Wednesday, July 16, 2014

Kanntu á gírana á reiðhjólinu þínu?



Þegar ég fékk fyrsta fjölgírahjólið mitt fyrir löngu síðan vandi ég mig á að hanga alltaf í einhverjum meðalgír. Ég kunni ekki á gírana, og var ekki sú manngerð að prófa mig áfram.

Það breyttist þegar ég kynntist skólabróður mínum sem vann á reiðhjólaverkstæði með náminu. Hann sagði mér í stuttu máli nokkur grundvallaratriði um notkun gíranna. Við það fékk ég kjarkinn til að byrja að prófa mig áfram. Núna nota ég alla gírana óhrædd. Og þvílíkt frelsi!

Leiðist þér að hjóla upp brekku og í mótvindi?


Síðan þá hef ég hitt nokkra sem eru í sömu sporum og ég var á sínum tíma. Þeir eru tregir til að hjóla, eða vilja bara hjóla í góðu veðri á jafnsléttu.

Mig langar að deila með ykkur grundvallarreglunum sem komu mér upp úr þeim heftandi hjólförum að hanga alltaf í sama gírnum.

Ég vil taka það fram að fræðilega veit ég ekkert um reiðhjól eða gíra. Orðalag og hugtök eru heimasmíðuð.

Grófstilling og fínstilling


Það eru tvö gírasett á dæmigerðu reiðhjóli. Annað er með fáum gírum, yfirleitt þremur. Hitt er með fleiri gírum, uþb. fimm til átta. Þú skiptir um gír með höndunum, annað hvort er það innbyggt í stýrið eða þú notar sveif undir stýrinu.

Öðru settinu stýrir þú með annarri hendinni, hinu settinu með hinni hendinni. Settið með fáu gírunum er grófstilling (léttur, meðal, þungur), settið með mörgu gírunum er fínstilling.

Grundvallarreglurnar


1) Þú þarft að knýja hjólið með fótstigunum á meðan þú skiptir um gír. Hjólið fer ekki í gírinn fyrr en þú knýrð það áfram.

2) Keðjan getur hrokkið af tannhjólinu ef þú ert í mjög lágum gír á öðru settinu, en mjög háum gír á hinu.  Ef þú ert að fara upp bratta brekku, stilltu bæði settin á lágan gír. Ef þú ert á jafnsléttu og vilt auka hraðann, hækkaðu um gír á báðum settunum. Ef þú ert á jafnsléttu eða í litlum halla og vilt fara þér hægt, stilltu bæði settin á meðalgír.

3) Það er freistandi að taka tilhlaup, hjóla hratt að brattri brekku til að létta sér fyrstu metrana í brattanum. Það er samt betra að vera búinn að koma sér í lágan gír, áður en brattinn verður verulegur. Í miklum bratta kemur svo mikið tog á keðjuna að það verður erfitt að skipta um gír.

4) Gírar vanstillast tiltölulega fljótt. Flestir (alla vega ég) draga að fara með hjólið og láta stilla gírana. Það er vel hægt að hjóla þó gírarnir séu ekki nýstilltir. Í millitíðinni er ágætt að hafa í huga að forðast allra lægstu gírana á settinu með mörgu gírunum. Þegar gírarnir eru vanstilltir getur keðjan hrokkið af tannhjólinu á lægstu gírunum.

5) Vanstilltir gírar hlýða illa þegar þú ætlar að skipta í næsta gír fyrir neðan eða ofan. Þá er betra að fara upp eða niður um nokkra gíra í einu.

6) Keðjan getur hrokkið af tannhjólinu sama hvaða varúðarráðstöfunum þú beitir. Þá er ekkert annað að gera en að stíga af hjólinu, snúa því á hvolf, og þræða keðjuna aftur upp á tannhjólið. Haltu um keðjuna með annarri hendinni og snúðu fótstigunum með hinni hendinni þar til tannhjólið nær að grípa keðjuna. Þetta tekur örstutta stund og þarf enga sérþekkingu til. Einu leiðindin eru smurolían, en þú þværð hana bara af þér þegar á áfangastað er komið.

Góða ferð!