í svefninum veit ég ekki hvort sú vitneskja hjálpar. Það er einfaldara að grípa til þess ráðs að sofa með hærra undir höfðalaginu (2,3). Þá á ég ekki við að nota þykkari kodda. Það gerir ekkert gagn. Ég á við að setja 10-20 cm þykka trékubba undir fæturna á rúminu, höfðalagsmegin. Sum rúm er hægt að hækka handvirkt eða rafdrifið frá miðjunni. Einnig er hægt að kaupa skáhallandi yfirdýnu sem nær niður að mjöðmum. Hvort tveggja ætti að duga (3).

Það er fleira sem einstaklingar með bakflæði geta gert til að bæta líðan sína. Föt sem þrengja að kviðnum stuðla að bakflæði og það gerir mikil kviðfita líka. Ástæðan er ekki ljós en víð föt og þyngdartap geta bætt ástandið (2).

Eftir máltíð ætti einnig að forðast að beygja sig eða hreyfa sig ákaft, og gæta þess að sitja uppréttur en ekki samankrumpaður í sófa.

Síkvef


Bakflæði heitir það líka þegar hor rennur aftan úr nefi niður í kok (laryngopharyngeal reflux, LPR). Þessar tvær tegundir bakflæðis fara oft saman. Ástæðan gæti verið sú að magasýra sem sullast upp úr maganum í vélindað gufar upp og þegar við stöndum upprétt leitar gufan upp í kokið og þaðan alla leið upp í nefholið og jafnvel kinnholurnar (1). Slímhúðin þar er ennþá viðkvæmari fyrir sýruárás en slímhúð vélindans. Þrálát hæsi, nefstífla og kinnholubólga eru einkennin. Auk mikillar þarfar fyrir að snýta sér rennur hor aftur í kok yfir nóttina og myndar kekki aftan í hálsinum sem hóstað er upp eða kyngt í morgunsárið (1).

Öndun


Þindin er stór beinagrindarvöðvi sem aðskilur kviðarhol frá brjóstholi. Hún styður við hringvöðvann sem á að hindra bakflæði úr maga í vélindað. Nýleg rannsókn bendir til þess að þjálfun þindarinnar styrki hringvöðvann svo bakflæði minnkar (4,5).

Við notum þindina ásamt vöðvum rifjahylkisins til öndunar. Þegar þindin dregst saman lyftist kviðurinn og lungun fyllast af lofti og öfugt þegar hún slaknar. Í rannsókninni var þindin þjálfuð með öndunaræfingum í hálftíma á dag í 4 vikur. Meðal annars var þátttakendum sagt að halda fyrir aðra nösina í einu svo þindin þyrfti að reyna meira á sig við að draga loftið inn í lungun. Æfingarnar voru framkvæmdar í standandi, sitjandi og liggjandi stöðu.

Það náðist marktækur árangur sem lýsti sér með minna af mældri sýru í vélindanu heldur en í upphafi og minni bakflæðiseinkennum samkvæmt spurningalista sem þátttakendurnir fylltu út.

Æfingin skapar meistarann


Að 9 mánuðum liðnum voru þátttakendurnir fengnir í viðtal á nýjan leik. Þeir sem höfðu haldið æfingunum áfram heima voru ennþá marktækt betri af bakflæðinu en þeir voru áður en rannsóknin hófst. Lyfjanotkun þeirra var aðeins þriðjungur þess sem þeir þurftu í upphafi. Samt notaði helmingur þeirra öndunartæknina aðeins einu sinni til tvisvar í viku og nokkrir sögðust bara grípa til hennar þegar þeir fengu brjóstsviða. Hinir sem gáfust upp og hættu þjálfuninni eftir 4 vikur voru komnir í sömu stöðu og áður en rannsóknin hófst.

Þetta var lítil rannsókn og takmarkaðist af því að viðmiðunarhópurinn fékk enga meðferð í þessar 4 vikur sem rannsóknarhópurinn var í þindarþjálfun. Í kjölfarið fengu báðir hóparnir  þjálfun og náðu svipuðum árangri. En það breytir því ekki að þátttakendurnir voru ekki blindir á það hvort þeir fengu virka meðferð eða ekki og það er þar af leiðandi ekki hægt að útiloka lyfleysuáhrif.

Þessi rannsókn er afar áhugaverð. Hana þyrfti að endurtaka á stærri hópi með betra viðmiði.

Heimildir


1) TR DeMeester.  Evolving concepts of reflux: The ups and downs of the LES.  Can J Gastroenterol 2002;16(5):327-331.
2) Kaltenbach T, Crockett S, Gerson LB: Are lifestyle measures effective in patients with gastroesophageal reflux disease? An evidence based approach. Arch Intern Med 2006; 166: 965-971.
3) Hamilton JW, Boisen RJ, Yamamoto DT, Wagner JL, Reichelderfer M. Sleeping on a wedge diminishes exposure of the esophagus to refluxed acid. Dig Dis Sci 1988; 33: 518-522.
4) Eherer A. Management of gastroesophageal reflux disease: lifestyle modifications and alternative approaches. Dig Dis 2014; 32:149-151.
5) Eherer A, Netolitzky F, Högenauer C, Puschnig G, Hinterleitner TA, Scheidl S, Kraxner W, Krejs GJ, Hoffmann KM. Positive effect of abdominal breathing exercise on gastroesophageal reflux disease: a randomized controlled study. Am J Gastroenterol 2012; 107: 372-378.