Hugurinn getur þjónað okkur vel í starfi og
leik, en hann getur líka stjórnað tilfinningum okkar og líðan, svo við fáum
ekkert við ráðið. Þannig náum við flest mikilli einbeitingu við lestur,
reikning og aðra hugarleikfimi. Við getum dregið vel ígrundaðar ályktanir og
leyst flókin verkefni í huganum. En þegar við viljum fá frí frá hugsunum sem á
okkur sækja, getur reynst óhemju erfitt að ýta þeim burt.
Sem betur fer eru margar leiðir til að
temja og róa hugann, sem geta bætt líðanina og veitt okkur öryggiskennd. Hugræn
atferlismeðferð temur hugann. Hún
kennir okkur að véfengja óhjálplegar hugsanir og svara þeim, hugsa raunhæft og í
lausnum. Hugleiðsla er aftur á móti leið til að róa hugann.
Til eru margar tegundir hugleiðslu. Sumar
byggja á því að nota möntru (orð eða stutta setningu), sem er endurtekin í
sífellu. Aðrar byggja á að nota viljastyrkinn til að tæma hugann. Til að ná því
markmiði að tæma hugann einbeitum við okkur að andardrættinum, eða að punktinum
milli augabrúnanna eða á hvirflinum. Sumar aðferðir gera ráð fyrir að
hugleiðandinn sitji í klukkutíma með krosslagða fætur, en flestar leyfa að setið
sé á stól við iðkunina, eða jafnvel legið á gólfi. Aðalatriðið er að koma sér
fyrir í þægilegri stellingu, án þess að sofna.
Hugleiðsla á að skapa ró, innri frið og
sátt. Sú ró á að endast lengur en þann hálftíma eða klukkutíma sem hugleiðslan
tekur. Mælt er með því að hugleiða á morgnana. Með því móti byrjum við daginn
afslöppuð, í meira jafnvægi. Sú ró sem við náum í hugleiðslunni á að fylgja
okkur það sem eftir lifir dags. Þannig verður auðveldara að taka því sem að
höndum ber og áreiti daglegs lífs kemur okkur síður úr jafnvægi.
Flestir Vesturlandabúar eru í mikilli þörf
fyrir hugarró. Hugleiðsla er bráðsniðug aðferð til þess. Hægt er að fara á
hugleiðslunámskeið, eða kaupa hugleiðsludisk, til að koma sér af stað í
iðkuninni. Margir nota hugleiðslu með góðum árangri. En svo eru ýmsir aðrir sem
reyna að tileinka sér hugleiðslu, en tekst það ekki.
Fyrstu tilraunir mínar til að hugleiða fóru
strax út um þúfur. Ég réð ekkert við hugann, þetta var bara vonlaust. Ég tók
nokkurra ára hlé, en reyndi svo aftur, aðra aðferð. Þá gekk mér örlítið betur,
en ég gafst samt fljótt upp. Nokkur ár liðu, og enn reyndi ég nýja aðferð. Í
þetta sinn gekk það þó nokkuð betur. Mér tókst með átaki að tæma hugann í
nokkrar mínútur í senn. Ég hélt að með daglegri iðkun yrði smám saman
auðveldara að tæma hugann, en í staðinn varð það sífellt erfiðara. Og aldrei
náði ég þessari ró sem á að fylgja manni inn í daginn. Um leið og ég rauf
hugleiðsluna sóttu hugsanirnar, sem ég hafði bægt frá mér, á mig tvíefldar. Ég
hafði enga stjórn á þeim. Eins og ég er skipulögð og hef mikinn sjálfsaga, þá
dugði það ekki til. Þegar ég kvartaði við hugleiðslukennarann, sagði hann afar
hreinskilinn: Nú, þá virkar þetta ekkert fyrir þig.
Ég var við það að gefast upp þegar ég
kynntist enn einni hugleiðsluaðferðinni. Hún heitir gjörhygli, og er einnig kölluð árvekni eða núvitund. Allt eru þetta
tilraunir til að þýða orðið mindfulness.
Ég fann strax að þessi aðferð hentaði mér
betur en aðrar hugleiðsluaðferðir sem ég hafði prófað. Mig grunar að það sama gildi
um marga Vesturlandabúa í dag. Við búum við svo mikið áreiti frá fjölmiðlum og
netinu. Auglýsingar, fréttir og afþreying dynja á okkur allan daginn. Við búum langflest
í borgarsamfélagi, þar sem við hittum margt fólk á hverjum degi. Það er alltaf
hægt að ná í okkur í síma og gemsa, í tölvupósti, á fésbók og twitter. Við
verðum fyrir stöðugri truflun. Á okkur eru gerðar kröfur um menntun,
endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, ábyrgð, metnað og metorðastigaklifur,
fyrir utan kröfurnar á heimilinu og í félagslífinu. Það er ekki auðvelt að
kúpla sig frá þessu öllu og öðlast hugarró, en það er mjög nauðsynlegt.
Gjörhygli byggir ekki á sjálfsaga, eins og
aðrar hugleiðsluaðferðir sem ég hef lært. Hún byggir heldur ekki á
sjálfsafneitun. Hún byggir á því að leita inn á við og samþykkja það sem við
finnum, skoða það og sleppa því svo lausu. Við iðkun gjörhygli getum við valið
að hlusta á umhverfishljóðin, eða á okkar eigin andardrátt. Við getum beint
athyglinni að líkamanum og einstökum hlutum hans, eða skynjað tilfinningar
okkar og samþykkt þær eins og þær eru í augnablikinu.
Hugsanir munu skjóta upp kollinum af og
til, hvort sem við erum með athyglina á umhverfinu, andardrættinum, líkamanum
eða tilfinningunum. Það er eðli hugans að dansa fram og til baka, frá minningum
til áætlana, frá fortíð til framtíðar. Gjörhygli byggir á að samþykkja óróleika
hugans, skoða hugsanirnar án þess að fella um þær dóm, og sleppa svo takinu á
þeim. Færa athyglina enn á ný að andardrættinum, líkamanum, umhverfishljóðunum
eða tilfinningunum sem bærast innra með okkur. Þetta gerum við aftur og aftur,
í hvert sinn sem hugsanir koma til okkar. Við verðum hlutlausir áhorfendur
hugsananna, rétt eins og við séum á leiksýningu, og hugsanirnar birtist á sviði
fyrir framan okkur.
Hugsanir hafa tilhneigingu til að vinda upp
á sig, mynda hugsanakeðjur sem enda allt annars staðar en þær byrjuðu. Í
staðinn fyrir að finnast hugurinn hafa brugðist, þegar hann sendir myndir, orð,
eða stutta keðju hugsana, fram á sviðið, þá óskum við okkur til hamingju með að
vera svona mannleg. Skoðum hugsanirnar og sleppum þeim. Í hvert sinn sem við
sleppum hugsun frá okkur og færum athyglina blíðlega að núinu, að andartakinu, þá
rofnar hugsanakeðjan. Eftir nokkrar sekúndur eða örfáar mínútur skoppar ný hugsun
fram á sviðið. Þá er bara að skoða og sleppa nýju hugsuninni. Skoða og sleppa,
aftur og aftur.
Það er gott að stunda gjörhygli í hálftíma
eða klukkutíma á morgnana, eða hvenær sem maður hefur tíma til þess yfir
daginn. En við getum líka stillt okkur inn á núið í örstutta stund hvenær sem
er. Leiðum athyglina að andardrættinum, líkamanum, umhverfishljóðunum eða tilfinningunum,
í örstutta stund. Ef við höfum nokkrar mínútur er það enn betra. Tökum eftir
hugsunum sem skjóta upp kollinum, tilfinningum sem láta á sér kræla. Skoðum og
sleppum, án þess að dæma. Þetta getum við gert á meðan við ökum bílnum, bíðum í
biðröð, eldum matinn og borðum. Þetta er einfalt að gera þar sem við erum stödd
úti í gönguferð, á hlaupahjólinu í ræktinni, jafnvel við tölvuna á miðjum
vinnudegi. Þetta þarf ekki að taka tíma, en getur fært okkur þá ró sem við
leitum að. Ró sem fylgir okkur allan daginn.
No comments:
Post a Comment