Í barnauppeldi gildir að umbun og hrós eru
áhrifaríkari leið heldur en refsing og skammir til að styrkja jákvæða hegðun barnsins
og dempa þá neikvæðu. Það getur hreinlega styrkt neikvæðu hegðunina að refsa og
skamma, því neikvæð athygli er betri en engin.
Sem fullorðnar manneskjur eigum við í
stöðugum samskiptum við okkur sjálf. Og við erum ekki alltaf ánægð með okkar
eigin hegðun. Við gætum til dæmis viljað breyta mataræði okkar. Viljað hætta að
borða sælgæti og skyndibita og borða í staðinn hollari mat.
Hrós frekar en skammir
Í samskiptum okkar við okkur sjálf gildir
það sama og í barnauppeldi. Umbun og hrós sem við gefum okkur sjálfum styrkja
þá hegðunarbreytingu sem við erum að reyna að tileinka okkur, en að dæma okkur,
skamma og refsa fyrir minnstu frávik, hefur öfug áhrif.
Þess vegna er ekki árangursríkt ef við
dæmum okkur hart fyrir að freistast af óhollum mat sem við vorum búin að lofa
okkur að borða ekki, eða þegar við fáum okkur meira af óhollustu en við ætluðum
okkur.
Það er árangursríkara að við hrósum okkur
þegar við stöndum okkur vel. Gefum okkur klapp á bakið í hvert skipti sem við
veljum hollan mat fram yfir óhollan. Hvetjum okkur áfram í hvert skipti sem við
stöndumst freistinguna að fá okkur óhollustu. Hrósum okkur fyrir hvert einasta
skref í rétta átt. Þannig eflum við trú okkar á eigin getu.
Umbun frekar en refsing
Verðlaun eða umbun er líka mikilvæg. Þó
holli maturinn kosti peninga líkt og sá óholli getum við heitið því að leggja litla
upphæð fyrir í hvert skipti sem við veljum hollan mat. Í lok mánaðarins getum farið
í bíó eða keypt okkur eitthvað sem okkur langar í. Ef við erum nógu þolinmóð
getum við safnað lengur og leyft okkur eitthvað dýrara. Það er líka ótrúlega
góð og eflandi tilfinning að gefa pening til góðra málefna.
Við getum eins veitt okkur umbun á formi
tíma fyrir okkur sjálf. Dekurdagur þarf ekki að vera nammidagur, hann má snúast
um annars konar dekur. Umbun getur líka falist í því að gera skemmtilega hluti
í góðum félagsskap. Notum hugmyndaflugið og verðlaunum okkur með einhverju sem
er jákvætt fyrir heilsu okkar og líðan.
Hrösun er ekki “fall”
En þegar við látum óvart freistast af
óhollustu? Hvað eigum við að gera í staðinn fyrir að dæma okkur og skamma?
Það er hluti af eðlilegu mataræði að borða
stöku sinnum takmarkað magn af einhverju sem ekki telst vera hollt. Það getur
aftur á móti verið hrösun ef við freistumst til að fá okkur meira en við
ætluðum okkur, eða ef við látum oftar undan freistingunni en við höfðum lofað
sjálfum okkur að gera.
Við skulum samt gæta þess að túlka ekki
hrösun sem “fall”, og að þá sé allt unnið fyrir gýg. Það er hvorki átkast,
bakslag eða “fall” að fá sér einum súkkulaðimola of mikið eða skyndibita
tvisvar í sama mánuðinum.
Hrösun getur orðið að bakslagi eða “falli”
ef við gerum of mikið veður út af henni, því þá er hætt við því að við gefumst
upp á sjálfum okkur. Ef við dæmum okkur vonlaus við fyrsta bita getum við alveg
eins klárað allt nammið. Við erum hvort eð er fallin, ekki satt?
Fyrirgefa og læra
Það eru meiri líkur á að okkur takist að
stoppa okkur af áður en hrösun verður að átkasti eða bakslagi ef við fyrirgefum
okkur umsvifalaust að hafa hrasað en heitum því að gera betur næst, læra af
mistökunum. Lærdómurinn gæti til dæmis verið sá að það sé of freistandi að eiga
hlaupkalla eða kex uppi í skáp. Það sé betra að hafa nammifrítt svæði á
heimilinu. Lærdómurinn gæti líka verið sá að við þurfum að biðja
fjölskyldumeðlimi að taka tillit til okkar og koma ekki með nammiskál fram í
stofu.
Líkur á hrösun minnka því færri sem
freistingarnar eru í umhverfi okkar. En við erum ekki fullkomin. Þess vegna
hrösum við öll stundum. Nýja mataræðið þarf heldur ekki að vera fullkomið, bara
talsvert betra en það sem fyrir var.