Wednesday, October 31, 2012

Heilsurækt á allra færi



Þegar ég var að alast upp í Reykjavík á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var algengast að borða ýsu og lambakjöt með kartöflum, skyr með rjóma, súrmjólk með púðursykri, og svo brauð með smjöri og osti eða harðsoðnum eggjum. Þennan mat borðuðu allflestir Íslendingar í hverri viku, ef ekki daglega. Með árstíðabundnum tilbrigðum eins og bláberjaskyri, rabarbaragraut með rjóma, slátri og rófustöppu, var þetta þokkalega hollur matur, en fábreyttur.
Í dag er fjölbreytnin meiri, en það er líka meiri munur á mataræði Jóns og Gunnu. Jón gæti til dæmis verið mun meðvitaðri um heilsuna en Gunna, eða Gunna haft mun hærri tekjur en Jón.
Heilsubúðum og veitingastöðum sem bjóða heilsukost hefur fjölgað og sömuleiðis líkamsræktarstöðvum. Þangað sækir fólk sem setur heilsuna í forgang, en mörgum þykir heilsufæði og önnur heilsurækt dýr.
Ég hef undanfarið verið að velta fyrir mér ódýrum leiðum til að öðlast betri heilsu. Og þær eru margar, þegar grannt er skoðað.
Kranavatn er ókeypis, og bæði hollt og dásamlega svalandi og gott.
Það er ókeypis að ganga, og ef við eigum hjól, þá er ókeypis að hjóla. Þetta er að sjálfsögðu miklu hollara en að sitja hreyfingarlaus í bíl. Það er líka miklu ódýrara að taka strætó en að kaupa og reka bíl. Ef við tökum strætó þurfum við að ganga út á stoppistöð, og jafnvel hlaupa ef við erum sein fyrir, svo við fáum meiri hreyfingu út úr því en að keyra á einkabíl.
Kort í líkamsræktarstöð kostar heilmikið, en í staðinn er hægt að skokka, fara í fjallgöngur, hjólatúra eða gera æfingar heima sem kostar ekki neitt. Til dæmis má setja mjólkurfernur eða bækur í plastpoka og lyfta, í stað þess að lyfta lóðum í sveittum sal úti í bæ. Svo er hægt að lyfta eigin líkama á stofugólfinu heima hjá sér með armbeygjum og öðru slíku.
Það er dýrt að fara í nudd, en það er líka vel hægt að nudda sig sjálfur heima. Þá setur maður golfbolta eða skopparabolta inn í nælonsokk, lætur svo boltann síga að aumum vöðvum, í öxlum, baki eða mjöðmum, og nuddar sér upp við vegg með boltann á milli.
Það er ódýrara að smyrja nesti og taka með í vinnuna en að fara í mötuneyti eða á kaffihús í hádeginu. Það getur líka verið hollara, ef valið stendur milli skynsamlega valins nestis annars vegar, og hins vegar mötuneytis eins og ég hafði aðgang að árum saman, þar sem nánast ekkert var á boðstólum sem gat með nokkru móti talist hollt.
Í heilsubúðum og í heilsuhornum stórmarkaðanna fæst eitt og annað sem ekki er svo dýrt í raun. Til dæmis er hægt að kaupa þurrkaðar baunir af ýmsum gerðum. Baunirnar á flestar að leggja í bleyti yfir nótt, og við það eykst rúmmál þeirra, jafnvel margfalt. Einn lítill poki af baunum dugar í margar máltíðir, og þó þurrkaða kryddið sem gott er að setja útí sé dýrt, þá dugar lítill kryddstaukur í ár eða meira. Þetta er því ódýr matur, og hollur er hann líka. Baunir eru bæði prótein- og trefjaríkar og innihalda auk þess ýmis vítamín og steinefni.
Ferskvara er dýr á Íslandi, bæði kjöt, fiskur, grænmeti og ávextir, það verður að segjast eins og er. En flestir hálf- og altilbúnir réttir eru dýrari en að kaupa hráefni og elda sjálfur, enda er maður þá að borga aukalega fyrir eldun, pökkun og jafnvel framreiðslu og auglýsingar (hráefni er sjaldnast auglýst, en tilbúnir réttir eru auglýstir grimmt). Í mörgum tilvikum er líka hollara að elda úr fersku hráefni heima.
Sumir sem vita vel að þeir borða óhollan mat reyna að bæta sér það upp með því að taka fæðubótarefni. Slíkar vörur eru rándýrar, og gera oft lítið sem ekkert gagn. Það er bæði ódýrara og hollara að sleppa fæðubótarefnunum en borða í staðinn hollari fæðu.
Geðrækt er þriðja breytan í heilsujöfnunni. Því meira sem við leitum inn á við í hugleiðslu, og að dýpri merkingu í lífinu, því minni peningum eyðum við í yfirborðskennda afþreyingu, áfengi, tóbak, hárlitun, hluti og föt sem gera ekkert til að auka sanna hamingju okkar og velsæld.
Það eru því margar leiðir til að bæta heilsuna sem kosta ekki svo mikið. Það sem hindrar okkur flest í að breyta lífsháttunum er tímaskortur og vani. Það tekur vissulega smástund að leggja baunir í bleyti að kvöldi, en aðallega þarf að muna eftir því. Það tekur tíma að sjóða baunirnar daginn eftir, en á meðan þær malla er hægt að koma ýmsu í verk. Það er vissulega tímafrekara að ganga eða hjóla í vinnuna en að keyra, en á móti sparast tíminn á líkamsræktarstöðinni, fyrir utan peningana sem fóru í bensín og líkamsræktarkort.
Breytingar er best að gera í smáum skrefum og leyfa hverri breytingu að komast upp í vana áður en næsta skref er stigið. Það sem virtist erfitt og tímafrekt, verður bæði fljótlegt og auðvelt, þegar það er komið upp í vana.