Mörg erum við óánægð með mataræði okkar og
viljum breyta því, höfum jafnvel margreynt að breyta því. Það er einkum tvennt sem óánægja okkar
beinist að. Annars vegar hættir okkur
til að borða of mikið, og hins vegar að freistast af mat sem við vitum að gerir
okkur ekki gott.
Ef við höfum leitað með þetta vandamál til
sérfræðings, höfum við gjarnan verið beðin að halda matardagbók. Við skráum þá
niður allt sem við borðum, matartegund og magn, auk máltíðaskipanar. Í þessu felst sjálfkrafa aðhald, nema við
séum þeim mun kærulausari við skráninguna.
Mörg okkar breyta mataræðinu ósjálfrátt til að dagbókin líti betur
út. Við verðum meðvitaðri um mataræði okkar,
hvað við borðum, hversu mikið og hversu reglulegar máltíðirnar eru. Mataræðið fer að taka meira mið af því sem við
teljum vera betra eða æskilegra.
Nú heldur enginn matardagbók út í hið
óendanlega. Það kemur að því að við sleppum
þessari hækju, en viljum að sjálfsögðu halda í breytinguna sem skráningin olli. En oftar en ekki rennur sú fróma áætlun út í
sandinn. Vikurnar sem við héldum
matardagbókina verða eins konar megrunarkúr eða strangur mataræðiskúr, átak sem
tekur enda, og allt fer í sama farið.
Ég mæli frekar með lystardagbók fyrir þá
sem vilja ná tökum á mataræðinu. Munurinn á matardagbók og lystardagbók er það
hvað við skráum niður, og hvaðan aðhaldið kemur.
Í lystardagbókina skráum við svengd og
seddu við upphaf og lok hverrar máltíðar.
Við getum notað skalann frá 1-10 sem mælistiku, þar sem 1 er glorhungruð,
og 10 er kútsödd. Athyglinni beinum við
innávið, hlustum á líkamann, lærum að þekkja merkin sem líkaminn gefur. Eftir
örfárra daga skráningu förum við að taka eftir ýmsu sem við áður litum framhjá,
t.d. líkamleg óþægindi vegna ofáts í lok flestra máltíða. Og sum förum við að sjá ákveðið munstur,
hvernig þessi líkamlegu óþægindi, auk samviskubits, valda því að við sleppum
næstu máltíð, eða látum líða lengri tíma milli máltíða. Þá er hætt við að við verðum allt of svöng
þegar við loksins fáum okkur að borða, og aftur borðum við yfir okkur. Þetta verður vítahringur. Að sleppa úr máltíð, eða draga það að fá sér
að borða, veldur ofáti og/eða stjórnleysi í næstu máltíð á eftir. Við borðum þá það sem hendi er næst, það sem
er einfalt og fljótlegt að fá sér, í stað þess að velja og útbúa hollan mat, og
við getum ekki hamið okkur fyrr en við erum búin að borða allt of mikið.
Lystardagbókin minnir okkur á að hlusta á
líkamann, og þannig veitir hún okkur innra aðhald, aðhald sem kemur innan frá,
frá okkar eigin líkama. Eftir nokkurra
vikna skráningu finnum við að það er betra að fá sér að borða þegar við erum
hæfilega svöng, og betra að hætta þegar við erum hæfilega södd. Í upphafi borðum við kannski þrjár máltíðir á
dag og förum frá 2 upp í 9 við hverja máltíð, eða frá 3 upp í 8. Smám saman finnum við að það er betra að
borða 5 máltíðir á dag, og fara frá 4 upp í 7 við hverja máltíð. Þá líður okkur betur í maganum, fáum síður
vélindabakflæði og brjóstsviða, og það sem meira er, við höfum betri stjórn á
því hvað við veljum okkur til að borða, getum frekar hugsað okkur að búa til
mat frá grunni, nennum að skera í salat o.s.frv.
Það heldur enginn lystardagbók út í hið
óendanlega, fremur en matardagbók. En
þar sem aðhaldið kom innan frá, fremur en utanfrá, þá er auðveldara að halda
sig við árangur lystardagbókar, en matardagbókar. Sleppum hækjunni í skrefum og
minnum okkur á að hlusta á svengd og seddu fyrir máltíð og á meðan á máltíð
stendur. Smám saman kemst það upp í vana
að leita innávið.
Í þessum bloggpistli var umræðuefnið svengd
og sedda, hvernig lystardagbókin getur hjálpað okkur að stilla matarskömmtunum
í hóf, en í næsta bloggpistli mun ég ræða hvernig lystardagbókin getur hjálpað
okkur að velja hollari mat.
No comments:
Post a Comment