Thursday, February 28, 2013

Óróleiki hugans og fullkomnunaráráttan.



Gjörhygli, árvekni og núvitund eru allt saman tilraunir til að þýða enska orðið mindfulness. Þetta er hugleiðsluaðferð sem sprottin er úr búddískri heimspeki, en sálfræði Vesturlanda hefur tekið hana upp á sína arma. Gjörhygli er gagnreynd aðferð sem er gjarnan notuð ásamt hugrænni atferlismeðferð til að sefa kvíða og þunglyndi. Hún getur sömuleiðis gagnast öllum til að mæta álagi hversdagsins.

Hugurinn er órólegur og vill teyma okkur að því sem gerðist í gær, eða því sem mögulega gerist á morgun. Gjörhygli byggir á því að samþykkja óróleika hugans, fylgjast með hugsununum koma og fara, án þess að dæma þær. Við skoðum hugsanirnar og sleppum tökum á þeim, áður en þær mynda keðju sem teymir okkur langt í burtu frá líðandi stund. Við leiðum athyglina aftur og aftur að augnablikinu, til dæmis með því að hlusta á okkar eigin andardrátt.

Það er hægt að stunda gjörhygli með skipulegum hætti, í tíu eða fimmtán mínútur, hálftíma eða klukkutíma, daglega eða flesta daga. Þá þurfum við að skapa okkur rými og tíma. Við getum annað hvort setið eða legið. Eins má iðka gjörhygli á rólegri göngu úti í náttúrunni. Iðkunin byggir ekki á sjálfsaga. Við þurfum ekki að slást við huga okkar eða tæma hann með viljann að vopni. Iðkunin byggir eingöngu á æfingu. Við æfum okkur að leiða hugann aftur og aftur að andardrættinum eða tilfinningunni þegar bak okkar snertir stólbakið, eða fæturnir gólfið.

Gjörhygli er einnig hægt að stunda hvar sem er og hvenær sem er, í örstutta stund, eða örfáar mínútur, án þess að skipuleggja það fyrir fram. Þá leiðum við hugann sem snöggvast inn á við eða að augnablikinu. Við getum fundið fyrir tánum, fundið hvernig okkur líður innst inni eða hlustað á andardráttinn. Við getum jafnvel virt blómið í gluggakistunni fyrir okkur af athygli, gaumgæft rákirnar á grænu blöðunum eða litbrigði krónublaðanna.

Fyrir manneskju með fullkomnunaráráttu eins og mig, er óskipulögð iðkun enn aðgengilegri en sú reglubundna og skipulagða. Hún tekur enga stund, en hefur ótrúlega mikil áhrif. Það er svo mikill léttir að sleppa tökum á fortíð og framtíð í smástund. Hugurinn verður tær og lygn.

Það besta er að ég þarf ekki að vera „góð“ í þessu, ég þarf ekki að „kunna“ þetta, mér þarf ekki einu sinni að „takast“ þetta. Í þessu dæmi er ekkert “verð” eða “þarf”. Ég bara reyni að stilla mig inn á núið, í örstutta stund, þegar ég man eftir því. Og ég þarf ekki að muna eftir því á hverjum degi. Suma daga man ég eftir því við og við allan daginn. Aðra daga gleymi ég því alfarið. En alltaf þegar ég man eftir að hlusta á minn eigin andardrátt, þá finn ég hvað það er mikill léttir. Ég safna þessum augnablikum og varðveiti.

Iðkun gjörhygli er áreynslulaus, og verður auðveldari með tímanum. Ef minnið bregst okkur getum við látið símann minna okkur á. Stutt hljóðmerki frá símanum kallar okkur inn í núið. Eftir stutta stund erum við búin að núllstilla hugann, og getum snúið okkur aftur að dagsins önn, afslappaðri og meðvitaðri um líðan okkar.