Fæðubótarefni, allt frá vítamín- og
steinefnatöflum upp í drykki úr framandi kryddjurtum, eru auglýst grimmt í
fjölmiðlum landsins. Oftar en ekki fylgir auglýsingunum reynslusaga þar sem
ánægður viðskiptavinur segir frá. Stundum lítur auglýsingin út eins og frétt
eða viðtal við einhvern sem þjáðist en hlaut bót meina sinna, og er frískur og
brosandi á myndinni. Nafn vörunnar kemur skilmerkilega fram í slíku viðtali
enda er hér um keypta auglýsingu að ræða þó annað mætti halda við fyrstu sýn.
Við skulum hafa í huga að sá sem framleiðir
og markaðssetur fæðubótarefni vill selja sem mest, græða sem mest. Frásagnir
ánægðra viðskiptavina sem glímdu við vandamál en telja sig hafa hlotið fulla
bót eru öflug auglýsing. Jákvæð reynslusaga kveikir von og væntingar hjá fjölda
fólks sem kannast við vandamálið sem lýst er og þráir lausn.
Uppspuni eða einlægni?
Það er gott að vera gagnrýninn, líka á
reynslusögur. Í fyrsta lagi er hugsanlegt að reynslusagan sé uppspuni frá
rótum. Sumir söluaðilar eru nógu ósvífnir til að búa til sögu af persónu sem
ekki er til. Það er þó líklega algengara í milljónasamfélögum en hér í okkar
fámenna landi. Aðrar reynslusögur eru sannar að því leyti að hinn ánægði
viðskiptavinur er manneskja af holdi og blóði. Hún hefur jafnvel prófað
viðkomandi fæðubótarefni og er einlæg í viðtalinu, segir satt og rétt frá sinni
upplifun. En það er ekki nóg sem gæðastimpill fyrir viðkomandi vöru. Ef þúsund
manns hafa keypt og prófað tiltekna vöru og tveir hafa fengið bót meina sinna
er ólíklegt að varan eigi þar hlut að máli, því 998 viðskiptavinir fengu enga
bót.
En þessir tveir sem töldu sig hafa hlotið bót
skrifuðu fyrirtækinu eða komu að máli við söluaðilana og lýstu reynslu sinni.
Kannski voru þetta frænka og vinur söluaðilans sem voru áköf að gleðja hann. Söluaðilinn
var að sjálfsögðu ánægður og bað um leyfi til að birta sögu þeirra. Og það var
bara sjálfsagt. Kannski fengu þau greitt fyrir með úttekt á vörum
fyrirtækisins?
Þessir 998 sem enga bót fengu létu flestir ekkert
í sér heyra, en örfáir skrifuðu e.t.v. skammarbréf til fyrirtækisins. Sumir
vegna þess að þeir höfðu sóað peningum í gagnslausa vöru, aðrir vegna þess að þeir
fundu fyrir aukaverkunum, annað hvort magapínu eða hjartsláttaróreglu, svima
eða almennri vanlíðan. Fæðubótarefni geta nefnilega valdið aukaverkunum rétt eins
og lyf. En fyrirtækið hefur vitaskuld engan áhuga á að kosta fé til að birta
sögur óánægðra viðskiptavina.
Raunveruleg bót eða tilviljun?
Hugsum okkur að þessir þúsund einstaklingar
hefðu tekið þátt í rannsókn á vegum vísindamanna sem ekki voru tengdir
fyrirtækinu á nokkurn hátt. Ef þátttakendum rannsóknarinnar hefði verið gefið
viðkomandi fæðubótarefni í ákveðinn tíma og fylgst með árangrinum, þá hefði
niðurstaðan verið afgerandi. Aðeins 0,2% fengu bót meina sinna sem er langt
innan marka tilviljunar. Ekki hefði verið hægt að draga aðra ályktun en að fæðubótarefnið
sé gagnslaust.
En hvað með þessa tvo sem fengu bót? Var
það raunveruleg lækning sem kom til vegna neyslu fæðubótarefnisins? Mjög líklega
ekki. Ámóta hlutfall hvaða þúsund manna hóps sem er hefði fengið bót hvort sem
þeir hefðu notað vöruna eða sleppt því. Kvef, meira að segja síkvef, gengur
oftast yfir að lokum. Magaverkur lagast, gigtarverkur líka, svefnleysi gengur
yfir.
Betri og verri tímabil
Ýmsir vægari sjúkdómar læknast sem betur
fer af sjálfu sér. Alvarlegri sjúkdómar ganga oft í bylgjum, það koma verri
tímabil og svo betri þess á milli. Þar er einmitt önnur hlið á reynslusögunum.
Sá sem fær bót meina sinna og þakkar það fæðubótarefni sem hann var að taka
verður fullur gleði og langar að deila reynslu sinni með öðrum. Hann skrifar
fyrirtækinu eða talar við söluaðilann, hann samþykkir með ánægju að saga hans
sé birt og telur sig gera öðrum gagn með því. En oft er það svo að einhverjum
dögum, vikum eða mánuðum seinna gengur bótin til baka. Sjúkdómseinkennin láta
aftur á sér kræla þó hann hafi tekið fæðubótarefnið samviskusamlega allan
tímann. Hann glatar trúnni á fæðubótarefnið og hættir að taka það, en sú saga
birtist aldrei. Við heyrum ekki af viðskiptavinunum sem héldu að þeir væru
læknaðir en versnaði því miður aftur. Kraftaverkasagan verður á netinu til
eilífðarnóns, en hún er orðin ósönn.
Snúum okkur aftur að vísindamönnunum sem ég
minntist á hér að ofan. Ímyndum okkur að þeir hefðu viljað ganga úr skugga um
hvort fæðubótarefnið hafði eitthvað að gera með þá bót sem tveir þátttakendur rannsóknarinnar
af þúsund upplifðu. Vísindamennirnir hefðu gert aðra rannsókn á stærri hópi
sjúklinga þar sem þeir skiptu hópnum í tvennt og létu annan helminginn fá
fæðubótarefnið og hinn helminginn fá óvirka töflu sem leit eins út en innihélt
ekki umrætt efni. Það er ekki ólíklegt að álíka margir úr báðum hópum hefðu
fengið bót meina sinna og því ljóst að fæðubótarefnið hafði enga virkni umfram óvirku
töfluna.
Það eru þrjár mögulegar skýringar á bata
þessara einstaklinga. Eins og áður sagði batnar sumt af sjálfu sér og aðrir sjúkdómar
ganga í bylgjum svo einkenni minnka eða hverfa um hríð. Þriðja skýringin er von
og væntingar, trúin á bata og vellíðan tengd því að verið sé að taka á vandanum.
Þetta kallast lyfleysuáhrif (placebo).
Trúin á bata
Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér
og að trúa því að manni geti batnað og muni batna. En það er slæmt að eyða
peningum í dýr fæðubótarefni sem hafa ekki meiri áhrif en tafla úr sykri eða
hveiti.
Vítamín, steinefni og plöntuefni ýmis konar
er raunar langbest að fá beint úr matnum sem við borðum, og það er líka miklu ódýrara.
Sum fæðubótarefni gera gagn við vissar aðstæður þannig að einhverjir þurfa á
þeim að halda í lengri eða skemmri tíma. En það ætti að vera í höndum löggilts
næringarfræðings að meta það.
Placeboáhrif mega aldrei verða réttlæting
fyrir því að pranga rándýrum fæðubótarefnum inn á fólk. Það er óréttlætanlegt
að framleiðendur og söluaðilar fæðubótarefna notfæri sér veikindi fólks og
vonir þess um bata.
Verum gagnrýnin og beitum skynseminni. Reynslusaga
er ekkert meira en upplifun einnar manneskju eins og hún mundi hana og túlkaði á
því augnabliki sem viðtalið var tekið.