Monday, April 30, 2012

Meira um lystardagbók


Sé mataræði okkar litað af stjórnleysi, getur verið gagnlegt að halda svokallaða lystardagbók.  Í slíka dagbók skráum við svengd og seddu á skalanum frá 1-10 fyrir máltíð, í lok máltíðar og/eða 20 mínútum eftir að máltíð lýkur, þegar sedduáhrifin eru að fullu komin fram.  Meðvitund okkar og næmni fyrir eigin líðan eykst hröðum skrefum fyrstu dagana sem við skráum hjá okkur svengd og seddu. Við getum einsett okkur að setjast að snæðingi þegar við erum hæfilega svöng, og standa upp frá borðum þegar við erum hæfilega södd, eða þegar reynslan sýnir okkur að líðanin verður góð 20 mínútum eftir máltíð.  Eftir 2-4 vikna skráningu gerist það af sjálfu sér að við leitum inn á við þegar sest er að snæðingi, staðið upp frá borðum, og nokkru seinna þegar sedduáhrif eru í hámarki.  Þá getum við hætt daglegri skráningu, en haft dagbókina tiltæka nokkra daga enn, og gripið til hennar ef við förum út af sporinu.  Það getur líka verið gott að setjast niður að kvöldi, rifja upp máltíðir dagsins, og skrá líðanina eftir á.

Stjórnleysið getur birst í því hvað við látum ofan í okkur, ekki síður en í magninu.  Þess vegna fyllumst við stundum af eftirsjá eftir máltíð, þó við höfum alls ekki borðað yfir okkur.  Ástæðan getur verið samviskubit af því við vitum að maturinn sem við borðuðum var óhollur.  Hún getur líka verið líkamleg vanlíðan, eða orkuleysi klukkutíma eftir máltíð.  Oft fara huglægt samviskubit og líkamleg vanlíðan saman.

Í lystardagbók er hægt að skrá ýmislegt annað en bara svengd og seddu.  Í lok máltíðar og/eða klukkutíma eftir máltíð er hægt að leita inn á við og íhuga hvort matartegundir þær sem við innbyrtum voru þess virði að borða þær eða ekki. Við getum skráð líðan okkar í lystardagbókina með einu orði, eða stuttri setningu, og plús eða mínus eftir því hvort maturinn sem við borðuðum var þess virði eða ekki.  Þessi eftirágreining hefur væntanlega margoft flogið um huga okkar, en með skráningunni munum við betur hvaða matartegundir voru þess virði, og hverjar ekki.  Markmiðið er náttúrulega að íhuga við upphaf máltíðar, hvaða matur muni verða þess virði að borða hann, og taka ákvörðun um matarval út frá því. 

Við skulum ekki gleyma að skrá góða líðan og gefa okkur plús í kladdann.  Það verkar eins og hrós eða viðurkenning sem við veitum sjálfum okkur.  Og munum líka að dæma okkur ekki, þó við freistumst af einhverju sem reynist ekki þess virði.  Lystardagbókin á ekki að vera syndaregistur, sem við notum til að skamma okkur.  Rétt eins og jógaheimspekin og búddaheimspekin boða, er mun vænlegra að leita inn á við, fylgjast með tilfinningum okkar, hugsunum, og gjörðum, án þess að dæma þær.  Skoða þær bara, og íhuga hvort það er eitthvað sem við viljum breyta, eða gera öðruvísi næst.  Við gerum okkar besta; við erum alltaf að gera okkar besta, miðað við okkar aðstæður þann daginn.  Og það er nóg.

Nú getur verið við finnum fyrir togstreitu munns og maga, því matur getur verið góður á bragðið, þó hann fari illa í magann, og veki með okkur samviskubit.  En við getum einsett okkur að minnka magnið af þeim matartegundum, sem eru í rauninni ekki þess virði að borða; eða fækka þeim skiptum sem þær rata á diskinn okkar.  Á móti fjölgar þeim skiptum sem við veljum mat sem gerir okkur gott; hollur matur fær meira pláss í mataræðinu. 

No comments:

Post a Comment