Hugtök eins og fita og kólesteról eru hlaðin fordómum í huga margra. Fordóma má uppræta með þekkingu, og hér er pistill um flutning fitu og kólesteróls um líkamann. Ég kemst ekki hjá því að nota flókin hugtök úr lífefnafræðinni, en vísa í myndlíkingu sem hjálpaði mér að læra þetta efni undir próf á sínum tíma. Við skulum ímynda okkur að líkaminn sé borg, æðarnar séu götur og frumur líkamans séu hús eða heimili. Meltingarvegurinn er skipaskurður og í görninni er höfnin, þar sem skipin landa vörum sínum.
Eins og allir vita sem hafa þvegið upp, myndar fita fitudropa í vatni. Í blóði okkar eru líka örsmáir fitudropar af nokkrum mismunandi gerðum sem líkaminn myndar úr þríglýseríðum, fosfólípíðum, kólesteróli og fituleysnum vítamínum. Á yfirborði dropanna eru prótein. Fitudropar í blóðinu eru kallaðir lípóprótein (fituprótein).
Fitan sem við fáum úr fæðunni er blönduð galli í skeifugörninni ofarlega í meltingarveginum. Gallið minnkar fitudropana svo meltingarhvatar frá briskirtli eigi auðveldara með að kljúfa þríglýseríðin og ná þannig fitusýrum úr dropunum. Fitusýrurnar eru teknar upp (frásogaðar) úr þörmunum inn í þarmavegginn. Áður en þeim er hleypt út í sogæðarnar er þeim pakkað í nýja fitudropa. Þetta er ein tegund af lípópróteinum, sem kallast kílómíkrón. Sogæðarnar bera kílómíkrónin til blóðrásar nálægt hjartanu. Hjartað dælir þeim og blóðinu um allan líkamann. Á yfirborði frumna líkamans er efnahvati sem bindur kílómíkrón og önnur lípóprótein sem berast með blóðrásinni og klípur fitusýrur úr þeim eftir þörfum. Virkni hvatans eykst ef frumuna vantar fitusýrur til orkunotkunar. Fituleysin vítamín og kólesteról eru líka klipin úr kílómíkrónunum eftir þörfum. Kílómíkrónin minnka smám saman á ferð sinni um blóðrásina og leifarnar eru teknar upp af lifrinni nokkrum klukkustundum eftir máltíð. Hér getum við séð þarmavegginn í hlutverki hafnarmannvirkja, þar sem uppskipun fer fram. Kílómíkrónin eru flutningabílar sem færa heimilunum innfluttar vörur beint úr skipunum. Lifrin er flutninga- og endurvinnslumiðstöð sem tekur við restunum.
Lifrin býr líka til sína eigin fitudropa og sendir út í blóðrásina. Þetta eru lípóprótein sem eru kölluð VLDL og verða meira áberandi í blóðrásinni því lengra sem líður frá síðustu máltíð. Efnahvatarnir á frumunum binda VLDL og klípa fitusýrur, kólesteról og vítamín af þeim eftir þörfum. VLDL droparnir minnka smám saman og kallast þá LDL. Lifrin hefur viðtaka fyrir LDL og hreinsar þá úr blóðrásinni. LDL droparnir eru stundum kallaðir “vonda kólesterólið”, þó þeir innihaldi fleira en bara kólesteról. En LDL-droparnir hafa vont orð á sér vegna þess að þeir geta oxast (þránað) og fest við æðaveggina áður en lifrin nær að fjarlægja þá. Þá getur myndast bólga í æðaveggnum og hann kalkað. Að lokum getur æðin stíflast. Kransæðarnar, sem liggja utan á hjartavöðvanum og næra hann, eru sérlega viðkvæmar fyrir kölkun. Stífla í þeim getur verið lífshættuleg. Við skulum ímynda okkur að flutningamiðstöðin sjái heimilunum fyrir vörum þegar langt líður milli skipakoma. Vörurnar eldast á leiðinni og skemmast. Bílstjórarnir eiga að skila afgangnum til flutningamiðstöðvarinnar. En það kemur fyrir að þeir sofna undir stýri og klessa á húsveggi. Þá verða skemmdir á húsunum og umferð um göturnar getur stöðvast. Ef umferðarteppa veldur því að dælustöðin (hjarta borgarinnar) fær ekki eldsneytið sem hún þarf á að halda (súrefnisríkt blóð), stöðvast dælan og íbúar borgarinnar líða skort og deyja.
Önnur tegund lípópróteina kallast HDL. Lifrin sendir þessa fitudropa út í blóðrásina jafnt og þétt. HDL er stundum kallað “góða kólesterólið”, því hlutverk þess er að klípa kólesteról og fitusýrur úr öðrum fitudropum og skila heim til lifrarinnar. Við getum litið á HDL sem hreinsunardeild sem fer um götur borgarinnar. Hún hirðir upp restar af vörum og klesstum bílum og flytur í flutningamiðstöðina til endurvinnslu.
Kólesteról fáum við úr eggjarauðu og rækjum, en lifrin framleiðir líka kólesteról, enda er það forveri lífsnauðsynlegra hormóna í líkamanum. Mikil neysla harðrar fitu og kolvetnaríkrar fæðu hækkar “vonda kólesterólið” og minnkar “góða kólesterólið” í blóðinu. Neysla mjúkrar fitu hefur almennt góð áhrif á blóðfituna, en vísbendingar eru um að einómettuð fita eins og er í ólífuolíu, og ómega-3 fitusýrur í lýsi, fiski og hörfræolíu séu betri en ómega-6 fitusýrur sem eru í maísolíu, sólblómaolíu og fleiri jurtaolíum. Mikil neysla ómega-6 fitusýra eykur bólgumyndun í líkamanum og vísbendingar eru um að þær oxist eða þráni frekar og klessist við æðaveggina.
No comments:
Post a Comment