Wednesday, January 27, 2010

Léttari æska á villigötum

Ég verð að lýsa vonbrigðum með vefsíðuna www.lettariaeska.is sem var vígð í gær. Í fyrsta lagi eru viðmið WHO fyrir æskilega þyngd barna og unglinga of lág. Og þó það komi fram í smáa letrinu á síðunni að ekki beri að taka viðmiðin bókstaflega, þá verður að hafa í huga að fæstir lesa smáa letrið. Þess vegna finnst mér ekki rétt að setja þessi viðmið í töflu eins og heilagan sannleik.

Í öðru lagi beinir þessi síða sjónum að ákveðnum hópi barna og foreldra þeirra, og hamrað á því að þau eigi við vandamál að stríða, og það sé á ábyrgð þeirra að leysa vandann. Vandinn er sagður líkamlegur, félagslegur og andlegur. Sá hluti vandans sem er félagslegur (neikvæð athygli, áhyggjur af vaxarlagi, einelti og félagsleg einangrun) er sprottinn af fordómum gagnvart fólki sem passar ekki inn í rammann hvað varðar útlit. Ég er ansi hrædd um að þessi síða muni bara auka félagslegan vanda barna, því hún ýtir undir neikvæða athygli og áhyggjur af vaxtarlagi. Þannig getur barn sem fer inn á síðuna og ber sig saman við viðmiðin í töflunni fengið áhyggjur af vaxtarlagi sínu, og foreldrar geta fengið áhyggjur af vaxtarlagi barna sinna. Sömuleiðis fær barn, sem er svo heppið að vera innan marka samkvæmt töflunni, ástæðu til að sýna barni sem er ekki jafn heppið, neikvæða athygli.

Lausnirnar sem boðið er uppá á síðunni (takmörkun skjátíma, hreyfing, útileikir, aukin grænmetis og ávaxtaneysla, aukin fiskneysla, minni skyndibiti) eru góðar í sjálfu sér. En þessi ráð eiga við um öll börn og allar fjölskyldur í landinu. Og þannig vil ég frekar að framsetning lýðheilsusjónarmiða sé. Ég myndi ekki vilja hafa nein viðmið í töflu á síðu eins og þessari. Bætt heilsa og betri líðan á ekki að snúast um kaloríur og kíló, heldur um heilbrigða lífshætti, innri sátt og að fá að vera maður sjálfur í samfélagi við aðra. Má ég heldur sjá meiri hreyfingu fléttað inn í skólastarf grunnskólanna, hollari mat í mötuneytunum, og fræðslu um heilbrigða lífshætti til allra foreldra og barna þeirra.

Wednesday, January 20, 2010

Aukið þol og meiri gleði

Ég vil hrósa RÚV fyrir að sýna í gærkveldi mynd, og hafa í Kastljósinu í fyrrakvöld viðtal, við forsvarsmenn rannsóknar á hreyfingu og lífsstíl 7-9 ára barna í 6 skólum í Reykjavík. Hreyfingu var fléttað inn í skólastarf barnanna í þremur skólanna, auk þess sem neysla grænmetis, ávaxta, fiskjar og lýsis var aukin. Rannsóknin tók tvö ár, og ekki var annað að heyra en að börn, kennarar og foreldrar hefðu verið ánægðir með framtakið. Það er vonandi að það verði framhald á þessu starfi í öllum grunnskólum landsins. Það var gaman að heyra kennara lýsa því hvað hún hafði gaman af því að stíga út úr rammanum og flétta hreyfingu inn í stærðfræði og íslenskukennslu. Ég verð að viðurkenna að það hljómar furðulega, en jafnframt mjög skemmtilega að læra þessi fög utandyra, við leik sem krefst hreyfingar. Ég er ekki hissa að eftir hreyfistund utandyra séu börnin rólegri, einbeittari og agavandamál færri í skólastofunni. Það besta fannst mér að í myndinni og viðtalinu var hvorki minnst á kaloríur né kíló, heldur bragðgóðan mat og skemmtilega leiki, á aukið þol og meiri gleði.

Wednesday, January 13, 2010

Sjálfsaginn og svipan

Í gærkveldi var viðtal við Tryggva Helgason barnalækni í Kastljósinu um offitu barna. Ég var sammála ýmsu sem þar kom fram, til dæmis því að enginn eigi að fara í megrun, hvorki börn né fullorðnir. Sömuleiðis var ég sammála því að það sé einfaldast að breyta lífsstílnum í smáum skrefum, auka smám saman hollustu og fjölbreytni fæðunnar, auka hreyfinguna smám saman.
Róttækar lífsstílsbreytingar reynast flestum mjög erfiðar, svo þeir gefast upp fyrr eða skömmu síðar. Í nýútkominni bók um Meiri hamingju eftir dr. Tal Ben-Shahar í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar er talað um að sjálfsagi hrökkvi oft ekki til þegar kemur að því að standa við áramótaheitin. Í stað þess sé auðveldara að láta djúpstæð gildi knýja sig til að skilgreina sérstaka hegðun og viðhafa hana á fastákveðnum tímum. Þannig komist jákvæð hegðun upp í vana, og smám saman verður það manni jafneðlilegt að rækja nýja siðinn eins og að bursta tennurnar. Eitt dæmi gæti verið að taka lýsi á morgnana, annað dæmi að fara 10 mín gönguferð um hverfið fyrir svefninn, þriðja dæmið að drekka vatn í stað gosdrykks með kvöldmatnum.
Ég held að ástæða þess hvað sjálfsaginn dugi skammt, sé að hann byggir á því að við vöktum sjálf okkur og dæmum fyrir minnstu yfirsjónir. Við erum fljót að þreytast og brotna þegar við beitum okkur svona innri svipu. Ef við sýnum sjálfum okkur umburðarlyndi og ást er miklu líklegra að við finnum hjá okkur þörf til að rækta líkama og sál. Að telja ofan í sig kaloríurnar og stíga reglulega á vigtina getur orðið hin versta svipa í lífi hvers manns.

Friday, January 8, 2010

Hlustaðu á líkamann

Margir glíma við þann vanda að vera of þungir. Flestir halda að megrun sé rétta leiðin, og eru oft árum saman að prófa ýmsa matarkúra. Sumum þessara kúra fylgir þyngdartap, ef þeim er fylgt í ystu æsar, en um leið og kúrnum er lokið eru kílóin fljót að koma aftur.
Síðustu árin hafa komið fram kúrar sem eiga að breyta mataræðinu til frambúðar, til að tryggja það að kílóin komi ekki aftur. En flestir springa á limminu, halda ekki hið nýja mataræði út til lengdar, og þá er fljótt að fara í sama farið.
Það versta við þetta munstur er að einstaklingnum finnst honum hafa mistekist; hann sé einhvern veginn gallaður, að geta ekki breytt sjálfum sér. Þannig ala megrunarkúrarnir og mataræðiskúrarnir á sektarkennd hjá fjölmörgu fólki.
Nýjustu rannsóknir benda til þess að það sé auðveldara að ná stjórn á líkamsþyngdinni með því að auka hreyfinguna, en með því að breyta mataræðinu. En átak í ræktinni kostar líka sjálfsaga eins og mataræðiskúr, og margir eiga erfitt með að halda átakið út. Þeir springa á limminu í ræktinni, hætta að mæta, og allt fer í sama farið.
Með heilbrigðum lífsháttum getum við bætt heilsu okkar og líðan verulega, óháð því hvort líkamsþyngdin breytist eða ekki. Galdurinn er að elska sjálfan sig eins og maður er, elska líkamann sinn eins og hann lítur út. Ræktum með okkur kærleika í stað sektarkenndar. Temjum okkur að hlusta á líkamann. Hvernig líður okkur eftir máltíð? Er meltingin góð, líður okkur vel í höfði og liðamótum? Líður okkur raunverulega vel af því sem við borðum? Er þessi matur raunverulega að gera okkur gott?
Líður okkur raunverulega vel eftir tíma í ræktinni? Erum við að stunda þá líkamsrækt sem okkur finnst skemmtileg og gefandi? Það er hægt að gera margt annað en að kaupa kort í ræktinni. Það er hægt að synda, hjóla, fara í styttri eða lengri göngutúra. Það er hægt að stunda jóga eða fara á dansnámskeið. Og einn möguleikinn er að fara stigann í stað þess að taka lyftuna, leggja bílnum fjær vinnustaðnum eða fara gangandi út í búð.