Thursday, April 30, 2015

Ofát - aftenging

Á mínu æskuheimili var skylda að klára matinn sinn. Helst vildi móðir mín að við kláruðum úr pottunum líka því henni leiddust matarafgangar. Þetta varð til þess að ég aftengdi mig svengd og seddu og var alveg að springa í lok máltíðar. Samt fitnaði ég aldrei. Ástæðan er örugglega margþætt. Erfðafræðilega hef ég ekki tilhneigingu til að fitna. Seddutilfinning mín er mjög öflug. Og eftir stóra máltíð forðaðist ég að hugsa um mat í þó nokkra klukkutíma á eftir. Það leið því tiltölulega langt á milli máltíða.

Eftir að ég varð fullorðin gerði ég ítrekaðar tilraunir til að breyta þessu ofátsmunstri því ég gat aldrei notið þess að borða, auk þess sem vélindabakflæði fór að gera vart við sig. Ég fékk óstöðvandi hóstaköst í lok hverrar máltíðar og var stundum þungt fyrir brjósti í klukkutíma eftir máltíð.

En þó ég væri laus undan kröfum móður minnar var svo ríkt í mér að aftengja mig um leið og ég settist að borðum og borða vélrænt.

Kvöldverðurinn - umbun

Það kostaði íhugun og yfirlegu og síðast en ekki síst æfingu að komast yfir ofátið. Fyrsta skrefið var að gefa mér leyfi til að leifa afgangnum af matnum ef ég var orðin södd. Annað skrefið var að gefa mér leyfi til að fá mér aukabita seinna ef ég varð svöng. Það bjó nefnilega í mér ótti um að ef ég borðaði mig ekki sprengsadda af kvöldmatnum yrði ég að svelta til morguns. Þegar leyfin voru fengin þurfti ég að æfa mig árum saman. Ég féll margoft í gamla farið, en með seiglunni sigraði ég sjálfa mig að lokum. Það var ekki síst þegar ég hætti að skamma mig fyrir ofátið, og fór í staðinn að umbuna mér þegar vel gekk, sem ég náði árangri. Umbunin mín er lítill biti af dökku súkkulaði sem ég má fá mér ef ég borða hæfilega mikið af kvöldmatnum.

Morgunverðurinn - meðvitund

Nú gat ég notið kvöldmatarins án þess að vera afvelta til miðnættis, hósti og mæði á kvöldin snarminnkuðu. En þá var komið að morgunverðinum. Ég eldaði mér hafragraut á hverjum morgni og brytjaði banana út í hann. Og alltaf borðaði ég yfir mig af grautnum. Ég reyndi að elda minna magn af graut, en þá varð ég svöng aftur löngu fyrir hádegi. Ég sá að ástæða aftengingarinnar við morgunverðarborðið var ekki síst sú að ég var upptekin við að lesa dagblað á meðan ég borðaði og þess vegna var ég ekki með athyglina á svengd og seddu.

Ég ákvað að hætta að lesa blaðið á morgnana. Í staðinn einbeitti ég mér að máltíðinni, borðaði meðvitað og var í núinu allan tímann. Þetta gekk vel í nokkra daga en svo þreyttist ég á því. Ég saknaði blaðalestursins og viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég tímdi ekki að sleppa notalegri morgunstundinni yfir blaðinu.

Magnmæling

Að lokum fann ég aðra leið að sama markmiði. Ég mældi magnið af haframjöli sem fór í pottinn nokkra morgna í röð. Þá komst ég að því að þegar magnið fór yfir 1,5 dl varð ég allt of södd, en þegar magnið fór niður í 1,0 dl varð ég aftur svöng löngu fyrir hádegi.

Núna mæli ég magnið á hverjum morgni og passa að það sé á bilinu 1,2 til 1,4 dl. Vandamálið er leyst. Ég les blaðið og klára grautinn af disknum. Ég er aftengd og með alla einbeitinguna á blaðinu. En mér líður samt vel til hádegis.


Líkamsþyngd mín breyttist ekkert þó máltíðirnar minnkuðu því ég verð fyrr svöng og þess vegna líður styttra milli máltíða.