Friday, January 30, 2015

Offita, er hún sjúkdómur eða ekki?



Ég hef undanfarin ár haldið fyrirlestra um Heilsu óháð holdafari. Fyrirlesturinn hef ég að mestu unnið upp úr bók næringar- og sálfræðingsins Lindu Bacon Health at every size. Við Linda hvetjum lesendur / áheyrendur okkar til að hugsa um heilsu og líðan frekar en kaloríur og kíló. Fögnum fjölbreytni í líkamsvexti. Það eru mannréttindi að fá að vera í þeirri stærð sem maður er.

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir líkama okkar. Njótum lífsins, drífum okkur í sund og sólbað, hlaupum og dönsum af hjartans lyst. Borðum oftast hollan mat, en leyfum okkur stöku sinnum að borða það sem okkur langar í. Og þá skulum við njóta þess án samviskubits.

“Offita er ekki sjúkdómur”

Linda Bacon vill ekki líta á offitu sem sjúkdóm. Óheilbrigður lífsstíll á borð við kyrrsetu og ofneyslu á óhollum mat geti aftur á móti valdið sjúkdómum. Þess vegna sé um að gera að hreyfa sig og borða hollan mat, auk þess að fá þá hvíld og slökun sem við þurfum. Feitir lifi ekki allir óheilbrigðu lífi og því síður lifi allir mjóir heilbrigðu lífi. Fólk af öllum stærðum geti bætt heilsu sína og líðan með því að taka upp heilbrigðan lífsstíl, án þess endilega að grennast. Með bættum lífsstíl megi greina lækkun í blóðþrýstingi, minni mæði, betri blóðsykursstjórnun og fleira. Þetta gerist meira að segja hjá verulega feitu fólki án þess það hafi misst nema örfá kíló.

“Offita er sjúkdómur”

Kanadíski læknirinn Arya M Sharma hélt fyrirlestur fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Læknadögum. Hann er ósammála Lindu Bacon um eitt grundvallaratriði en um annað eru þau býsna sammála.

Offita er sjúkdómur, segir dr. Sharma. Hún er alvarlegur langvinnur sjúkdómur sem þróast og versnar ef ekkert er að gert. Fólk sem byrjar að fitna og tekur ekki á vandanum heldur áfram að fitna. Smám saman þróar það með sér fylgikvilla sem versna með tímanum.

Fitusöfnun á kvið getur valdið insúlínviðnámi. Mikill líkamsþungi reynir á liðamót í mjöðmum, hnjám og ökklum. Hreyfing verður erfiðari og beingigt getur þróast með aldrinum. Með ofáti og fitusöfnun á kvið og brjóstkassa er hætt við vélindabakflæði og kæfisvefni. Háþrýstingur, sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdómar geta fylgt í kjölfarið.

Það er erfitt að grenna sig

Ekki telja sjúklingum sem til ykkar leita trú um að það sé auðvelt að grenna sig og halda sér grönnum, sagði dr. Sharma. Það er ekki auðvelt, heldur þvert á móti verulega erfitt. Það er undantekning ef það tekst.

Ástæðan er sú að þegar líkaminn er kominn upp í einhverja þyngd, þá vill hann halda sér í þeirri þyngd og berst á hæl og hnakka gegn öllum okkar tilraunum til að breyta því (sjá pistil minn um þetta efni hér).

Það er hægt að hægja á þróun offitusjúkdómsins, jafnvel stöðva hana, og í sumum tilvikum er hægt að snúa henni við upp að vissu marki en það kostar ævilanga meðferð. Offitusjúklingar þurfa að vera einbeittir og á tánum alla ævi til að halda í við þróun sjúkdómsins og fylgikvilla hans.

Óraunhæfar væntingar

Meðferðin felst í því að taka lyf við fylgikvillunum (sykursýkislyf, blóðþrýstingslyf, hjartalyf, bakflæðislyf, gigtarlyf) ásamt lífsstílsbreytingu. En – segir dr. Sharma – það er óraunhæft að heilbrigður lífsstíll með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu muni skila meira en 5-10% tapi líkamsþyngdar þegar til lengri tíma er litið. Sá sem er 100 kg getur búist við að verða 90-95 kg ef hann tekur upp heilbrigðan lífsstíl og heldur sig við hann hvern einasta dag upp frá því. Sú sem er 110 kg getur búist við að verða 99-105 kg. Auðvitað eru til undantekningar, fólk sem nær af sér tugum kílóa. Flestir fitna þeir aftur, ekki þó allir. En fyrir langflesta er óraunhæft að ætla sér að missa meira en 5-10% líkamsþyngdar.

Arya M Sharma er sammála Lindu Bacon um að heilbrigður lífsstíll skili raunverulegum og mælanlegum heilsufarsávinningi þó líkamsþyngdin breytist ekki að ráði. Blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, þrek og þol séu þeir mælikvarðar sem gefa árangur offitumeðferðar til kynna en ekki líkamsþyngd og mittismál.

Andlegt niðurbrot

Það sem brýtur offitusjúklinga niður andlega eru útlitskröfur samfélagsins, væntingar þeirra sjálfra, aðstandenda þeirra og meðferðaraðila um þyngdartap upp á tugi kílóa, og skilaboðin um að þetta sé ekkert mál, þetta sé auðvelt og byggi bara á viljastyrk. Ekkert er fjær sanni, segir dr. Sharma.

Sátt

Hvort sem við erum sammála Bacon eða Sharma; hvort sem við lítum á offitu sem sjúkdóm eða ekki er ljóst að fylgikvillarnir eru alvarlegir. Þeir fyrirfinnast hjá fólki af öllum stærðum en eru mun algengari meðal þeirra sem eru feitir.

Sáttin skiptir miklu máli fyrir þá sem vilja breyta lífi sínu. Að sættast við sjálfan sig með öllum sínum veikleikum og sættast við fortíðina. Margir þurfa að syrgja það hvernig þeir hafa komið fram við líkama sinn hingað til. Þegar sáttinni er náð vaknar löngun til að lifa heilbrigðu lífi, löngun til að koma fram við sjálfan sig af virðingu og umhyggju. Því það er aldrei of seint að taka upp heilbrigðan lífsstíl, óháð holdafari.

No comments:

Post a Comment