Wednesday, January 13, 2010

Sjálfsaginn og svipan

Í gærkveldi var viðtal við Tryggva Helgason barnalækni í Kastljósinu um offitu barna. Ég var sammála ýmsu sem þar kom fram, til dæmis því að enginn eigi að fara í megrun, hvorki börn né fullorðnir. Sömuleiðis var ég sammála því að það sé einfaldast að breyta lífsstílnum í smáum skrefum, auka smám saman hollustu og fjölbreytni fæðunnar, auka hreyfinguna smám saman.
Róttækar lífsstílsbreytingar reynast flestum mjög erfiðar, svo þeir gefast upp fyrr eða skömmu síðar. Í nýútkominni bók um Meiri hamingju eftir dr. Tal Ben-Shahar í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar er talað um að sjálfsagi hrökkvi oft ekki til þegar kemur að því að standa við áramótaheitin. Í stað þess sé auðveldara að láta djúpstæð gildi knýja sig til að skilgreina sérstaka hegðun og viðhafa hana á fastákveðnum tímum. Þannig komist jákvæð hegðun upp í vana, og smám saman verður það manni jafneðlilegt að rækja nýja siðinn eins og að bursta tennurnar. Eitt dæmi gæti verið að taka lýsi á morgnana, annað dæmi að fara 10 mín gönguferð um hverfið fyrir svefninn, þriðja dæmið að drekka vatn í stað gosdrykks með kvöldmatnum.
Ég held að ástæða þess hvað sjálfsaginn dugi skammt, sé að hann byggir á því að við vöktum sjálf okkur og dæmum fyrir minnstu yfirsjónir. Við erum fljót að þreytast og brotna þegar við beitum okkur svona innri svipu. Ef við sýnum sjálfum okkur umburðarlyndi og ást er miklu líklegra að við finnum hjá okkur þörf til að rækta líkama og sál. Að telja ofan í sig kaloríurnar og stíga reglulega á vigtina getur orðið hin versta svipa í lífi hvers manns.

No comments:

Post a Comment