Tuesday, December 31, 2013

Kirsuberjatínsla




Kirsuberjasósa þykir mörgum vera ómissandi með hinum vinsæla jólaeftirrétti Riz á l’amande. Persónulega finnst mér sú tilbúna kirsuberjasósa sem ég hef keypt úti í búð of sæt. Kirsuberjabragðið drukknar bókstaflega í sykurbragðinu.

Fallegustu berin tínd

Best væri að tína kirsuberin beint af trénu og sjóða sína eigin sósu, en ég veit ekki til þess að kirsuberjatré vaxi á Íslandi. Ég hef alla vega aldrei tínt kirsuber, hvorki hérlendis né erlendis. En ég ímynda mér að við kirsuberjatínslu séu fallegustu berin tínd, en ljótari ber látin eiga sig.

Við lifum ekki á kirsuberjum einum saman og þessi hollu og góðu ber eru raunar ekki viðfangsefni þessa pistils. Kirsuberjatínsla er aftur á móti hugtak sem hefur aðra og ólíka merkingu en þá að velja fallegustu kirsuberin og setja í körfu. Sú merking orðsins tengist kirsuberjum ekki neitt, og ekki garðyrkju heldur.

Að velja það sem betur hljómar

Kirsuberjatínsla (enska: cherry picking) er það að handvelja rannsóknir eða heimildir til að vitna í, máli sínu til stuðnings. Sá sem stundar kirsuberjatínslu velur heimildir sem styðja málstaðinn sem hann er fyrirfram sannfærður um að sé sá rétti. Þetta gerir hann annað hvort til að þjóna hagsmunum sínum, eða vegna þess að hann telur það gera málflutninginn trúverðugri.

Hin hliðin á kirsuberjatínslu er að hunsa markvisst eða líta framhjá rannsóknum sem styðja aðra niðurstöðu en þá sem verið er að koma á framfæri.

Dæmi

Við getum tekið sem dæmi pistil eða bók sem skrifuð er um fæðubótarefni sem á að geta læknað eða fyrirbyggt alvarlegan sjúkdóm, sé þess neytt í nógu miklu magni. Fyrir utan kirsuberjatínsluna er dæmigert að textinn sé í áróðursstíl. Viðtekinni vísindalegri þekkingu er mótmælt kröftuglega og hún sögð úrelt. Talað er niður til heilu fagstéttanna, lesendur bókstaflega varaðir við því að treysta þeim.

Til að gefa textanum vísindalegra yfirbragð er litlum númerum flaggað hér og þar inni í textanum, og undir pistlinum eða aftast í bókinni er heimildalisti sem númerin vísa til, listi sem virðist trúverðugur við fyrstu sýn.

Nánari skoðun

Langflestir lesendur heilsupistla og heilsubóka hafa ekki tíma til að kynna sér heimildirnar til hlítar, hvað þá allar hinar rannsóknirnar sem höfundurinn lætur hjá líða að vitna í.

Séu heimildirnar skoðaðar nánar kemur oftar en ekki í ljós að rannsóknirnar eru illa hannaðar eða niðurstöðurnar oftúlkaðar og jafnvel rangtúlkaðar. Og þó sumar heimildanna virðist vandaðar, eru rannsóknirnar sem vísað er í, einu rannsóknirnar sem benda til þess að fæðubótarefnið geti mögulega læknað eða fyrirbyggt sjúkdóminn. Vönduð heimildaleit sýnir hins vegar að hundruðir eða þúsundir rannsókna gefa aðra niðurstöðu, t.d. að fæðubótarefnið sé gagnslaust eða jafnvel skaðlegt heilsu manna, alla vega í því magni sem pistillinn eða bókin mælir með.

Höfundurinn hefur þannig stundað kirsuberjatínslu; valið þær heimildir – girnilegustu kirsuberin – sem styrkja málstað hans; en sleppt því að geta hinna fjölmörgu sem ganga gegn málstaðnum.

Ráðlagðir dagsskammtar

Það er ekki auðvelt að meta áreiðanleika allra þeirra upplýsinga sem aðgengilegar eru í bókum og á netinu. Þess vegna hafa opinberar leiðbeiningar á borð við ráðlagða dagsskammta vítamína og steinefna aldrei verið mikilvægari en núna. Á bak við nýju norrænu ráðleggingarnar um mataræði og næringarefni liggur mikil vinna færustu vísindamanna Norðurlandanna sem eyddu mánuðum, ef ekki árum, í að lesa og meta niðurstöður þúsunda rannsókna á þessu fræðasviði. Faglegar ráðleggingar til einstaklinga taka þó alltaf mið af heilsu og aðstæðum hvers og eins og geta þess vegna vikið frá hinum almennu ráðleggingum.

Ég hvet lesendur heilsupistla og heilsubóka til að vera gagnrýnir á allt sem þeir lesa. Áróðurskenndar yfirlýsingar, ofurskammtar og öfgar ættu að hringja varúðarbjöllum hjá okkur öllum. Sömuleiðis þegar eitt undraefni á að lækna eða fyrirbyggja alla kvilla milli himins og jarðar.



Saturday, November 30, 2013

Míkróskópistar og smásjárskoðun á ferskum blóðdropa.



Svokallaðir næringar míkróskópistar bjóða upp á smásjárskoðun á ferskum blóðdropa (live blood analysis eða live cell analysis), og segjast með því geta greint sýrustig blóðsins, súrefnismettun, tilvist gersveppa, ástand ónæmiskerfisins, vítamín- og steinefnaskort. Þeir gefa jafnvel sjúkdómsgreiningu eða líkur á því að einstaklingur fái tiltekinn sjúkdóm seinna meir. Ekkert af þessu er í raun og veru unnt að greina með smásjárskoðun af þessu tagi (dark-field microscopy).

“Sjúkdómsgreining” kallar á “lækningu”

Flestir næringar míkróskópistar bjóða einnig upp á “lækningu”, sem eru yfirleitt fæðubótarefni sem míkróskópistinn selur sjálfur. Þetta geta verið töflur, en stundum mixtúra sem úðað er beint í munninn, eða jafnvel sérstakt “heilsu”súkkulaði.

Fyrsti skammturinn er gjarnan ókeypis. Sumir míkróskópistar sýna nefnilega skjólstæðingum sínum á tölvuskjá sem er beintengdur smásjánni, hvernig blóðið lítur út áður en þeir úða upp í sig fyrsta skammtinum af fæðubótarmixtúru, og svo aftur nokkrum mínútum seinna, eftir að úðinn vann sitt litla “kraftaverk”.

“Kraftaverk” eða hvað?

Það er erfitt að efast þegar munurinn er sláandi. Fyrir “kraftaverkið” staflast blóðkornin upp eins og diskar í uppþvottagrind. Þau eru stirðnuð, sjúk og dauð að sjá. Eftir “kraftaverkið” eru blóðkornin eins og litlar lifandi skífur. Þau fljóta hægt um skjáinn, rétt snertast og fljóta svo aftur sitt í hvora áttina. Allt “lækningunni” að þakka, ekki satt?

Staðreyndin er sú að “fyrir” er myndin af jaðri blóðdropans. Þar er hann byrjaður að þorna og storkna. Þess vegna stirðna blóðkornin og staflast upp í keðjur og kekki. “Eftir” er myndin af miðju blóðdropans, þar sem blóðvökvinn er enn fljótandi, og kornin svífa um, eins og í lausu lofti.

Blekking

Það sem næringar míkróskópistar kalla þvagsýrukristalla eða kólesterólskellur eru að öllum líkindum óhreinindi á glerinu undir blóðdropanum. Áreiðanlegar mælingar á stærð blóðkorna eða lögun, tegund og fjölda, krefjast yfirleitt stærra blóðsýnis og meðhöndlunar sýnisins fyrir skoðun með efnum sem hindra t.d. storknun.

Látið ekki blekkjast af hvítum sloppum, flóknum titlum, flottum tækjum, og sláandi myndum næringar míkróskópista. Næringar míkróskópía segir þér því miður ekkert um ástand blóðsins eða heilsu þína. Og þó fæðubótarefni séu stundum nauðsynleg, er næringar míkróskópisti ekki rétta manneskjan til að meta það.




Saturday, November 9, 2013

Fæðuóþol og Food Detective.



Þann 10. október síðastliðinn fylgdi Fréttablaðinu sérblaðið Gengur vel. Þar var heilsíðuauglýsing frá fyrirtækinu Heilsanheim.is. Auglýst var greiningartækið Food Detective sem á með mælingu á IgG4 mótefninu í blóði að geta greint óþolsvalda úr fæðu. Mælinguna á hver sem er að geta framkvæmt heima hjá sér. Einnig voru í auglýsingunni gefin upp nöfn fjórtán meðferðaraðila sem framkvæma fæðuóþolsmælingu með Food Detective greiningartækinu og gefa í kjölfarið leiðbeiningar um hvernig best er að forðast óþolsvaldana, og hvað óhætt er að borða í staðinn.

Vandaðar vísindarannsóknir hafa ítrekað sýnt að IgG4 mótefnamælingar eru gagnslausar með öllu til að finna ofnæmis- eða óþolsvalda úr fæðu. Það er því hrein peningasóun að kaupa Food Detective greiningartækið eða fara í Food Detective mælingu hjá meðferðaraðila.

Orsakir og einkenni fæðuóþols

Fæðuóþol ræsir ekki ónæmiskerfið á sama hátt og fæðuofnæmi. Fæðuofnæmi er hægt að greina með mælingu á öðru mótefni sem heitir IgE, en sú mæling greinir ekki fæðuóþol.

Ýmsar fæðutegundir og aukefni í fæðu geta valdið fæðuóþoli. Fæðuóþolseinkenni eru svipuð fæðuofnæmiseinkennum, en yfirleitt aldrei lífshættuleg. Einkennin geta verið frá húð, meltingarvegi eða öndunarfærum, og jafnvel höfuðverkur, þreyta eða liðverkir. Einkennin koma fram 30 mín til 12 klst eftir neyslu óþolsvaldsins.

Ástæða fæðuóþols getur t.d. verið ensímskortur. Skortur á ensíminu laktasa veldur t.d. mjólkuróþoli, því ef laktasann vantar getur líkaminn ekki brotið mjólkursykurinn niður í meltingarveginum. Mjólkuróþol er hægt að staðfesta með því að gefa sjúklingnum mjólkursykur á fastandi maga og taka nokkrar blóðprufur næstu klukkustundirnar til að fylgjast með því hvort mjólkursykurinn meltist og hækkar blóðsykurinn.

Fæðuóþol af ókunnum orsökum

Oft finnst engin ástæða fyrir fæðuóþoli og engin aðferð til að mæla það. Einfaldast er að prófa að sleppa grunuðum óþolsvaldi úr fæðinu í 2 vikur og fylgjast með hvort einkennin hverfa. Bæta svo óþolsvaldinum aftur við fæðið og sjá hvort einkennin koma aftur.

Hugurinn stýrir taugakerfinu, og hefur því áhrif á tilfinningar og líðan, líka líkamlega líðan.  Væntingar okkar um bata geta valdið því að einkenni hverfa tímabundið, jafnvel í nokkrar vikur. Ef við erum alveg viss um að einkenni muni koma aftur þegar grunuðum óþolsvaldi er bætt við fæðið, getur það eitt og sér valdið því að einkennin koma aftur. Þetta er gott að hafa í huga ef okkur grunar að við séum með fæðuóþol. Best er að endurtaka tilraunina nokkrum sinnum til að vera viss um að við höfum fundið raunverulega ástæðu lasleikans.

Fæðuáreitispróf

Eina leiðin til að staðfesta fæðuóþol af ókunnum orsökum er með tvíblindu fæðuáreitisprófi með lyfleysu (control). Þá eru útbúnir tveir skammtar af samskonar mat, og hinum grunaða óþolsvaldi blandað í annan skammtinn, án þess það breyti útliti matarins, bragði, ilmi eða áferð. Sjúklingurinn mætir tvisvar í fæðuáreitispróf með viku millibili. Í annað skiptið fær hann skammtinn með óþolsvaldinum, en í hitt skiptið skammtinn án óþolsvaldsins. Sá sem útbýr skammtana er sá eini sem veit hvor skammturinn inniheldur óþolsvaldinn. Sá sem gefur sjúklingnum viðkomandi skammt og fylgist með einkennunum, veit hins vegar ekki hvor skammturinn inniheldur óþolsvaldinn, og sjúklingurinn veit það ekki heldur. Þess vegna kallast þetta tvíblint próf, af því báðir aðilar eru blindir fyrir því hvort viðkomandi skammtur inniheldur hinn grunaða óþolsvald.

IgG4 mótefnamæling

Mikið hefur verið reynt að finna einfaldari og fljótlegri leið til að staðfesta fæðuóþol af ókunnum orsökum. Eitt af því helsta sem hefur verið rannsakað er mæling á IgG mótefninu í blóði og undirflokknum IgG4.

Því miður benda rannsóknir til þess að mæling á IgG eða IgG4 sé gagnslaus til greiningar á fæðuóþoli. Líkami okkar framleiðir IgG mótefni fyrir þeim fæðutegundum sem við komumst oft í snertingu við, án þess því fylgi nokkur ofnæmis- eða óþolseinkenni. Þetta hefur t.d. verið prófað með því að spyrja stóran hóp fólks um fæðuvenjur og einkenni sem geta bent til fæðuóþols. IgG4 fyrir ýmsum fæðutegundum var mælt í blóði þeirra. Það mældist hækkun á mótefninu IgG4 fyrir þeim fæðutegundum sem algengar voru í fæði fólksins, en engin tengsl við fæðuóþolseinkenni (BMC gastroenterol. 2012; nov 21; 12:166.). Samtök Evrópskra ofnæmis- og ónæmisfræðinga (European academy of allergy and clinical immunology) gáfu sömuleiðis út yfirlýsingu árið 2008 um að IgG mælingar væru gagnslausar og gæfu eingöngu til kynna ítrekaða snertingu við viðkomandi matvæli (Allergy 2008: 63 : 793-796).

Food Detective er gagnslaust próf

Hver sem kaupir Food Detective greiningartækið og framkvæmir prófið heima, eða fer til meðferðaraðila sem býður upp á þetta próf, fær lista yfir ýmis matvæli sem fullyrt er að hann eða hún þoli ekki. Staðreyndin er sú að IgG4 mótefni fyrir fæðutegundum gefur bara til kynna að maður hafi ítrekað komist í snertingu við viðkomandi fæðutegundir.

Það getur verið mjög flókið að sleppa algengum matvælum alfarið úr fæði sínu. Það getur skert lífsgæði og valdið næringarskorti ef ekki er borðuð nógu fjölbreytt fæða af þeim fæðutegundum sem einstaklingurinn þolir. Oft þurfa einstaklingar með staðfest fæðuofnæmi eða fæðuóþol að taka inn fæðubótarefni til að koma í veg fyrir skort. IgG4 mótefnamæling er ekki rétta forsendan til að taka það skref að takmarka fjölbreytni fæðunnar.

Monday, September 30, 2013

Átak eða lífsstílsbreyting, öfgar eða hófsemi.



Ég hef áður skrifað nokkra pistla um muninn á ytri og innri stýringu þegar kemur að því að velja mat og borða. Ytri stýring eru reglur, boð og bönn, sem við fylgjum af sannfæringu með viljastyrkinn að vopni. Innri stýring er það að hlusta á líkamann, svengd og seddu, löngun í mat fyrir máltíð og líðan eftir máltíð. Ekki í þeim tilgangi að láta undan öllum löngunum strax, heldur til að skoða og meta út frá heildarhagsmunum okkar til framtíðar.

Ég hef líka skrifað pistla um muninn á matardagbók og lystardagbók. Matardagbók er skráning á tegund og magni fæðu á meðan lystardagbók er skráning á svengd og seddu, tilfinningum og hugsunum.

Matardagbók, ytri stýring

Matardagbók getur veitt okkur aðhald og hvatningu til að taka okkur á, breyta fæðuvenjunum. Því samviskusamari og heiðarlegri sem við erum við skráninguna, því betur sjáum við muninn á okkar mataræði og því mataræði sem við vitum eða teljum vera hollt og gott fyrir okkur. Það getur verið erfitt að horfa í slíkan spegil, en ef við erum nógu ákveðin, verður það okkur næg hvatning til að stíga skrefið, breyta lífsstílnum, færa hann í þá átt sem við viljum. Þetta er dæmi um ytri stýringu og krefst sjálfsaga. Við þurfum að fylgjast með sjálfum okkur, bæla niður langanir okkar í óhollan mat, og nota sjálfsagann til að velja það sem er hollt.

Bragðskynið

Bragðskynið breytist eftir nokkrar vikur, við lærum að meta nýtt bragð og ilm, okkur fer að finnast hollur matur góður á bragðið, og sá óholli sem við áður sóttum í, verður jafnvel ólystugur í okkar augum. Ef við höfum farið skynsamlega að í vali á nýju mataræði, ætti heilsa okkar og líðan sömuleiðis að batna. Allt þetta ætti að hvetja okkur til að halda ótrauð áfram. En það er svo skrítið að fyrir flesta verður erfiðara og erfiðara með tímanum að halda matardagbók og beita sig sjálfsaga. Það verður sífellt erfiðara að fylgja reglunum, fara eftir boðum og bönnum. Erfiðara og erfiðara að hafa vakandi og gagnrýnið auga með sjálfum sér, löngunum sínum og atferli. Það versta er ef við förum að dæma okkur og refsa ef við brjótum reglurnar, ef við borðum jafnvel bara smáræði af einhverju sem er bannað.

Tímabundið inngrip

Ef við höldum skynsamlega á málum getur ytri stýring hjálpað okkur að marka þáttaskil í lífi okkar. Gætum þess að hafna ekki sjálfum okkur. Það kann ekki góðri lukku að stýra að ganga um svangur, eða neita sér um allt sem okkur finnst gott. Flestir sem setja sér það markmið að fylgja stífum reglum það sem eftir er ævinnar, springa að lokum á limminu og úða í sig óhollustu, og fá í kjölfarið gríðarlegt samviskubit. Þetta getur orðið vítahringur og endað með átröskun. Það er betra að strangar reglur, boð og bönn, séu frá upphafi hugsuð sem tímabundið inngrip. Frá upphafi sé ljóst að eftir vissan tíma, t.d. einn til fjóra mánuði, munum við slaka á klónni, sleppa smám saman tökum á ytri stýringu og treysta í staðinn meira á innri stýringu. Ef bragðskynið, matarsmekkur okkar, hefur breyst, ættum við að geta leyft okkur að bragða á öllu því sem okkur langar í, án þess að mataræðið fari aftur í gamla farið. Þannig að við getum til að mynda leyft okkur að bragða hóflega á veitingunum þegar í veislu kemur, þó við höldum okkur við hollustuna dags daglega.

Það er ekki nauðsynlegt að fara tímabundið eftir stífum reglum, til að breyta mataræðinu. Fyrir marga er betra að beita innri stýringu eingöngu. Þá breytist mataræðið smám saman, í litlum skrefum, sem auðvelt er að standa við.

Lystardagbók, innri stýring

Á meðan matardagbókin hvetur okkur til ytri stýringar, er lystardagbókin tæki til að læra innri stýringu. Á meðan ytri stýring verður flestum erfiðari og erfiðari með tímanum, verður innri stýring auðveldari og auðveldari. Innri stýring krefst ekki sjálfsaga, heldur æfingar. Við þjálfum okkur hægt og rólega í því að hlusta innávið, fylgja þeim merkjum sem líkaminn gefur. Innri stýring byggir ekki á því að setja reglur, boð og bönn. Hún byggir ekki á því að horfa á sjálfan sig gagnrýnum augum og dæma sig fyrir minnstu yfirsjónir. Hún byggir á því einu að spyrja sjálfan sig eftirfarandi spurninga. Hvað langar mig í núna? Hversu svöng er ég núna? Er þetta líkamlegt hungur eða tilfinningalegt hungur? Hvernig leið mér síðast þegar ég borðaði þennan mat? Borðaði ég kannski bara of mikið af honum síðast? Var það þess virði?

Njóta, ekki dæma

Innri stýring hvetur okkur til að njóta þess að borða það sem okkur langar í, í hóflegu magni, án þess að dæma okkur. Og við spyrjum okkur eftirfarandi spurninga. Langar mig í meira af þessum mat núna? Er ég orðin hæfilega södd núna? Hvernig líður mér eftir þessa máltíð? Hvaða lærdóm get ég dregið af þessari máltíð?

Það getur virst óyfirstíganlegt að spyrja okkur allra þessara spurninga þegar við viljum frekar spjalla við sessunautinn undir borðum, horfa á sjónvarpið eða lesa blaðið á meðan við tökum til matar okkar. Til að byrja með er gott að borða einn í þögn, einbeita sér að bragðinu, áferðinni og áhrifunum sem maturinn hefur á svengdar- og seddustigið eftir því sem líður á máltíðina. Ef við erum nógu opin fyrir því að skoða hvernig okkur líður koma svörin við spurningunum af sjálfu sér. Og með æfingunni lærist að gera allt í senn, borða, rabba við sessunautinn og hlusta innávið.