Friday, December 1, 2017

#metoo #höfumhátt og öll hin myllumerkin.

Hrikalega hefur verið erfitt að þegja allar þessar vikur, alla þessa mánuði, öll þessi ár. Ég hélt það væri nóg að segja fagaðilum frá þessu, trúnaðarvinkonum og tala um þetta á sjálfshjálparfundum. En það er ekki nóg.

Ef það má bara hvísla um sifjaspell við fólk sem lofar að þegja, þá er það ennþá leyndarmál, þá er skömmin ennþá mín en ekki hans.

Í hvert skipti sem ég les frásagnir annarra undir ofangreindum myllumerkjum, í hvert skipti sem ég les viðtöl við þolendur kynferðisofbeldis eða bækur þeirra fyllist ég af miklu óþoli. Ég hef þráð að öskra ÉG LÍKA. En alltaf hef ég hætt við, ákveðið að þegja frekar. Í hvert skipti sem ég heyri fólk tala af virðingu og upphafningu um föður minn verður mér óglatt. Mig hefur langað að kasta upp en alltaf hef ég kyngt og þagað.

Ég er að kafna í þessari þögn.

Ég taldi að sagan mín myndi ekki bæta neinu við frásagnir annarra. En staðreyndin er sú að hver einasta frásögn, viðtal og bók hefur gefið mér nýtt sjónarhorn, hjálpað mér að skilja sjálfa mig betur og linað sársauka minn. Það er svo gott að vita að maður er ekki einn, og að við erum ekki einu sinni fá, við erum mörg og eigum svo margt sameiginlegt. Þess vegna hef ég ákveðið að stíga fram. Mig langar að gefa til baka. Og mig langar að stuðla að betri heimi, heimi sem er laus við kynferðisofbeldi, laus við þöggun, laus við skömm.

Faðir minn var pervert, nauðgari og barnaníðingur. Hann var líka hæstaréttarlögmaður og frímúrari.

Ég hef verið um 7 ára aldurinn þegar hann reyndi að troða tippinu undir nærbuxurnar mínar þar sem ég lá á milli foreldra minna. Mamma öskraði upp og reif mig frá honum.
Árum saman lét hann mig standa yfir sér inni á baði á meðan hann pissaði, skeindi sig og fróaði sér. Það var enginn sem stöðvaði hann í því. Ætli síðasta skiptið hafi ekki verið þegar ég var 12 ára, skömmu áður en hann dó.
Hann lét mig líka horfa á sig þar sem hann speglaði sig nakinn eða með buxurnar á hælunum fyrir framan mannhæðarháan spegil í holinu. Svo gyrti hann sig ánægður. Ef einhver hringdi á dyrabjölluna þegar hann var í miðju kafi flýði hann inn á baðherbergi, og reyndi að girða sig á leiðinni.
Svo nauðgaði hann mömmu þegar hann kom heim af frímúrarafundi, fullur. Ég var andvaka í herberginu mínu af því ég fékk ekki lengur að sofa uppí. Daginn eftir setti mamma púða í stólinn áður en hún settist með sársaukagrettu á andlitinu. Og þegar hún náði í gráa og illa lyktandi borðtusku til að þurrka af borðinu henti hún henni á borðið fyrir framan pabba og hvæsti:

Mér líður eins og borðtusku, það er hægt að nota mig og svo er mér bara fleygt.

Þöggunartilburðum hef ég mætt frá fjölskyldunni, en líka frá ýmsum fagaðilum sem hafa ráðið mér frá því að opinbera sifjaspellið. Sjálfsagt hafa þeir gert það af góðum hug, viljað hlífa mér við álaginu sem viðbrögðin geta valdið.

En ég hef ákveðið að taka áhættuna því þagað get ég ekki lengur.

#metoo #höfumhátt og öll hin myllumerkin.




No comments:

Post a Comment