Tuesday, May 31, 2011

Vegur Búdda frá þjáningunni

Hvernig var aftur eðlisfræðijafnan sem við lærðum flest í framhaldsskóla um samband straums og spennu? Mig minnir að hún hafi verið svona:

Spenna = Straumur X Viðnám.

Þessi jafna kom mér í hug um daginn þegar ég las bók um gjörhygli og búddisma. Þar er nefnilega jafna sem minnir á þessa jöfnu, og hún er svona:

Þjáning = Sársauki X Mótstaða.

Rétt eins og í eðlisfræðinni er hægt að setja núll öðru megin við margföldunartáknið (X) og þá verður útkoman núll (allar tölur sem margfaldaðar eru með núlli verða núll). Þannig að ef sársaukinn er núll, þá er þjáningin eða spennan núll. Það hljómar rökrétt. Ef enginn er sársaukinn þá þjáumst við ekki. En við getum líka látið mótstöðuna eða viðnámið vera núll og þá verður þjáningin engin, sama hvað sársaukinn er mikill. Með öðrum orðum, þjáningin verður ekki til fyrr en við förum að streitast á móti sársaukanum.

Við erum öll undirorpin atburðum sem geta valdið okkur sársauka og erfiðleikum, svo sem slysum eða veikindum okkar sjálfra eða þeirra sem okkur þykir vænt um. Þessir atburðir eru tilviljanakenndir, eða þess eðlis að við stjórnum þeim ekki. En þeir eru hluti af lífinu, hluti af veruleika sem við verðum að sætta okkur við. Búddisminn kennir okkur að þjáningin verði ekki til fyrr en við förum að streitast á móti veruleikanum, óska þess að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru. Við þurfum þannig að breyta viðhorfi okkar til veruleikans, hætta að streitast á móti því sem þýðir hvort eð er ekkert að streitast á móti. Það hefur ekki í för með sér að við verðum dofin og upplifum engan sársauka. Við getum upplifað allt litróf tilfinninganna, en tilfinningasveiflurnar ganga yfir þjáningarlaust, ef við streitumst ekki á móti þeim.

Svo ég taki nú eitt saklaust og um leið algengt dæmi: Hver hefur ekki upplifað pirring og gremju í langri biðröð, þegar maður hefur allt annað að gera við tímann en að standa og bíða? Það er mótstaða okkar við þessum veruleika, biðröðinni, sem veldur okkur þessari þjáningu. Ef við hættum að streitast á móti, hættum að óska þess að biðröðin væri styttri, þá færist yfir okkur sátt og friður. Við getum notið þess að fá óvænt nokkrar mínútur til að vera í augnablikinu, finna fyrir tánum, hlusta á andardráttinn. Svo getum við náttúrulega notað þessar mínútur til að hringja nokkur símtöl eða skipuleggja morgundaginn í huganum. Svo lengi sem við gerum það án óþolinmæði, verður þjáningin engin.

Þegar yfir okkur hellist sorg vegna ástvinamissis, er fátt betra en að leyfa tárunum að streyma, mótstöðulaust. Við finnum sársaukann, logandi í brjóstinu, en svo fremi við sleppum honum lausum og grátum út, þá færist að lokum yfir okkur værð og sátt. Það er fyrst þegar við reynum að kyngja grátinum og harka af okkur, sem spennan og þjáningin verður óbærileg. Hún getur hreinlega valdið okkur líkamlegum veikindum eins og höfuðverk og vöðvaspennu með tilheyrandi stoðkerfisvandræðum.

Munum eðlisfræðijöfnuna góðu, eða hina búddísku útgáfu hennar og leyfum tilfinningunum að streyma um okkur án viðnáms, og við munum losna við alla spennu og þjáningu úr lífi okkar.

Saturday, April 30, 2011

Hvað var aftur málið með sykurstuðulinn?

Glúkósi er orkuefni sem við fáum úr strásykri, ávöxtum, hveiti, pasta og öðrum kolvetnaríkum matvælum. Insúlín er hormón sem framleitt er í briskirtlinum. Því er seytt út í blóð þegar glúkósinn í blóðinu (blóðsykurinn) hækkar. Insúlín hjálpar frumum líkamans að taka sykurinn upp úr blóðinu og nýta hann sem orkugjafa eða geyma hann sem orkuforða.

Sykursýki er tveir sjúkdómar (sykursýki I og sykursýki II) sem báðir hindra frumurnar í því að nýta blóðsykurinn. Þeir sem þjást af sykursýki I framleiða lítið eða ekkert insúlín í briskirtli sínum, svo frumurnar geta ekki tekið glúkósann upp úr blóðinu. Hjá þeim sem þjást af sykursýki II eru frumurnar aftur á móti lítt eða ekki næmar fyrir insúlíni. Það er því sama hve miklu insúlíni briskirtill þeirra seytir, frumurnar geta samt ekki tekið glúkósann upp úr blóðinu og nýtt hann. Með tímanum verður briskirtill þeirra sem þjást af sykursýki II latur, fer að framleiða minna insúlín eða hættir því alfarið. Báðir sjúkdómar valda því að blóðsykurinn hækkar óeðlilega mikið, svo mikið að þetta dýrmæta orkuefni lekur út í þvag, en við eðlilegar aðstæður mælist enginn sykur í þvagi.

Áður fyrr smökkuðu læknar bókstaflega á þvagi sjúklinga sinna til að finna hvort það væri sætt á bragðið. Í dag er öðrum aðferðum beitt til að mæla glúkósa, ýmist í þvagi eða í blóði. Hár blóðsykur er slæmur fyrir æða- og taugakerfið, nýrun og augun. Auk þess verða þeir sem þjást af sykursýki orkulausir því frumurnar fá ekki þann glúkósa sem þær þurfa.

Sykurstuðull eða glúkósastuðull segir til um hækkun blóðsykurs eftir að fæða er borðuð. Hækkunin fer eftir samsetningu máltíðar, kolvetnamagni og hversu auðmelt kolvetnin eru. Því meiri sem hækkunin verður, því meira insúlíni er seytt frá brisinu og því hraðar lækkar blóðsykurinn aftur í heilbrigðum einstaklingi. Lækkunin getur orðið svo mikil að við upplifum tímabundið blóðsykursfall, þegar blóðsykurinn fer undir eðlilegt gildi. Þá tekur lifrin við og seytir glúkósa út í blóðið til að hækka blóðsykurinn aftur upp í þetta gildi. Það tekur dálítinn tíma og í millitíðinni getum við upplifað sterka hungurtilfinningu, þegar líkaminn kallar á kolvetni til að hækka blóðsykurinn.

Í hvítu hveiti, eins og finna má í bagettum og pasta, eru auðmeltanleg kolvetni sem hækka blóðsykurinn hratt. Hlaup, brjóstsykur og annað sælgæti sem inniheldur nánast eingöngu kolvetni hækkar blóðsykurinn líka hratt. Heilkornarúgbrauð er kolvetnaríkt, en kolvetnin eru ekki eins auðmeltanleg og rúgbrauðið inniheldur auk þess mikið af trefjum. Súkkulaði er sömuleiðis kolvetnaríkt. Kolvetnin eru auðmelt en súkkulaði inniheldur líka mikla fitu. Trefjar og fita hægja á meltingunni svo blóðsykursveiflan verður hægari og minni. Þá er minni hætta á tímabundnu blóðsykursfalli með tilheyrandi hungri. Þar sem samsetning máltíðar skiptir líka máli verður sykursveiflan ekki tiltakanlega mikil eftir neyslu á bagettu eða pasta sem borðað er í takmörkuðu magni með kjöti eða grænmeti og sósu.

Ef heilbrigður einstaklingur borðar auðmeltanleg kolvetni daglega í miklu magni, framleiðir briskirtill hans stöðugt mikið insúlín og seytir út í blóð. Ef hann í ofanálag hreyfir sig lítið, getur þetta smám saman valdið insúlínviðnámi frumnanna, og þar með sykursýki af tegund II. Auðmeltanleg kolvetni og kyrrsetulíferni hækka líka blóðfituna sem eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Það er þrennt sem ég vil nefna sem getur verndað okkur gegn sykursýki II og hjarta- og æðasjúkdómum. Það er í fyrsta lagi þolþjálfun (öll hreyfing sem gerir okkur móð). Hún lækkar blóðfituna og eykur líka insúlínnæmið. Svo eru það trefjarík matvæli á borð við heilkornabrauð, hafragraut, grænmeti og ávexti. Og í þriðja lagi fjölómettaðar fitusýrur sem finna má í fiski og lýsi, avokadó og hnetum.

Monday, April 4, 2011

Er nóg af ómega-3 fitusýrum í þínu fæði?

Tímaritið Heilsa er fríblað sem dreift er í helstu verslanir á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði. Í tölublaðinu sem kom út í byrjun mars á þessu ári var grein eftir mig um ómega-3 fitusýrur. Nú er ég búin að setja hana inn á vefsíðu Heilræðis. Hér er tengill beint á greinina:

http://www.heilraedi.is/grein1.asp

Thursday, March 31, 2011

Víðsýni og gagnrýni

Í tengslum við doktorsnám mitt í heilbrigðisvísindum fór ég á margar ráðstefnur, hér heima og erlendis. Ráðstefnurnar erlendis voru flestar tileinkaðar fituefnum, enda var rannsókn mín á því sviði. Þar komu saman hundruð vísindamanna frá öllum heiminum og kynntu niðurstöður rannsókna sinna. Rannsóknirnar voru langflestar um ómega-3 fitusýrur. Fitusýrurnar voru mældar í fæði eða í líkama manna eða dýra. Í sumum tilvikum var mönnum eða dýrum gefið ómega-3 eða fæði ríkt af þeim og breyting mæld, ýmist í líkamsvökvum eða vefjum; mat lagt á líkamsstarfsemina með einhverjum hætti, eða fylgst með þróun sjúkdóma eða áhættuþátta þeirra.

Eftir að hafa varið nokkrum dögum í að hlusta á fyrirlestra, lesa veggspjöld með texta og myndum, og ræða við allan þennan fjölda hámenntaðra reynslubolta í faginu, er auðvelt að draga þá ályktun að aukin neysla ómega-3 fitusýra sé svarið við velflestum sjúkdómum mannkynsins. Þar má nefna Alzheimer, astma, athyglisbrest, beinþynningu, bólgusjúkdóma í æðum, liðum og meltingarvegi, einbeitingarskort, einhverfu, elli, exem, fyrirburafæðingu, fæðingarþunglyndi, geðhvörf, geðklofa, gleymsku, háþrýsting, heilablóðfall, hjarta- og æðasjúkdóma, iktsýki (gigt), ýmsar tegundir krabbameins, lesblindu, meðgöngueitrun, ofnæmi, ofvirkni, ófrjósemi, óreglulegan hjartslátt, ótímabæra blindu, sóra (psoriasis), þunglyndi, sjálfsofnæmi og svefnröskun ungbarna. Já, það er auðvelt að sannfærast, og boða ómega-3 sem svarið við flestum heilsufarsvandamálum nútímans. Það væri hægt að ganga svo langt að boða trú á ómega-3 fitusýrur, eins og hver önnur trúarbrögð. En þá kemur sér vel að vera gagnrýninn og víðsýnn á sama tíma.

Gagnrýninn vegna þess að rannsóknirnar eru misjafnar að gæðum, og jafnvel þó rannsókn sé vönduð, þá verður að túlka niðurstöðuna í samræmi við eiginleika rannsóknarinnar. Faraldsfræðilegar rannsóknir sem sýna fram á fylgni eða tengsl milli neyslu ómega-3 fitusýra og minni sjúkdómshættu geta aldrei sannað orsakasamhengi. Þetta er vegna þess að fjöldinn allur af truflandi orsakaþáttum geta haft áhrif á niðurstöðuna, og jafnvel valdið fölskum tengslum. Það er hægt að leiðrétta fyrir þekktum truflandi orsakaþáttum, en það er aldrei svo að þeir séu allir þekktir. Fylgnirannsókn getur aðeins gefið vísbendingu sem þarf að kanna nánar með svokallaðri íhlutandi rannsókn, þar sem ómega-3 fitusýrur eru gefnar í stöðluðum skömmtum og fylgst með áhrifunum á áhættuþætti eða þróun sjúkdóms. Helst þarf að vera viðmiðunarhópur sem ekki fær neinar ómega-3 fitusýrur á sama tímabili, og velja þarf einstaklinga í báða hópana með slembivali. Best er ef þátttakendur rannsóknarinnar hafa ekki hugmynd um hvort hylkin sem þeir taka innihalda ómega-3 fitusýrur eða lyfleysu (placebo). Og allra best ef sá sem fer yfir gögnin veit það ekki heldur. Slík rannsókn er sögð tvíblind.

Ein íhlutandi rannsókn sem sýnir lækkun í einhverjum áhættuþáttum eða minni líkur á þróun sjúkdóms, er heldur ekki endanleg sönnun þess að neysla ómega-3 fitusýra minnki hættu á viðkomandi sjúkdómi. Nei, það þarf að gera margar rannsóknir sem sýna sömu niðurstöðu og skoða málið frá öllum hliðum. Það getur tekið mörg ár, og jafnvel áratugi, að komast að endanlegri niðurstöðu og í rauninni verður niðurstaða aldrei endanleg. Við þurfum alltaf að vera tilbúin að endurskoða afstöðu okkar ef nýjar og betri rannsóknir benda til annars.

Þegar maður fer að kynna sér allt það sem birt hefur verið í ritrýndum tímaritum um tengsl einhverrar fæðu og tiltekins sjúkdóms, þá kemst maður að því að það eru alltaf einhverjar rannsóknir sem sýna jákvæða niðurstöðu, aðrar sem sýna hlutlausa niðurstöðu (engin áhrif), og enn aðrar neikvæða niðurstöðu. Jákvæða niðurstaðan er síðan missterk, og neikvæða niðurstaðan sömuleiðis. Til að draga skynsama ályktun þarf að bera saman niðurstöður hundruða eða jafnvel þúsunda rannsókna. Skoða niðurstöðurnar ofan í kjölinn, bæði gæði rannsóknanna, hvort túlkun þeirra sé rökrétt og skynsamleg, og hvort framkvæmdin sé sambærileg frá einni rannsókn til annarrar.

Það er ekki nóg að vera gagnrýninn, það er ekki síður mikilvægt að vera víðsýnn. Víðsýnn vegna þess að það eru haldnar ráðstefnur á öðrum sérsviðum, og þar eru vísindamenn jafn ákafir að kynna rannsóknir á D-vítamíni, E-vítamíni, öðrum vítamínum, andoxunarefnum, hlutfalli natríums og kalíums (utanfrumu- og innanfrumujóna), áhrifum fæðu á sýrustig líkamans, glúkósastuðli, ýmsum steinefnum, vatnsleysnum og óvatnsleysnum trefjum, fæði manna á steinöld og bronsöld, jurtafæði, hráfæði, fæði inúíta, fæði frumbyggja Ástralíu og Ameríku, fæði Masaj manna og búskmanna í Afríku, fæði íbúa Kákasusfjalla, fæði á grísku eyjunum, Miðjarðarhafsfæði, fæði bramína á Indlandi, hefðbundið kínverskt og japanskt fæði og svo framvegis. Og á þessum ráðstefnum er líka að finna vísbendingar um tengsl við sjúkdóma, eða minni líkur á öllum þeim sömu sjúkdómum sem ég taldi upp áðan, og jafnvel enn öðrum sjúkdómum.

Næringarfræðin er ung vísindagrein, og margt áhugavert sem verið er að rannsaka. En ég myndi fremur segja að þekking okkar á tengslum næringarefna og fæðutegunda við sjúkdóma og sjúkdómsáhættu þokist í rétta átt, heldur en að henni fleygi fram. Þó hundruðir eða þúsundir vísindagreina á sviði næringar og heilsu séu birtar á hverju ári, er vafasamt að elta það heitasta og gera að söluvöru eða reka hræðsluáróður byggðan á veikum grunni. Staðgóð þekking myndast smám saman á löngum tíma. Þolinmæði er því dyggð á þessu sviði eins og öðrum.

Frekari upplýsingar um ómega-3 fitusýrur má nálgast hér:
http://heilraedi.blogspot.com/2010/05/omega-3-fyrir-allar-konur.html
http://heilraedi.blogspot.com/2010/03/viltu-vita-meira-um-omega-fitusyrur.html
http://heilraedi.blogspot.com/2010/02/gras-og-fiskimjol.html

Monday, February 28, 2011

Magnesíum

Undanfarið hefur borið á umræðu um magnesíum og gagnsemi þess við svefnleysi, streitu, gersveppaóþoli (candida) og súrnun líkamsvökvanna. Í þessu sambandi var mælt með magnesíum á duftformi fremur en töfluformi. Í fjölmiðlum var rætt við heildsala og/eða söluaðila magnesíumdufts og var varan uppseld, hafði rokið út í kjölfar umræðunnar og endurútkomu bókar sem nú er víst orðin metsölubók í annað sinn.

Það sem mér fannst skrítnast við þessa umræðu, var að ekkert var minnst á magnesíum í fæðunni. Það er alltaf betra að fá næringarefnin úr fæðunni en úr fæðubótarefnum, og gildir þá einu hvort fæðubótin er á duftformi, töfluformi eða einhverju öðru formi. Það er alltaf best að borða fjölbreytta og næringarríka fæðu. Í fæðunni eru næringarefnin í réttum hlutföllum innan um önnur efni sem sum hver auðvelda upptöku eða frásog næringarefnanna úr meltingarveginum í blóðið, auðvelda flutninginn um blóðrásina eða nýtingu þeirra í líkamanum. Önnur efni í fæðunni geta torveldað frásogið, en fjölbreytt fæða tryggir jafnvægi þarna á milli.

Magnesíum er víða að finna í fæðu okkar, bæði í dýraríkinu og í jurtaríkinu. Baunir, dökkt súkkulaði, heilkornabrauð, hýðishrísgrjón, bananar, brokkólí, ostur, ýsa og tófú eru allt fæðutegundir sem eru ríkar af magnesíum. Mjólk, appelsínur og kjöt eru líka ágætar uppsprettur magnesíums. Magnesíumskortur er því mjög óalgengur og þekkist varla hjá fólki sem borðar sæmilega fjölbreytta fæðu.

Ég hef fullan skilning á því að þeir sem þjást af svefnleysi, streitu eða annarri óáran vilji prófa að auka magnesíumneyslu sína, ef vera skyldi að það dygði til að ná betri heilsu og líðan. Fyrir þá vil ég benda á að hnetur, möndlur, fræ og harðfiskur eru sérlega magnesíumríkar fæðutegundir.

Meira er ekki alltaf betra þegar að næringarefnunum kemur. Rannsóknir hafa sýnt að þegar lítið magn magnesíums er tekið sem fæðubót með mat (7-36mg) þá er frásogið úr meltingarvegi 65-70%, þ.e. 65-70% af skammtinum er tekið upp í blóð. Þegar fæðubótin með sömu máltíð var aukin upp í 960-1000mg, þá var frásogið aðeins 11-14% (Fine KD et al. J Clin Invest 1991;88:369-402 og Roth P and Werner E. Int J Appl Radiat Isot 1979;30:523-6). Mér skilst að á umbúðum umrædds magnesíumdufts sé mælt með 1000mg á dag.

Það er líka vel þekkt að líkami okkar bregst við mikilli daglegri eða reglulegri neyslu næringarefnis með minna frásogi úr meltingarvegi. Þau áhrif koma ekki fram fyrr en eftir einhverjar vikur eða mánuði. Frásogið og nýtingin gæti því farið langt undir 10% hjá reglulegum neytendum magnesíumdufts.

Fyrir fullorðna heilbrigða einstaklinga er ráðlagður dagsskammtur fyrir magnesíum 280-350 mg. Það er auðvelt að ná þessu magni með fjölbreyttri fæðu. Efri mörk neyslu fyrir magnesíum hafa ekki verið sett á Íslandi, en læknaskóli Harvard háskóla í Bandaríkjunum ráðleggur heilbrigðum einstaklingum að fá ekki meira en 350 mg af magnesíum úr fæðubótarefnum. Efri mörk neyslu eru sett til að koma í veg fyrir óæskilegar aukaverkanir og jafnvel eitrunaráhrif. Eins og áður segir hefur líkaminn ótrúlega hæfileika til að stilla af það magn sem hann frásogar úr meltingarveginum, og einnig til að stilla af það magn sem hann losar sig við með þvagi. Þrátt fyrir það er einhver hætta á eitrun, sérstaklega ef stórir skammtar eru teknir daglega í langan tíma.

Steinefnin eru mörg hver flutt úr meltingarvegi í blóð með sömu flutningspróteinunum. Stór skammtur af einu steinefni getur því valdið skorti á öðru steinefni. Skýringin er sú að öll flutningspróteinin verða upptekin af því að frásoga og flytja steinefnið sem er í yfirmagni, svo önnur steinefni verða útundan og enda á því að fara út með hægðum. Það er því varasamt að taka mikið af einu steinefni umfram annað daglega eða reglulega í langan tíma. Ég mæli frekar með steinefnablöndum með hóflegum skömmtum af hverju steinefni, eða það sem er enn betra, að fá steinefnin beint úr fæðunni.

Svefnleysi og streita geta átt sér ýmsar orsakir, flestar þeirra eru af sálrænum eða andlegum toga. Lausnin er því tilfinningaleg eða andleg fremur en næringarfræðileg. Fagfólk á sviði næringar og heilsu getur aðstoðað einstaklinga með gersveppaóþol að ná tökum á vandanum. Hvað varðar súrnun líkamsvökvanna þurfa þeir sem borða fjölbreytta og næringarríka fæðu, og hreyfa sig mátulega mikið, ekki að hafa áhyggjur.

Monday, January 31, 2011

Sýrubasavægi fæðunnar og líkamans

Flest fæða sem við neytum er súr, þ.e. súrari en vatn sem er hlutlaust á sýrustigskvarðanum. Mjólk er nálægt því að vera hlutlaus en aðeins örfáar fæðutegundir eru basískar (basískt er andstæða súrs). Þar er helst að telja eggjahvítu og kæstan hákarl. Sítróna og edik eru með því súrasta sem við neytum.

Þegar maturinn er kominn niður í maga mætir honum magasýran, en það er saltsýra sem frumur magans framleiða. Saltsýra er mjög ætandi, og magafrumurnar þekja sig með slími til að verja sig fyrir henni, svo hún brenni ekki göt á magapokann. Saltsýran í maganum hefur því hlutverki að gegna að drepa sýkla sem berast með matnum. Magainnihaldinu er blandað vel saman við magasýruna áður en fæðan er send í skömmtum niður í skeifugörnina. Í skeifugörninni mætir fæðunni allt annað umhverfi. Frumur í skeifugörninni framleiða natríumbíkarbónat (matarsóda) sem hlutleysir sýruna snarlega áður en fæðan er send áfram í smáþarmana. Þar eru orkuefnin og önnur næringarefni úr fæðunni tekin upp í blóðið sem ber þau til frumna líkamans. Sýrustigi fæðunnar er því stýrt af meltingarvökvunum eftir að hún kemur í meltingarveginn.

Sýrustigi blóðs þarf líka að stýra, og líkaminn hefur þrjú kerfi sem sjá um það. Í fyrsta lagi eru það efni sem kölluð eru stuðpúðar eða dúar. Dúarnir mæta breytingum á sýrustigi blóðsins með því að binda eða leysa sýru eftir þörfum. Ef dúarnir hafa ekki undan tekur næsta kerfi við, með afar fljótvirkum og skilvirkum hætti. Þetta kerfi eru lungun. Þau blása út umframsýru eftir þörfum. Stjórnstöð öndunar í heilanum fylgist grannt með sýrustigi blóðsins og sendir boð til öndunarvöðvanna í þindinni og brjóstkassa um hraða og dýpt öndunar. Bregðist þetta kerfi, eins og getur gerst hjá lungnasjúklingum, tekur þriðja kerfið við og leiðréttir sýrustig blóðsins á 24-48 klukkustundum. Þetta kerfi eru nýrun. Þau hleypa meiri eða minni sýru út í þvagið eftir því hvert sýrustig blóðsins er sem streymir um þau. Þessi þrjú kerfi halda sýrustigi blóðsins á mjög þröngu bili, enda getur lífshættulegt ástand skapast að öðrum kosti.

Dæmi: Hefurðu fengið svo slæma gubbupest að þú kastaðir upp öllu innihaldi magans og hélst engu niðri, ekki einu sinni vatni? Ef svo er hefurðu kannski endað með því að kasta upp eldsúrum vökva. Þessi vökvi er magasýran, saltsýra. Magafrumurnar búa saltsýruna til úr blóðinu. Ef við köstum upp umtalsverðu magni af saltsýru, lækkar sýran í blóðinu og það verður basískara en svo að dúarnir geti mætt vandamálinu. Við teljum okkur trú um að við stjórnum önduninni með viljanum, en þegar svona er komið tekur stjórnstöð öndunar í heilanum yfir og hægir á önduninni, svo við missum ekki of mikla sýru með útöndunarloftinu. Þannig er sýran varðveitt í blóðinu svo sýrustigið sé í jafnvægi á meðan gubbupestin gengur yfir.

Athygli manna hefur undanfarið beinst að smávægilegum breytingum á sýrustigi líkamans og afleiðingum sem þær hafa á langtímaheilsu einstaklingsins. Fæðan sem við innbyrðum er eitt af því sem veldur þessum smávægilegu breytingum. Frumur líkamans nýta orkuna úr fæðunni með því sem kallað er bruni. Reynt hefur verið að líkja eftir bruna líkamans með því að brenna matvæli í ofni þar til ekkert er eftir nema aska. Askan er síðan leyst upp í vatni og sýrustig vatnsins mælt. Sömuleiðis hafa verið gerðar tilraunir á fólki með því að mæla sýrustig munnvatns, þvags og/eða blóðs eftir neyslu mismunandi matvæla. Þetta hefur leitt til þess að gefnir hafa verið út listar yfir sýrumyndandi og basamyndandi matvæli. Á þessum listum eru súr matvæli eins og sítróna orðin basamyndandi, og léttsúr eða hlutlaus matvæli eins og hveiti og kjöt orðin sýrumyndandi. Síðan hafa verið dregnar ályktanir um hollustu og óhollustu, og truflun á sýrustigi líkamans er af sumum talin undirrót flestra sjúkdóma sem á mannkynið herja.

Rannsóknir á áhrifum matvæla á sýrustig líkamans eru af hinu góða, en varast ber að draga of miklar ályktanir af þeim á þessu stigi. Ég held við séum öll sammála um hollustu grænmetis og ávaxta, og að fjölbreytt og næringarrík fæða er best fyrir heilsuna. Unnin matvæli eins og hvítan sykur og hvítt hveiti er best að borða í hófi. En ástæða þeirra sjúkdóma sem á okkur herja er samspil margra þátta, eins og erfða, mengunar, reykinga, streitu og hreyfingarleysis, auk fjölmargra þátta fæðunnar.

Thursday, December 2, 2010

Hot jóga, sviti og áreynsla

Við mikla áreynslu hitnar líkaminn, því efnaskiptin örvast. Þá er mikilli orku brennt, og við brunann myndast hiti. Líkaminn þarf að losa sig við þennan varma, því annars “fáum við hita”. Blóðið flytur varmann frá vöðvunum til yfirborðs líkamans. Æðarnar til húðarinnar víkka svo blóðið leitar þangað. Þess vegna roðnar húðin. Þegar til húðarinnar er komið leitar vatn úr æðunum að yfirborði húðarinnar og myndar svita sem perlar á húðinni. Ef loftslagið úti eða í salnum er svalt og loftið ekki mettað af raka, þá gufar svitinn upp af húðinni. Stundum gufar hann það fljótt upp að hann nær ekki að mynda dropa. Þannig getum við svitnað heilmikið án þess að taka eftir því. Það kostar orku eða varma að breyta vatni úr fljótandi formi í gufu. Svitinn tekur þess vegna varma með sér þegar hann gufar upp, svo blóðið kólnar. Kaldara blóð fer til baka til hinna vinnandi vöðva, og sækir þangað meiri varma og flytur til húðarinnar.

Á langri og strangri æfingu getur líkaminn misst umtalsvert magn af vökva, og því er mikilvægt að drekka vel fyrir og eftir æfingu, og jafnvel á meðan á æfingu stendur. Með svitanum tapast dálítið af söltum, en það er alla jafna nóg að borða venjulegan mat fyrir og eftir æfingu til að bæta líkamanum upp töpuð sölt, og drekka hreint vatn. Í sumum tilvikum getur verið æskilegt að fá kolvetni og sölt auk vatns á æfingu. Slíka drykki er hægt að kaupa tilbúna, en að blanda eplasafa og vatni til helminga og bæta smá salti útí gerir sama gagn.

Í heitu, röku loftslagi, og í hot-jóga sölum, er loftið nánast mettað af raka. Þá gufar svitinn ekki upp, heldur rennur af húðinni. Það er vegna þess að loftið getur ekki tekið við meiri raka. Ef svitinn gufar ekki upp, tekur hann ekki varma og kælir ekki líkamann eða blóðið. Hann rennur bara burt, eða er þurrkaður burt. Þannig missir líkaminn vökva án þess að kólna. Við svitnum að minnsta kosti jafn mikið við áreynslu í rakamettuðu lofti og í þurrara lofti, en fáum ekki þá kælingu sem við þurfum og líkaminn er að reyna að sjá okkur fyrir.

Nauðsynlegt er að drekka vel fyrir og eftir hot-jóga tíma, og hlusta vel á líkamann á meðan á æfingunni stendur. Ef þorstinn kallar er skynsamlegt að taka hlé og fá sér vatn. Ef æfingin er lengri en 1-2 klst er algjörlega nauðsynlegt að vökva sig inn á milli.