Áramótin nálgast óðfluga. Þá nota margir tækifærið
til að strengja áramótaheit. Gott er að slík
ákvörðun eigi sér aðdraganda og sé ígrunduð og undirbúin.
Flest vitum við að við gætum lifað
heilbrigðara lífi. Við vitum líka flest
hvað við þurfum að gera til að bæta heilsuna.
Við gætum sum hætt að reykja, önnur farið að stunda líkamsrækt, og enn
önnur hætt í skyndibitanum og eldað mat frá grunni í staðinn. En það er eitthvað sem hindrar okkur. Og það getur verið árangursríkt að velta
fyrir sér þessari hindrun. Ekki til að dæma
okkur fyrir leti og ómennsku, eða rífa okkur niður fyrir kjarkleysi eða
stjórnleysi. Gerum það bara til að skoða
þessa innri hindrun og viðurkenna hana.
Kannski erum við vanaföst, og sjáum enga
ástæðu til að breyta því sem hefur virkað fyrir okkur hingað til. Kannski erum við undir miklu álagi, í stöðugu
kapphlaupi við tímann. Við rétt náum að vekja
börnin og klæða þau, koma þeim í skóla eða gæslu, klára vinnudaginn, versla,
sækja börnin, borða, baða, svæfa. Kannski
erum við værukær, viljum lifa fyrir líðandi stund, skeytingarlaus um framtíðina. Kannski erum við nautnaseggir, finnst einfaldlega
gott að reykja, borða hamborgara og drekka kók.
Við sættum okkur þá við hósta á morgnana, bólur í andlitinu, bjúg á
fótum, skert þol og þrek. Kannski erum
við ung ennþá, og ekki farin að finna fyrir hósta, bjúgi eða þrekleysi. Til hvers þá að hafa áhyggjur af slíku?
Ákvörðunin um breytingu er okkar. Það getur enginn neytt okkur til að breyta
lífi okkar. Það getur heldur enginn
breytt því fyrir okkur. Þennan
sjálfsákvörðunarrétt er mikilvægt að hafa í huga. Lífsstílsbreyting er ekkert sem við verðum
eða þurfum að gera. Hún er eitthvað sem
við getum valið að gera. Orðin “verð” og
“þarf” eru gjarnan hlaðin neikvæðum tilfinningum. Þau kalla beinlínis á mótþróa og mótrökin
hrannast upp í huga okkar. Þá getur
verið léttir að ýta þessum orðum burt úr huganum, og velta í staðinn fyrir sér því
frjálsa vali sem við höfum. Hvað viljum
við raunverulega, hvað er mikilvægast?
Það eru ekki tóm mótrök og hindranir í huga
okkar, þar má líka finna rök með breytingu.
Okkur munar kannski um peningana sem sparast með því að hætta að reykja. Það er bæði ódýrara og skemmtilegra að elda
frá grunni, en að kaupa tilbúinn mat. Og
kannski er okkur farið að langa í betri heilsu og líðan.
Í stað þess að eyða orku í togstreituna í
huga okkar getum við skoðað í rólegheitum hvort við finnum leiðir framhjá
hindrununum. Það má skoða án allrar
fordæmingar, án “verð” og “þarf”. Er rými
í hversdegi okkar til að hlúa að okkur, heilsu okkar og líðan til framtíðar? Gætum við skapað slíkt rými? Fimm mínútur á morgnana í hugleiðslu, til að
stilla hugann, róa taugarnar, komast inn í núið? Tíu mínútna gönguferð í hádeginu tvisvar í
viku? Nota kvöldin til að útbúa salat,
sem við tökum með í vinnuna á morgnana? Leiðirnar
eru óteljandi, og mikilvægast að við finnum okkar eigin leið.
En hvað ef við viljum hætta eða sleppa
einhverju sem er orðinn vani, og okkur finnst gott? Þá getur fyrsta skrefið verið að velta fyrir
sér hvað myndi hjálpa okkur til að hætta eða sleppa. Ef við viljum hætta að reykja, gæti hjálpað
að biðja um stuðning og umburðarlyndi nánustu fjölskyldu á meðan fráhvörfin
ganga yfir. Nikótíntyggjó gæti hjálpað. Námskeið eða hópefli með öðrum í sömu sporum
gæti verið sú aðstoð sem gerði gæfumuninn.
Nokkurra mínútna hugleiðsla til að binda enda á hverja máltíð gæti skipt
máli. Ef við viljum hætta í sælgætinu og
skyndibitanum, gæti hjálpað að venja sig á aðra gönguleið heim úr vinnu eða
skóla, leið sem liggur ekki framhjá sjoppu eða skyndibitastað. Það gæti líka hjálpað að hafa skál með
hnetum, möndlum, rúsínum og þurrkuðum ávöxtum á borðinu, til að grípa til þegar
sælgætislöngunin kallar.
Áramótin geta verið okkur hvatning til að
taka ákvörðun. Til að ákvörðunin verði
árangursrík er gott að hafa velt fyrir sér rökum með og á móti breytingu, hafa
fundið leiðir framhjá hindrununum og réttu hjálpartækin.
No comments:
Post a Comment