Wednesday, February 17, 2010

Að ná stjórn á huganum: leið búddista

Í hinum upprunalega búddisma er guðshugtakinu hafnað. Búddisminn á samt sem áður margt sameiginlegt með trúarbrögðum á borð við hindúisma, og auk þess minnir margt í búddismanum á sálfræði Vesturlanda.
Búddisminn byggir á fjórum grunnlögmálum. Fyrsta lögmálið er lögmál dukkha (þjáningarinnar). Við mennirnir erum allir undirorpnir þjáningunni. Þó við séum hamingjusöm í dag og allt gangi okkur í haginn, getur hvenær sem er eitthvað það gerst sem kallar fram þjáningu í lífi okkar. Það geta orðið náttúruhamfarir, slys, veikindi, dauðsföll eða stríð. Við getum orðið fyrir atvinnumissi, höfnun, skorti á mat, ást eða einhverju því sem við þörfnumst eða þráum.
Og þetta leiðir okkur að öðru lögmáli búddismans, lögmáli tanha (þarfa, langana, þrár). Mannlegt eðli gerir okkur undirorpin þjáningunni, því við erum full af þörfum, löngunum og þrám. Við þráum ást og þörfnumst matar, við þráum frið og góða heilsu, og stundum langar okkur í sömu lífsgæði og nágranni okkar virðist njóta. Þegar eitthvað kemur í veg fyrir að við getum fullnægt þessum þörfum, löngunum og þrám, upplifum við þjáningu. Hún getur verið allt frá pirringi og leiða til öfundar, sársauka, sorgar, reiði, hungurs og þorsta.
Þriðja lögmálið, lögmál nirvana (uppljómunarinnar) segir okkur að við getum öðlast frelsi frá þjáningunni. Þetta frelsi byggir á því að temja dýrið innra með okkur, hemja þarfir okkar, langanir og þrár, verða óháð því að fá þarfir okkar, langanir og þrár uppfylltar. Vesturlandabúar hafa skilið þetta svo að búddisminn boði algjöra sjálfsafneitun, en það er misskilningur. Þegar dýrið hefur verið tamið látum við fátt eða ekkert koma okkur úr jafnvægi. Við æðrumst ekki þó okkur skorti eitthvað, en að sjálfsögðu njótum við þess sem er í boði.
Fjórða lögmálið, lögmál magga (leiðin til frelsisins) kennir okkur leiðina að þessu takmarki. Leiðin til frelsisins fæst með því að tileinka sér átta lífsreglur. Þær eru rétt viðhorf, réttar hugsanir, rétt tjáning, réttar gjörðir, réttir lífshættir, rétt gjörhygli, réttur ákafi og rétt hugleiðsla.
Við temjum okkur rétt viðhorf með því sjá nauðsyn þess að vera heiðarleg og skaðlaus öðru fólki. Við temjum okkur réttar hugsanir með því að hugsa jákvætt, en þó umfram allt raunsætt. Við temjum okkur rétta tjáningu með því að segja sannleikann og forðast að segja nokkuð það sem eykur á þjáningu okkar og annarra. Réttar gjörðir eru þær sem eru skaðlausar okkur og öðru fólki. Réttir lífshættir eru þeir sem skaða ekki umhverfi okkar. Rétt gjörhygli byggir á því að fylgjast með hugsunum okkar, meta þær og breyta þeim ef þær færa okkur þjáningu. Við temjum okkur réttan ákafa með því að beina öllum okkar kröftum að því að temja okkur lífsreglurnar átta. Rétt hugleiðsla fæst með því að tæma hugann og einbeita sér af fullkomnu fordómaleysi.
Mig langar að útskýra gjörhyglina betur. Hún byggir á því að sjálfið sé tvískipt. Annars vegar er það sá hluti okkar sem hugsar, talar og framkvæmir; hins vegar kjarnasjálfið sem getur fylgst með okkur hugsa, tala og framkvæma. Ef við erum leidd í djúpslökun eða hugleiðslu er okkur oft sagt að fylgjast með andardrættinum, eða beina athyglinni að líkamanum, láta hugann líða frá tám að hnjám, að mjöðmum, öxlum, nefi og svo framvegis. Á sama hátt getum við tamið okkur að fylgjast með hugsunum okkar, hvernig þær koma og fara, hvernig ein hugsun leiðir til annarrar. Við getum verið sem hlutlaus áhorfandi að okkar eigin hugsunum. Og það sem meira er, við getum lagt mat á hugsanir okkar og breytt þeim eða valið þær sem við teljum æskilegar, og leyft hinum að hverfa.
Í hugleiðslu förum við lengra í sömu átt. Við fylgjumst með hugsuninni um stund, og smám saman kyrrist hugurinn, ein og ein hugsun birtist á stangli, og markmiðið er að tæma hugann, hugsa ekkert.
Þetta ferli færir okkur nær kjarnasjálfinu, sem er kannski það sem okkur var ætlað að verða, áður en uppeldi, aðstæður, áföll, skólakerfið og þjóðfélagið mótaði okkur. Þú getur lesið meira um þetta í þessari bók

No comments:

Post a Comment