Monday, September 30, 2013

Átak eða lífsstílsbreyting, öfgar eða hófsemi.



Ég hef áður skrifað nokkra pistla um muninn á ytri og innri stýringu þegar kemur að því að velja mat og borða. Ytri stýring eru reglur, boð og bönn, sem við fylgjum af sannfæringu með viljastyrkinn að vopni. Innri stýring er það að hlusta á líkamann, svengd og seddu, löngun í mat fyrir máltíð og líðan eftir máltíð. Ekki í þeim tilgangi að láta undan öllum löngunum strax, heldur til að skoða og meta út frá heildarhagsmunum okkar til framtíðar.

Ég hef líka skrifað pistla um muninn á matardagbók og lystardagbók. Matardagbók er skráning á tegund og magni fæðu á meðan lystardagbók er skráning á svengd og seddu, tilfinningum og hugsunum.

Matardagbók, ytri stýring

Matardagbók getur veitt okkur aðhald og hvatningu til að taka okkur á, breyta fæðuvenjunum. Því samviskusamari og heiðarlegri sem við erum við skráninguna, því betur sjáum við muninn á okkar mataræði og því mataræði sem við vitum eða teljum vera hollt og gott fyrir okkur. Það getur verið erfitt að horfa í slíkan spegil, en ef við erum nógu ákveðin, verður það okkur næg hvatning til að stíga skrefið, breyta lífsstílnum, færa hann í þá átt sem við viljum. Þetta er dæmi um ytri stýringu og krefst sjálfsaga. Við þurfum að fylgjast með sjálfum okkur, bæla niður langanir okkar í óhollan mat, og nota sjálfsagann til að velja það sem er hollt.

Bragðskynið

Bragðskynið breytist eftir nokkrar vikur, við lærum að meta nýtt bragð og ilm, okkur fer að finnast hollur matur góður á bragðið, og sá óholli sem við áður sóttum í, verður jafnvel ólystugur í okkar augum. Ef við höfum farið skynsamlega að í vali á nýju mataræði, ætti heilsa okkar og líðan sömuleiðis að batna. Allt þetta ætti að hvetja okkur til að halda ótrauð áfram. En það er svo skrítið að fyrir flesta verður erfiðara og erfiðara með tímanum að halda matardagbók og beita sig sjálfsaga. Það verður sífellt erfiðara að fylgja reglunum, fara eftir boðum og bönnum. Erfiðara og erfiðara að hafa vakandi og gagnrýnið auga með sjálfum sér, löngunum sínum og atferli. Það versta er ef við förum að dæma okkur og refsa ef við brjótum reglurnar, ef við borðum jafnvel bara smáræði af einhverju sem er bannað.

Tímabundið inngrip

Ef við höldum skynsamlega á málum getur ytri stýring hjálpað okkur að marka þáttaskil í lífi okkar. Gætum þess að hafna ekki sjálfum okkur. Það kann ekki góðri lukku að stýra að ganga um svangur, eða neita sér um allt sem okkur finnst gott. Flestir sem setja sér það markmið að fylgja stífum reglum það sem eftir er ævinnar, springa að lokum á limminu og úða í sig óhollustu, og fá í kjölfarið gríðarlegt samviskubit. Þetta getur orðið vítahringur og endað með átröskun. Það er betra að strangar reglur, boð og bönn, séu frá upphafi hugsuð sem tímabundið inngrip. Frá upphafi sé ljóst að eftir vissan tíma, t.d. einn til fjóra mánuði, munum við slaka á klónni, sleppa smám saman tökum á ytri stýringu og treysta í staðinn meira á innri stýringu. Ef bragðskynið, matarsmekkur okkar, hefur breyst, ættum við að geta leyft okkur að bragða á öllu því sem okkur langar í, án þess að mataræðið fari aftur í gamla farið. Þannig að við getum til að mynda leyft okkur að bragða hóflega á veitingunum þegar í veislu kemur, þó við höldum okkur við hollustuna dags daglega.

Það er ekki nauðsynlegt að fara tímabundið eftir stífum reglum, til að breyta mataræðinu. Fyrir marga er betra að beita innri stýringu eingöngu. Þá breytist mataræðið smám saman, í litlum skrefum, sem auðvelt er að standa við.

Lystardagbók, innri stýring

Á meðan matardagbókin hvetur okkur til ytri stýringar, er lystardagbókin tæki til að læra innri stýringu. Á meðan ytri stýring verður flestum erfiðari og erfiðari með tímanum, verður innri stýring auðveldari og auðveldari. Innri stýring krefst ekki sjálfsaga, heldur æfingar. Við þjálfum okkur hægt og rólega í því að hlusta innávið, fylgja þeim merkjum sem líkaminn gefur. Innri stýring byggir ekki á því að setja reglur, boð og bönn. Hún byggir ekki á því að horfa á sjálfan sig gagnrýnum augum og dæma sig fyrir minnstu yfirsjónir. Hún byggir á því einu að spyrja sjálfan sig eftirfarandi spurninga. Hvað langar mig í núna? Hversu svöng er ég núna? Er þetta líkamlegt hungur eða tilfinningalegt hungur? Hvernig leið mér síðast þegar ég borðaði þennan mat? Borðaði ég kannski bara of mikið af honum síðast? Var það þess virði?

Njóta, ekki dæma

Innri stýring hvetur okkur til að njóta þess að borða það sem okkur langar í, í hóflegu magni, án þess að dæma okkur. Og við spyrjum okkur eftirfarandi spurninga. Langar mig í meira af þessum mat núna? Er ég orðin hæfilega södd núna? Hvernig líður mér eftir þessa máltíð? Hvaða lærdóm get ég dregið af þessari máltíð?

Það getur virst óyfirstíganlegt að spyrja okkur allra þessara spurninga þegar við viljum frekar spjalla við sessunautinn undir borðum, horfa á sjónvarpið eða lesa blaðið á meðan við tökum til matar okkar. Til að byrja með er gott að borða einn í þögn, einbeita sér að bragðinu, áferðinni og áhrifunum sem maturinn hefur á svengdar- og seddustigið eftir því sem líður á máltíðina. Ef við erum nógu opin fyrir því að skoða hvernig okkur líður koma svörin við spurningunum af sjálfu sér. Og með æfingunni lærist að gera allt í senn, borða, rabba við sessunautinn og hlusta innávið.



No comments:

Post a Comment