Sunday, May 9, 2010

Franskt jafnvægi

Ég gerðist svo fræg um daginn að vera boðin í miðdagsverð til franskrar fjölskyldu. Frakkar eru þekktir fyrir að kunna að njóta góðs matar. Jafnframt er lífsstíll þeirra heilbrigðari en margra annarra á Vesturlöndum. Hinu þekkta franska eldhúsi hef ég hingað til bara kynnst á veitingahúsum. Mér þótti þess vegna forvitnilegt að borða með franskri fjölskyldu í litlu þorpi nálægt svissnesku landamærunum. Mig langaði að fá smjörþefinn af því hvernig Frökkum tekst að tvinna saman nautn og hollustu.

Það var tekið á móti okkur með kostum og kynjum, og á fjórum klukkustundum voru bornir á borð fjórir réttir, hver öðrum betri. Byrjað var á salati með ólífum, tómötum, mozarellaosti og einhvers konar salatsósu úr ólífuolíu og ediki. Með þessu voru bagettur. Svo kom aðalrétturinn, kryddpylsur og grillspjót með kjöti, lauk, papriku og tómatbitum. Þetta var borið fram með hrísgrjónum, bagettu og grænmetiskássu nokkurri sem kölluð er ratatouille (“ratatúí” með íslenskri stafsetningu). Þessi kássa var sérlega ljúffeng, með tómatgrunni og alls konar grænmeti og kryddi útí. Eftir klukkutíma meltu voru bornir fram franskir og svissneskir ostar og meira af bagettum. Í kjölfarið fylgdi svo kaka sem minnti á sandköku og með henni var borin fram skál með niðurskornum ferskum ávöxtum. Með öllum réttum var að sjálfsögðu dreypt á guðaveigum, en árgang, tegund og uppruna veiganna kann ég ekki að nefna.

Takið eftir jafnvæginu og fjölbreytninni í hverjum rétti: Ferskt grænmeti, salatolía og brauð. Kjöt, grænmeti, hrísgrjón og brauð, ostar og brauð, kaka og ávextir.

Franskar bagettur úr hvítu hveiti eru afskaplega næringarsnauður matur. Þær gefa orku á formi kolvetna sem hækka blóðsykurinn hratt, en blóðsykurshækkunin dempast ef þær eru borðaðar í litlu magni með öðrum mat. Bagettur voru meðlæti með þremur réttum af fjórum, en með þessum góða og mikla mat var ekki pláss eða þörf fyrir mikið magn af bagettum.

Rautt kjöt er góður prótein- og járngjafi, en inniheldur mettaða fitu sem ekki er gott að borða í of miklu magni. Aðalrétturinn í þessari frönsku máltíð samanstóð aðallega af grænmeti, grilluðu á spjótunum, og soðnu í kássunni. Kjötið var bara lítill hluti af máltíðinni.

Mjólkurvörur eru góður kalkgjafi, og fátt stenst samanburð við franska og svissneska osta þegar maður er kominn á bragðið. Ostur í kjölfar heitrar aðalmáltíðar og á undan sætum eftirrétti, er bara snilld.

Kökur gleðja munn og maga, en þó aðallega munninn. Á Íslandi eru kökur oft bornar fram með rjóma, en þessi franska fjölskylda bar fram ávaxtasalat með kökunni, og var áherslan eiginlega fremur á ávextina en kökuna, þannig að segja má að kakan hafi verið meðlæti með ávöxtunum.

Grænmeti og ávextir eru næringarþétt matvæli, sem þýðir að þar er mikið af næringarefnum og hlutfallslega lítið af hitaeiningum. Næringarefnin sem við fáum úr grænmeti og ávöxtum eru óteljandi, þetta eru bæði vítamín, steinefni, andoxunarefni og alls kyns plöntusterólar sem auka heilbrigði okkar. Í þessari frönsku máltíð voru grænmeti og ávextir uppistaðan í þremur réttum af fjórum.

Það er þess vegna óhætt að mæla með frönskum áhrifum á íslenska matarmenningu. Í þessari frönsku máltíð var áherslan á fjölbreyttan og næringarríkan mat, sem jafnframt var dýrðlega góður á bragðið. Við hjónin fórum södd og sæl heim frá þessum gestrisnu hjónum, en þau eru nú að flytja til Íslands með börn og buru.

Meira um jafnvægið milli vellíðunar og hollustu í fyrirlestri í Manni lifandi í Borgartúni á miðvikudaginn 12. maí kl. 17.30.

Monday, May 3, 2010

Ómega-3 fyrir allar konur á barneignaraldri

Íslensk börn fæðast óvenju þung borið saman við börn í flestum öðrum Evrópulöndum og flest eru þau sem betur fer hraust. Langt fram á 20. öldina einkenndist fæði Íslendinga af neyslu sjávarfangs og lýsis, sem er ríkt af fjölómettuðu ómega-3 fitusýrunni DHA. DHA gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þroska fósturs og fylgjan velur DHA úr blóði móðurinnar og flytur yfir til fóstursins. Mikið er af DHA í frumuhimnum í heilanum. Hún gerir himnurnar sveigjanlegri og tekur þátt í ýmissri starfsemi í frumunum. Fyrstu vikur meðgöngunnar skipta ekki síður máli fyrir þroska fósturs en seinni hluti meðgöngu. Það er því mikilvægt að konur á barneignaraldri hafi forða af ómega-3 fitusýrum þegar til getnaðar kemur.

Í doktorsrannsókn minni var fylgni milli neyslu ómega-3 fitusýra, lífshátta og fæðingarþyngdar könnuð meðal 549 þungaðra kvenna tvisvar á meðgöngu. Blóðsýni voru tekin úr 176 þessara kvenna, hlutur ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum mældur og borinn saman við neyslu, lífshætti og fylgjuþyngd. Blóðsýni voru einnig tekin úr 45 óþunguðum konum á barneignaraldri, hlutur ómega-3 fitusýra mældur í rauðum blóðkornum og borinn saman við neyslu og lífshætti. Þetta var fylgnirannsókn sem ekki getur sýnt fram á orsakasamhengi, en sýnir hvaða þættir fylgjast að. Síðan er nauðsynlegt að gera íhlutandi rannsókn til að sýna fram á hvort um orsakasamhengi er að ræða.

Rannsóknin sýndi jákvæða fylgni milli neyslu ómega-3 fitusýra og hluts þeirra í rauðum blóðkornum bæði meðal þungaðra og óþungaðra kvenna. Neysla lýsis í byrjun meðgöngu tengdist aukinni þyngd nýbura óháð meðgöngulengd. Reykingar og áfengisneysla tengdust aftur á móti minni fæðingarþyngd. Aukinn hlutur ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum í byrjun meðgöngu tengdist léttari fylgju óháð fæðingarþyngdinni. Hlutur DHA var hærri í rauðum blóðkornum því lengra sem konurnar voru komnar á leið þegar þær hófu þátttöku í rannsókninni, óháð neyslu DHA. Reykingar tengdust lægri hlut DHA í rauðum blóðkornum á fyrri hluta meðgöngu, en neysla á léttum bjór auknum hlut DHA í rauðum blóðkornum á seinni hluta meðgöngu. Líkamsrækt og notkun getnaðarvarnarpillu tengdust auknum hlut DHA í rauðum blóðkornum óþungaðra kvenna óháð neyslu DHA.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að lýsisneysla í byrjun meðgöngu og góð staða ómega-3 fitusýra í rauðum blóðkornum tengist heilbrigðri aukningu í fæðingarþyngd og léttari fylgju. Há fæðingarþyngd og lág fylgjuþyngd hafa verið tengd minni hættu á háþrýstingi og hjarta- og æðasjúkdómum á fullorðinsárum, og ómega-3 fitusýrur gætu verið einn af þeim þáttum sem ákvarða langtímaheilsu einstaklingsins. Það er því mikilvægt að konur hugi að neyslu sjávarfangs eða lýsis í byrjun meðgöngunnar. Þó hlutur DHA aukist í rauðum blóðkornum eftir því sem líður á fyrri hluta meðgöngunnar óháð neyslu DHA, hafa lífshættir sín áhrif. Reykingar auka peroxun í líkamanum og tengjast bæði lægri hlut DHA í rauðfrumum og minni fæðingarþyngd. Þó neysla á léttum bjór auki hugsanlega nýmyndun DHA í líkamanum, ættu þungaðar konur að forðast neyslu hans, því áfengisneysla, jafnvel í litlu magni, tengdist lægri fæðingarþyngd afkvæmis. Óþungaðar konur sem voru á getnaðarvarnarpillunni höfðu hærri hlut DHA í rauðum blóðkornum en þær sem ekki voru á pillunni, og ýmislegt bendir til að östrógenið í pillunum hvetji nýmyndun DHA í líkamanum (nýmyndun DHA er þegar DHA er mynduð úr forveranum alfa-línólensýru). Við þjálfun er hugsanlegt að nýmyndun og/eða innsetning DHA í himnur rauðra blóðkorna aukist, og er þá líklega vörn líkamans gegn því að rauðu blóðkornin springi sem er fylgifiskur þjálfunar.

Ómega-3 fitusýrur eru lífsnauðsynlegar fitusýrur sem við verðum að fá úr fæðunni. Neysla ómega-3 fitusýra er mjög mikilvæg barnshafandi konum og konum á barneignaraldri, þar sem staða þeirra í byrjun meðgöngu virðist tengjast fæðingarþyngd og fylgjuþyngd. Heilbrigð aukning í fæðingarþyngd hefur verið tengd betri heilsu afkvæmisins síðar á ævinni.

Meira um þetta á fyrirlestri í Manni lifandi í Borgartúni á miðvikudaginn 5.maí kl. 17.30.