Monday, March 1, 2010

Átröskun og hin innri rödd dómarans

Átraskanir eru alvarlegar geðraskanir, sem birtast í sjálfsvelti eða lotuáti með framkölluðum uppköstum eða misnotkun hægðalyfja. Þetta er þó bara birtingarmyndin Undir niðri býr sterkur ótti við að fitna, eða löngun til að grennast. Og ástæða þessa ótta er lágt sjálfsmat, og í raun sjálfshöfnun.
Öll erum við stundum gagnrýnin á sjálf okkur, en einstaklingur með átröskun rífur sjálfan sig endalaust niður. Sjálfsgagnrýnin virðist eiga sér sjálfstætt líf innra með einstaklingnum. Rödd þessa “dómara” yfirgnæfir allt annað í huga einstaklingsins og “bannar” einstaklingnum að borða, að njóta matar, eða “skipar” einstaklingnum að losa sig við matinn með uppköstum eða hægðalyfjum, eða með því að fara út að hlaupa eða í ræktina.
Við sveltið/lotuátið framkallast vellíðan í stutta stund Einstaklingnum finnst hann hafa náð stjórn. En þessi tilfinning er bara blekking, og þegar dómarinn ygglir sig á nýjan leik, og vanlíðanin vaknar, finnst einstaklingnum aftur að hann þurfi að neita sér um mat, eða borða yfir sig og losa sig svo við matinn. Þannig heldur þetta áfram hring eftir hring og vellíðanin lætur á sér standa; vanlíðanin tekur smám saman meira pláss. Við þetta finnst einstaklingnum hann þurfa að vera enn strangari við sig, missa fleiri kíló.
Þetta er vítahringur sem minnir mjög á fíknisjúkdóma. Og margir skilgreina átröskun sem fíknisjúkdóm. Leiðin út úr vítahring átröskunar er að viðurkenna algjöran vanmátt gagnvart sjúkdómnum og þiggja hjálp. Það er mjög mikilvægt að fara að borða eðlilega, hætta að framkalla uppköst eða misnota hægðalyf. En það er ekki nóg til að læknast af sjúkdómnum. Það verður að vinna á hinni undirliggjandi þráhyggju, og styðja einstaklinginn til að mæta dómaranum, hætta að hlýða hinni neikvæðu innri rödd. Þetta er auðveldast að gera með því að rækta með sér skilyrðislausa ást til sjálfs sín. Sýna sjálfum sér fullkomið umburðarlyndi, elska sig á hverju augnabliki, ná sátt við sjálfan sig og alla sína bresti.

No comments:

Post a Comment