Við mikla áreynslu hitnar líkaminn, því efnaskiptin örvast. Þá er mikilli orku brennt, og við brunann myndast hiti. Líkaminn þarf að losa sig við þennan varma, því annars “fáum við hita”. Blóðið flytur varmann frá vöðvunum til yfirborðs líkamans. Æðarnar til húðarinnar víkka svo blóðið leitar þangað. Þess vegna roðnar húðin. Þegar til húðarinnar er komið leitar vatn úr æðunum að yfirborði húðarinnar og myndar svita sem perlar á húðinni. Ef loftslagið úti eða í salnum er svalt og loftið ekki mettað af raka, þá gufar svitinn upp af húðinni. Stundum gufar hann það fljótt upp að hann nær ekki að mynda dropa. Þannig getum við svitnað heilmikið án þess að taka eftir því. Það kostar orku eða varma að breyta vatni úr fljótandi formi í gufu. Svitinn tekur þess vegna varma með sér þegar hann gufar upp, svo blóðið kólnar. Kaldara blóð fer til baka til hinna vinnandi vöðva, og sækir þangað meiri varma og flytur til húðarinnar.
Á langri og strangri æfingu getur líkaminn misst umtalsvert magn af vökva, og því er mikilvægt að drekka vel fyrir og eftir æfingu, og jafnvel á meðan á æfingu stendur. Með svitanum tapast dálítið af söltum, en það er alla jafna nóg að borða venjulegan mat fyrir og eftir æfingu til að bæta líkamanum upp töpuð sölt, og drekka hreint vatn. Í sumum tilvikum getur verið æskilegt að fá kolvetni og sölt auk vatns á æfingu. Slíka drykki er hægt að kaupa tilbúna, en að blanda eplasafa og vatni til helminga og bæta smá salti útí gerir sama gagn.
Í heitu, röku loftslagi, og í hot-jóga sölum, er loftið nánast mettað af raka. Þá gufar svitinn ekki upp, heldur rennur af húðinni. Það er vegna þess að loftið getur ekki tekið við meiri raka. Ef svitinn gufar ekki upp, tekur hann ekki varma og kælir ekki líkamann eða blóðið. Hann rennur bara burt, eða er þurrkaður burt. Þannig missir líkaminn vökva án þess að kólna. Við svitnum að minnsta kosti jafn mikið við áreynslu í rakamettuðu lofti og í þurrara lofti, en fáum ekki þá kælingu sem við þurfum og líkaminn er að reyna að sjá okkur fyrir.
Nauðsynlegt er að drekka vel fyrir og eftir hot-jóga tíma, og hlusta vel á líkamann á meðan á æfingunni stendur. Ef þorstinn kallar er skynsamlegt að taka hlé og fá sér vatn. Ef æfingin er lengri en 1-2 klst er algjörlega nauðsynlegt að vökva sig inn á milli.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment