Tuesday, December 31, 2013

Kirsuberjatínsla




Kirsuberjasósa þykir mörgum vera ómissandi með hinum vinsæla jólaeftirrétti Riz á l’amande. Persónulega finnst mér sú tilbúna kirsuberjasósa sem ég hef keypt úti í búð of sæt. Kirsuberjabragðið drukknar bókstaflega í sykurbragðinu.

Fallegustu berin tínd

Best væri að tína kirsuberin beint af trénu og sjóða sína eigin sósu, en ég veit ekki til þess að kirsuberjatré vaxi á Íslandi. Ég hef alla vega aldrei tínt kirsuber, hvorki hérlendis né erlendis. En ég ímynda mér að við kirsuberjatínslu séu fallegustu berin tínd, en ljótari ber látin eiga sig.

Við lifum ekki á kirsuberjum einum saman og þessi hollu og góðu ber eru raunar ekki viðfangsefni þessa pistils. Kirsuberjatínsla er aftur á móti hugtak sem hefur aðra og ólíka merkingu en þá að velja fallegustu kirsuberin og setja í körfu. Sú merking orðsins tengist kirsuberjum ekki neitt, og ekki garðyrkju heldur.

Að velja það sem betur hljómar

Kirsuberjatínsla (enska: cherry picking) er það að handvelja rannsóknir eða heimildir til að vitna í, máli sínu til stuðnings. Sá sem stundar kirsuberjatínslu velur heimildir sem styðja málstaðinn sem hann er fyrirfram sannfærður um að sé sá rétti. Þetta gerir hann annað hvort til að þjóna hagsmunum sínum, eða vegna þess að hann telur það gera málflutninginn trúverðugri.

Hin hliðin á kirsuberjatínslu er að hunsa markvisst eða líta framhjá rannsóknum sem styðja aðra niðurstöðu en þá sem verið er að koma á framfæri.

Dæmi

Við getum tekið sem dæmi pistil eða bók sem skrifuð er um fæðubótarefni sem á að geta læknað eða fyrirbyggt alvarlegan sjúkdóm, sé þess neytt í nógu miklu magni. Fyrir utan kirsuberjatínsluna er dæmigert að textinn sé í áróðursstíl. Viðtekinni vísindalegri þekkingu er mótmælt kröftuglega og hún sögð úrelt. Talað er niður til heilu fagstéttanna, lesendur bókstaflega varaðir við því að treysta þeim.

Til að gefa textanum vísindalegra yfirbragð er litlum númerum flaggað hér og þar inni í textanum, og undir pistlinum eða aftast í bókinni er heimildalisti sem númerin vísa til, listi sem virðist trúverðugur við fyrstu sýn.

Nánari skoðun

Langflestir lesendur heilsupistla og heilsubóka hafa ekki tíma til að kynna sér heimildirnar til hlítar, hvað þá allar hinar rannsóknirnar sem höfundurinn lætur hjá líða að vitna í.

Séu heimildirnar skoðaðar nánar kemur oftar en ekki í ljós að rannsóknirnar eru illa hannaðar eða niðurstöðurnar oftúlkaðar og jafnvel rangtúlkaðar. Og þó sumar heimildanna virðist vandaðar, eru rannsóknirnar sem vísað er í, einu rannsóknirnar sem benda til þess að fæðubótarefnið geti mögulega læknað eða fyrirbyggt sjúkdóminn. Vönduð heimildaleit sýnir hins vegar að hundruðir eða þúsundir rannsókna gefa aðra niðurstöðu, t.d. að fæðubótarefnið sé gagnslaust eða jafnvel skaðlegt heilsu manna, alla vega í því magni sem pistillinn eða bókin mælir með.

Höfundurinn hefur þannig stundað kirsuberjatínslu; valið þær heimildir – girnilegustu kirsuberin – sem styrkja málstað hans; en sleppt því að geta hinna fjölmörgu sem ganga gegn málstaðnum.

Ráðlagðir dagsskammtar

Það er ekki auðvelt að meta áreiðanleika allra þeirra upplýsinga sem aðgengilegar eru í bókum og á netinu. Þess vegna hafa opinberar leiðbeiningar á borð við ráðlagða dagsskammta vítamína og steinefna aldrei verið mikilvægari en núna. Á bak við nýju norrænu ráðleggingarnar um mataræði og næringarefni liggur mikil vinna færustu vísindamanna Norðurlandanna sem eyddu mánuðum, ef ekki árum, í að lesa og meta niðurstöður þúsunda rannsókna á þessu fræðasviði. Faglegar ráðleggingar til einstaklinga taka þó alltaf mið af heilsu og aðstæðum hvers og eins og geta þess vegna vikið frá hinum almennu ráðleggingum.

Ég hvet lesendur heilsupistla og heilsubóka til að vera gagnrýnir á allt sem þeir lesa. Áróðurskenndar yfirlýsingar, ofurskammtar og öfgar ættu að hringja varúðarbjöllum hjá okkur öllum. Sömuleiðis þegar eitt undraefni á að lækna eða fyrirbyggja alla kvilla milli himins og jarðar.



No comments:

Post a Comment