Wednesday, May 30, 2012

Sálarfræði næringar


Næringarfræðin þykir mér skemmtilegust þegar hún skarast við sálarfræðina, þegar hún snýst um tilfinningarnar sem við tengjum mat og fæðunámi.  Eitt af þeim hugtökum sem notuð eru í sálarfræði næringar er “deprivation”.  Bein þýðing á íslensku er skortur, en sjálfshöfnun eða sjálfsafneitun finnst mér ná því betur.  Það er notað um þá tilfinningu sem getur heltekið okkur, ef við neitum okkur ítrekað um eitthvað sem okkur langar í, eða sem við þörfnumst.  Hún getur birst sem pirringur og jafnvel andúð gagnvart þeim, sem geta leyft sér hvað sem er.  Hún getur líka haft í för með sér þráhyggjukenndar hugsanir um það sem við neitum okkur um. 

Það er erfitt að halda sig við stíft matarplan til lengdar vegna sjálfshöfnunarinnar sem það krefst.  Það er því ekki skrítið að við gefumst upp á endanum og veitum okkur það sem við áður neituðum okkur um.  Því erfiðara sem okkur reynist að halda sjálfsafneitunina út, því hættara er við stjórnleysi þegar við gefumst upp.  Þess forboðna er þá neytt í yfirmagni.  Það er ávísun á sektarkennd og skömm, sem aftur getur leitt til þess við heitum því að láta aldrei framar freistast.  Þetta getur auðveldlega orðið vítahringur og valdið sveiflum og óreglu í mataræði, andlegri vanlíðan og lágu sjálfsmati. 

Við getum komið í veg fyrir tilfinningu skorts og sjálfshöfnunar með því að samþykkja tilfinningar okkar, langanir og þrár, og sleppa ströngum reglum um hvað má borða og hvað ekki.  Þá minnka sveiflurnar, öldurnar lægir, og við uppgötvum að við þurfum ekki að borða yfir okkur.  Það nægir að fá sér smávegis um leið og löngun vaknar.  Þá dofnar löngunin í stað þess að skortstilfinningin vakni með tilheyrandi þráhyggju.  Mataræði okkar getur verið hollt og næringarríkt þó við leyfum okkur að smakka nokkrar sortir í saumaklúbbnum og þiggja eftirréttinn í matarboðinu hjá tengdó.

Nú er einstaklingsbundið hversu mikinn sjálfsaga við höfum.  Ég er ein þeirra sem hef endalausan sjálfsaga.  Fyrst þegar ég las um “deprivation” fannst mér það bara eiga við um einhverja aðra en mig.  Ég átti nefnilega mitt öfgaskeið í heilsurækt fyrir nokkuð mörgum árum síðan.  Og ég hélt það út að borða engar mjólkurvörur, engan sykur á neinu formi, og nánast ekkert hvítt hveiti í heil þrjú ár, án þess að upplifa nokkurn tíma stjórnleysi, hvað þá þráhyggju.  Ég hugsaði nánast aldrei um matinn sem ég neitaði mér um.  Ég get einmitt staðfest að sykurlöngunin hvarf, bragð- og lyktarskyn breyttist og matarsmekkurinn einnig.  Hnetur, möndlur og ávextir urðu sælgæti í mínum augum, vatn varð raunverulega besti svaladrykkurinn.  Þefurinn í kringum sjoppur og skyndibitastaði varð að fullkomnum ódaun í nefi mínu.  

Þegar ég tók meðvitaða ákvörðun um að rjúfa heit mitt, og fara aftur að borða “allt”, þá var það alls ekki eins og ég “félli” í pytt óhófs og ofáts.  Nei, þvert á móti, ég hef getað borðað sætar mjólkurvörur, kökur og hvítt brauð í hófi allar götur síðan.

En af hverju byrjaði ég aftur að borða „allt“?  Hefði ekki verið betra, og heilsusamlegra, að sleppa því það sem eftir væri ævinnar?  Það var þegar ég fór að skoða þetta ofan í kjölinn, sem ég sá, að ég hafði vissulega verið haldin skortstilfinningu og sjálfshöfnun öll þau þrjú ár, sem ég taldi mig borða “hreinan” mat.

Í fyrsta lagi snerust draumar mínir um fátt annað en að troða mig út af kökum og sælgæti.  Ég tók því nú létt, hló bara að þessu á morgnana, og hélt ánægð út í daginn.  Það væri ágætt að ég fengi útrás fyrir sykurlöngun í svefni, og væri svo laus við hana í vöku.

Í öðru lagi hvörfluðu augu mín aftur og aftur að kökunni eða ísnum, sem hinir voru að borða, þó ég væri hæstánægð með ávaxtasalatið á diskinum mínum.  Skrítið að finnast ég ekki hafa stjórn á augnaráði mínu, þó ég væri algjörlega sannfærð um að mér myndi finnast ávaxtasalatið betra á bragðið en hvort sem er kaka eða ís.

Þriðja ástæðan er sú mikilvægasta.  Það rændi mig smám saman ákveðinni lífsgleði að neita mér um það sem aðrir í kringum mig leyfðu sér.  Í saumaklúbbi eftir saumaklúbb gat ég bara stungið upp í mig nokkrum gulrótarstráum, á meðan vinkonurnar smökkuðu og hrósuðu heita réttinum og kökunum, báru saman bækur sínar og skiptust á uppskriftum.  Ég gat ekki einu sinni tekið þátt í samræðunum. 

Þetta varð smám saman óbærilega leiðinlegt.  Við erum félagsverur, hvort sem við erum innhverf eða úthverf.  Og eitt það mikilvægasta sem við gerum félagslega, er að deila mat með öðrum, þiggja mat af öðrum, hrósa mat sem aðrir veita okkur, þakka fyrir góða máltíð og deila uppskriftum.

Ég er vissulega ein af þeim heppnu, sem getur haldið stífar matarreglur í heiðri, án teljandi vandræða.  En er það þess virði?  Það var alla vega mín niðurstaða að svo væri ekki.

No comments:

Post a Comment