Monday, October 30, 2017

Sykursýki af tegund 2 – nýjar leiðbeiningar um næringarmeðferð

Síðastliðið vor voru gefnar út nýjar leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk um næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2. Teymi næringarfræðinga og annarra sérfræðinga á sviði efnaskiptalækninga vann að gerð leiðbeininganna en svo var stór hópur kallaður til að meta þær og koma með athugasemdir sem notaðar voru til að leggja lokahönd á verkið. Nýju leiðbeiningarnar hafa ekki hlotið mikla umfjöllun úti í samfélaginu ennþá svo það er kominn tími til að kynna þær fyrir almenningi.

Sykursýki

Sykursýki af tegund 2 er algengur sjúkdómur og algengið hefur aukist á Íslandi eins og annars staðar í heiminum síðustu áratugi. Sjúkdómurinn þróast yfir langan tíma, fyrstu merkin geta jafnvel komið fram á unglingsaldri en oftast gerist það mun seinna. Það sem einkennir sjúkdóminn og greinir hann frá sykursýki af  tegund 1 er að frumur líkamans verða ónæmar fyrir insúlíni, á meðan framleiðsla insúlíns í briskirtlinum minnkar eða stöðvast í sykursýki 1. Einstaklingar með sykursýki 1 þurfa að sprauta sig með insúlíni en það þurfa þeir sem eru með tegund 2 ekki að gera fyrr en sjúkdómurinn er langt genginn.
Insúlín er hormón sem sér um að glúkósi komist úr blóðinu inn í frumur líkamans. Ef frumur líkamans verða ónæmar fyrir insúlíni bregst briskirtillinn við með því að framleiða og seyta meira af því út í blóðið í örvæntingarfullri tilraun til að koma sykrinum inn í frumurnar. Með tímanum gefst hann upp á þessu og fer að framleiða of lítið insúlín. Þess vegna kemur stundum að þeim tímapunkti í sjúkdómsferlinu að einstaklingar með sykursýki 2 þurfa að sprauta sig með insúlíni.

Næringarmeðferðin

Flest kolvetni brotna niður í glúkósa í meltingarveginum og skila sér í blóð. Frúktósi og galaktósi fara reyndar gegnum lifrina en er þar að stórum hluta breytt í glúkósa svo þeir enda líka sem blóðsykur.
Það er eðlilegt að blóðsykurinn hækki í kjölfar máltíðar og lækki aftur þegar frumur líkamans hafa tekið sykurinn upp úr blóðinu. En ef um sykursýki er að ræða verður blóðsykurinn allt of hár eftir kolvetnaríka máltíð á meðan frumurnar svelta.
Ef ekkert er að gert fer sykurinn í blóðinu smám saman að skemma háræðar í augum, nýrum, útlimum og eins kransæðarnar sem næra hjartavöðvann. Meðferð sykursýki snýst því um það að halda blóðsykrinum innan eðlilegra marka.
Hreyfing eykur næmni frumnanna fyrir insúlíni. Ef of þungur einstaklingur léttist eykst insúlínnæmið líka. Mataræðið hefur sömuleiðis mikil áhrif á sjúkdómsþróunina.
Ef sjúkdómurinn uppgötvast snemma getur næringarmeðferð, aukin hreyfing og þyngdartap ef einstaklingur er í yfirþyngd, dugað til að snúa þróuninni við eða stöðva hana. Auk þess eru til lyf sem auka næmni frumnanna fyrir insúlíni.
Notaðir eru tveir stuðlar til að meta fæðutegundir og máltíðasamsetningar með tilliti til áhrifa á blóðsykurinn. Sykurstuðull (glycemic index) er mælikvarði á sykursveifluna sem hver fæðutegund veldur, þe. hversu hratt og mikið blóðsykurinn hækkar. Sykurálag (glycemic load) er auk þess mælikvarði á það hversu kolvetnarík máltíðin var í heild sinni.

Kolvetni

Kolvetni fáum við úr gos- og svaladrykkjum, sælgæti, kexi og kökum, úr mjólkurvörum öðrum en osti og smjöri, úr ávöxtum, rótargrænmeti eins og kartöflum, sætum kartöflum, rófum og rauðrófum, öllu brauði, og svo úr hafragraut og öðrum grautum, pasta, kúskús, byggi og hrísgrjónum (bæði venjulegum og brúnum). Lítið sem ekkert kolvetni er að finna í kjöti, fiski, eggjum, osti, smjöri, jurtaolíum, hnetum, möndlum og grænmeti sem vex ofanjarðar eins og tómötum, gúrku, papriku, káli, salatblöðum, blómkáli, brokkólí, eggaldin, kúrbít og avokadó. Fremur lítið er af kolvetnum í baunum.
Sykursveiflan í kjölfar máltíðar ræðst af þrennu:

  1. Magninu af kolvetnum í máltíðinni því þau enda öll í blóðinu að lokum.
  2. Gerð kolvetnanna eða úr hverju kolvetnin koma, td. draga trefjar úr sykursveiflunni, sérstaklega ef þær eru heilar og óunnar.   
  3. Samsetningu máltíðarinnar því prótein og fita hægja á magatæmingu og/eða meltingu og draga þannig úr sykursveiflunni. 

Það er þess vegna hægt að hafa áhrif á sykursveifluna með þrennum hætti:

  • Með því að draga úr magni kolvetna í hverri máltíð eða í fæðinu í heild sinni.
  • Með því að forðast auðmeltanleg kolvetni með háum sykurstuðli, en borða í staðinn lítið unna fæðu, trefjaríka kolvetnagjafa með lágum sykurstuðli.
  • Með því að forðast að borða máltíð sem er að öllu eða mestu leyti byggð upp af kolvetnum.

Nýjar leiðbeiningar um næringarmeðferð

Þar til allra síðustu ár byggði næringarmeðferð við sykursýki 2 á almennum ráðleggingum Embættis landlæknis fyrir heilbrigða einstaklinga, en með ákveðnum áherslubreytingum. Með auknum rannsóknum var á síðasta ári byrjað að bjóða upp á þrjár mismunandi leiðir til að takast á við sykursýki 2 með fæðumeðferð. Ein leiðin er hefðbundið hollt fæði sem er sama meðferðin og áður var beitt, önnur er fæði með hóflegu kolvetnamagni og þriðja leiðin er lágkolvetnafæði.

Hefðbundið hollt fæði
Fæði með hóflegu kolvetnamagni
Lágkolvetnafæði

Hefðbundið hollt fæði leggur aðaláherslu á gerð kolvetnanna en einnig á það að dreifa neyslu kolvetna yfir daginn. Fæði með hóflegu kolvetnamagni leggur jafna áherslu á gerð kolvetnanna og að draga hóflega úr kolvetnamagni fæðunnar. Lágkolvetnafæði leggur höfuðáherslu á að draga verulega úr magni kolvetna í fæðinu.
Sýnt hefur verið fram á að þær geti allar skilað árangri í bættri blóðsykurstjórnun, en mikilvægt er að hver og einn velji sína leið í samráði við næringarfræðing, því þær henta einstaklingum misvel.

Hefðbundið hollt fæði

Hlutfall kolvetna í þessu fæði getur verið allt frá 45% og upp í 60% orkunnar. Mælt er með minnst 500 g af grænmeti og ávöxtum á dag, þar af minnst helmingur grænmeti. Heilkorn ætti að borða minnst tvisvar á dag, fisk tvisvar til þrisvar í viku, neyta kjöts í hófi, velja fituminni og hreinar mjólkurvörur og nota jurtaolíur við matargerð. Mælt er með avokadó, hnetum, feitum fiski, tröllahöfrum og heilkornarúgbrauði. Neysla á salti og viðbættum sykri sé hófleg. Taka skal lýsi eða D-vítamín. Neyslu kolvetna skal dreifa yfir daginn svo magn kolvetna í hverri máltíð fari ekki fram úr hófi og velja skal kornvörur með lágum sykurstuðli. Þetta fæði er næringar- og trefjaríkt. Það getur stuðlað að þyngdartapi og haft jákvæð áhrif á bæði blóðfitur og blóðsykur.

Fæði með hóflegu kolvetnamagni

Hér er hlutfall kolvetna 30-40% orkunnar. Í staðinn eykst hlutur fitu og próteina. Þetta mataræði er ekki talið henta þeim sem eru með skerta nýrnastarfsemi því þeir mega ekki fá of mikið prótein úr fæðunni.
Minni áhersla er á brauð, kornvörur og kartöflur en í hefðbundnu hollu fæði, en meiri áhersla á grænmeti og baunir.
Hefðbundið fæði Íslendinga er bæði prótein- og fituríkt og meðal Íslendingurinn fær aðeins 42% orkunnar úr kolvetnum. Ef gos- og svaladrykkir, sælgæti og sætindi eru dregin frá heildarneyslu meðal Íslendingsins er kolvetnamagnið komið vel undir 40%. Það er því ekki víst að það þurfi að draga úr ávaxta- eða kornvöruneyslu til að færa kolvetnamagnið undir 40%. Fyrir marga er nóg að draga verulega úr neyslu viðbætts sykurs. En þetta þarf að skoða með hverjum og einum.
Þegar hlutur kolvetna minnkar er auðveldara að koma í veg fyrir miklar blóðsykursveiflur eftir máltíð. Mikilvægt er að bæta sér ekki eingöngu upp kolvetnaskerðinguna með osti, smjöri og feitu kjöti, þar sem þessar vörur geta verið mjög saltríkar. Frekar ætti að leggja áherslu á prótein- og fituríkar fæðutegundir úr jurtaríkinu, td. hnetur og baunir.
Fæði með hóflegu kolvetnamagni getur leitt til þyngdartaps, hækkunar á góða kólesterólinu (HDL), og lækkað langtímablóðsykur.

Lágkolvetnafæði

Hlutur kolvetna er aðeins 10-20% orkunnar á þessu fæði. Hlutur fitu og próteina er þar af leiðandi enn stærri en í fæði með hóflegu kolvetnamagni. Þetta mataræði er ekki talið henta þeim sem eru með skerta nýrnastarfsemi og mögulega ekki heldur þeim sem hafa hátt LDL kólesteról (vonda kólesterólið). Ef einstaklingar nota insúlín eða lyf sem geta valdið blóðsykurfalli þarf að taka sérstakt tillit til þess. Nauðsynlegt er að næringarfræðingur fylgi meðferðinni eftir auk þess sem taka þarf blóðprufur reglulega til að fylgjast með, ekki bara blóðsykri og blóðfitu, heldur nýrnastarfseminni líka.
Enn vantar langtímarannsóknir á árangri þessarar meðferðar og þess vegna er ekki mælt með því að vera á lágkolvetnafæði lengur en 6 mánuði. Í kjölfarið þarf að færa sig hægt og rólega yfir í fæði með hóflegu kolvetnamagni.
Lágkolvetnafæði samanstendur að mestu af kjöti, fiski, eggjum, grænmeti, osti og fitu. Mun minna er borðað af brauði, kornvörum, kartöflum, hrísgrjónum og sykri. Einnig töluvert minna af baunum, ávöxtum, heilkorni og rótargrænmeti. Þegar svona mörgum fæðutegundum er sleppt þarf að gæta vel að því að það valdi ekki næringarskorti.
Kostir lágkolvetnafæðis eru að þegar kolvetnamagnið er svona skert er auðveldara að koma í veg fyrir miklar hækkanir í blóðsykri eftir máltíð. Það getur auk þess stuðlað að hraðara þyngdartapi fyrstu mánuðina en annað mataræði, sem skilar sér í jákvæðum breytingum á blóðfitu hjá of feitum einstaklingum. Ástæða þyngdartaps er meðal annars sú að prótein veitir meiri seddutilfinningu en aðrir orkugjafar.

Lokaorð

Um allar þessar þrjár leiðir gildir að ef markmið um þyngdartap nást ekki, eða ef markmið um bætta blóðsykurstjórnun eða jákvæðar breytingar á blóðfitu nást ekki, þá er rétt að skoða þann möguleika að velja einhverja aðra af leiðunum þremur.