Wednesday, July 31, 2013

Iðraólga eftir neyslu gerjanlegra sykra




Ég skrifaði á síðasta ári pistil um frúktósavanfrásog. Titill pistilsins var bein þýðing á enska orðinu fructose malabsorption, sem er það þegar aðeins lítill hluti ávaxtasykurs kemst úr meltingarvegi í blóð. Síðan þá hef ég komist að því að mörgum finnst íslenska orðið bæði óþjált og óskiljanlegt. Það nær heldur ekki yfir nema hluta af vandamálinu. Í rauninni er um að ræða viðkvæmni fyrir ýmsum gerjanlegum sykrum, en ekki eingöngu frúktósa.

Meltingartruflanir

Ef líkaminn á erfitt með að melta gerjanlegar sykrur eða frásoga (flytja úr þörmum í blóð), verða þær að fæði fyrir gerlaflóruna í ristlinum. Við gerjunina myndast gas, sem getur valdið uppþembu og vindgangi. Meltingartruflanirnar geta líka lýst sér með ristilkrömpum, hægðatregðu eða niðurgangi.

FODMAP

Gerjanlegar sykrur eru frúktósi, frúktan, raffinósi, polyol og laktósi. Þessi efni eru einu nafni nefnd FODMAP (Fermentable Oligo-, Di-, Monosaccharides And Polyols).

Frúktósi er ávaxtasykur. Hann er í öllum ávöxtum, hvítum sykri, hunangi, HFCS (kornsírópi) og agavesírópi.

Frúktan eru stuttar keðjur frúktósaeininga. Þær eru í hveiti, rúgi, lauk, kúrbít, ætiþistli (artichoke) og í aukefnunum frúktóólígósakkaríði (FOS) og inúlíni.

Raffinósi er í flestum baunum, hvítkáli, rósakáli og spergli (aspas).

Polyol eru í eplum, perum, öllum ávöxtum með steini og í sætuefnunum sorbitól, xylitól og isomalt.

Laktósi er í öllum mjólkurvörum öðrum en smjöri og gerjuðum ostum, og er sama hvort þær eru úr kúamjólk eða geitamjólk.

Frúktan og glúten

Frúktan og glúten eru í sömu korntegundunum. Glútenlaus brauð, kökur, kex og pasta henta þess vegna vel fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir gerjanlegum sykrum.

Glútenofnæmi (glútenóþol) er þegar jafnvel örlítið magn glútens veldur því að líkaminn ræðst á þarmatoturnar og eyðileggur þær. Það er hægt að mæla glútenofnæmi með blóðprufu og speglun á skeifugörn. Aftur á móti er ekki komin nein rútínumæling á viðkvæmni fyrir gerjanlegum sykrum. Blóðprufa og þarmatotur eru eðlilegar við skoðun.

Frúktósi og glúkósi

Flestir þeir sem viðkvæmir eru fyrir gerjanlegum sykrum þola þær í litlu magni. Það er því óþarfi fyrir þá að fylgja ströngu glútenlausu fæði. Þeir þola líka frúktósann betur ef glúkósi (þrúgusykur) er til staðar. Glúkósinn hjálpar frúktósanum að frásogast úr þörmum í blóð. Þess vegna veldur hvítur sykur síður vanda en HFCS og agave, þar sem hvítur sykur inniheldur glúkósa og frúktósa í jöfnum hlutföllum, en HFCS og agave innihalda frúktósa í yfirmagni. Sömuleiðis valda banani, appelsínur, sítrónur, rabarbari, bláber og cantaloupe melónur síður vanda en epli, perur og vatnsmelóna, þar sem fyrrnefndu ávextirnir hafa glúkósa í yfirmagni, en þeir síðarnefndu yfirmagn af frúktósa.

Mjólkursykur

Mjólkursykur inniheldur glúkósa og galaktósa í jöfnum hlutföllum. Mjólkursykursóþol er hægt að mæla með mjólkursykursþolprófi. Þá eru teknar nokkrar blóðprufur í röð eftir neyslu mjólkursykurs á vökvaformi. Þeir sem hafa mjólkursykursóþol skortir ensím til að kljúfa glúkósann frá galaktósanum. Sumir eru með mjólkursykursóþol en geta borðað aðrar gerjanlegar sykrur án verulegra vandkvæða. Hjá öðrum er það öfugt. Þeir geta neytt mjólkurvara en þola aðrar gerjanlegar sykrur illa. Fyrir þá getur verið kostur að borða t.d. epli og perur með rjóma. Glúkósinn úr mjólkursykrinum hjálpar frúktósanum að frásogast. Sumir eru viðkvæmir fyrir öllum gerjanlegum sykrum, hvort sem þær koma úr mjólk, ávöxtum, hveiti, baunum eða lauk.

Iðraólga

Margir sem hafa fengið þann dóm að vera með iðraólgu (irritable bowel syndrome, IBS), og hefur verið sagt að ekkert sé við henni að gera, fá bata ef þeir sneiða hjá gerjanlegum sykrum í fæði sínu.

Nákvæmari lista yfir fæðutegundir sem ætti að forðast, og hvað hægt er að borða í staðinn, er hægt að nálgast hjá mér í Heilræði.

Friday, June 28, 2013

Fæðubótarárátta



Átraskanir eins og anorexia og bulimia eru alvarlegar geðraskanir sem geta verið lífshættulegar. Sumir taka anorexiu og bulimiu tímabil til skiptis. Sá sem þjáist af slíkri bulimarexiu tekur löng eða stutt sveltitímabil, en borðar þess á milli mikið magn sem hann kastar upp eða losar sig við með öðrum hætti. Þeir sem þjást af átröskunum upplifa sterkan ótta við að fitna og löngun til að grennast.
Réttfæðisárátta (orthorexia) er ekki viðurkennd geðröskun, en henni hefur verið lýst, m.a. á wikipediu. Sá sem þjáist af réttfæðisáráttu setur sér strangar reglur um hvað má borða og hvað ekki, og líður fyrir það félagslega og jafnvel heilsufarslega. Ótti þeirra sem þjást af réttfæðisáráttu er við óhollan eða mengaðan mat.

Ótti við sjúkdóma

Fæðubótaráráttu hef ég hvergi séð lýst, en mig langar að gera tilraun til að lýsa henni hér. Hún minnir nokkuð á heilsukvíða. Sá sem þjáist af heilsukvíða verður hræddur eða jafnvel sannfærður um að vera með alvarlegan líkamlegan sjúkdóm. Hann fer oft til læknis og biður um rannsóknir til að hrekja eða staðfesta gruninn. Þegar enginn sjúkdómur finnst minnkar kvíðinn tímabundið. Til að losna endanlega við heilsukvíða þarf faglega aðstoð frá sálfræðingi eða öðrum fagaðila.

Ótti við framtíðina

Sá sem þjáist af fæðubótaráráttu er ekki endilega hræddur um að vera með sjúkdóm, heldur óttast hann að sjúkdóm, og telur fæðubótarefni vera bestu leiðina til að tryggja sér góða heilsu í framtíðinni.
Sum fæðubótarefni geta vissulega tryggt okkur betri heilsu. Mælt er með því að Íslendingar og aðrir sem búa norðarlega á jörðinni taki lýsi eða annan D-vítamíngjafa, a.m.k. yfir veturinn. Ef járnskortur mælist í blóði okkar, er okkur ráðlagt að taka járn. Konur sem hyggja á barneignir ættu að gæta að því að fá nóg fólasín (fólat), annað hvort úr fæðu eða sem fæðubót. Fólk með mjólkuróþol þarf oft að taka kalsíum, og þeir sem ekki borða fisk eða taka lýsi ættu að taka ómega-3. Sumir taka fjölvítamín með steinefnum daglega, þó ég mæli frekar með fjölbreyttri og næringarríkri fæðu. Fæðubótarefni geta verið nauðsynleg fyrir suma, tímabundið eða jafnvel alla ævina.

Ótti við skort

Þeir sem þjást af fæðubótaráráttu eiga aftur á móti í erfiðleikum með að ganga framhjá heilsubúð eða lyfjaverslun, án þess að fara og skoða hillurnar með fæðubótarefnunum. Og yfirleitt koma þeir klyfjaðir út, eða a.m.k. búnir að kaupa sér eitt glas af nýjasta fæðubótarefninu á markaðnum. Auglýsingar, fréttir og viðtöl sem fjalla um fæðubótarefni vekja fyrst áhuga hjá þeim, en fljótlega breytist áhuginn í ótta um að skorta viðkomandi efni. Þeir finna fyrir óviðráðanlegri þörf til að kaupa efnið og taka inn.

Að taka óvart of mikið

Þetta byrjar á einu eða örfáum glösum, en þeim fer hratt fjölgandi. Fyrr en varir eru glösin orðin 20-30 talsins með mismunandi pillum, hylkjum, dufti, vökva eða úða, sem þeir telja sig þurfa að taka daglega eða jafnvel tvisvar, þrisvar á dag. Fæðubótarárátta er rándýr og tímafrek. Auk þess fylgja mörgum fæðubótarefnum vægar aukaverkanir eins og ógleði og meltingartruflanir. Það sem er þó miklu verra er að sama efnið getur verið í fleiri en einni tegund fæðubótarefna. Þess vegna er algengt að sá sem þjáist af fæðubótaráráttu taki allt of mikið magn, af einu eða fleiri efnum, án þess að ætla sér það. Það getur haft alvarlegar og jafnvel lífshættulegar aukaverkanir í för með sér.

Að geta ekki hætt

Hjá sumum byrjar fæðubótaráráttan þegar þeir finna fyrir einhverjum kvilla eða óþægindum. Þeir ákveða þá að reyna að lækna kvillann sjálfir með inntöku fæðubótarefnis. Flestir myndu hætta að taka fæðubótarefni sem þeir finna að virkar ekki gegn kvillanum, en sá sem þjáist af fæðubótaráráttu þorir seint eða alls ekki að hætta að taka efnið. Hann óttast að einkennin versni ef hann hættir, eða að hann muni skorta efnið og í kjölfarið auka líkurnar á alvarlegum sjúkdómi. Í staðinn kaupir hann annað efni í viðbót og tekur það líka, og svona koll af kolli.

Fagleg aðstoð

Sá sem þjáist af fæðubótaráráttu þarf faglega aðstoð næringarfræðings sem fer yfir mataræðið og metur hvort það sé raunveruleg þörf á inntöku einhverra fæðubótarefna. Einnig myndi næringarfræðingur meta hvort bæta megi mataræðið og sleppa fæðubótarefnum í staðinn. Flestir sem þjást af fæðubótaráráttu þurfa auk þess aðstoð frá sálfræðingi eða öðrum fagaðila til að vinna á óttanum við heilsubrest.

Friday, May 31, 2013

Smáskammtalyf, grasalyf, hefðbundin lyf, aukaverkanir og ofnæmi



Í þessum pistli langar mig að útskýra muninn á smáskammtalyfjum (hómópatískum remedíum), grasalyfjum (náttúrulyfjum) og hefðbundnum lyfjum.

Smáskammtalyf

Smáskammtalyf geta verið úr jurtum, dýrum, steinum, mold eða jafnvel mykju, en flest eru þau úr jurtum. Hugmyndin á bakvið smáskammtalyf er að það sem veldur einkennum (kvefi, verkjum, hita eða alvarlegum sjúkdómum), geti læknað þessi sömu einkenni, ef það er gefið á nógu útþynntu formi. Áhrifin af lyfinu eiga að vera því meiri sem lyfið er útþynntara. Þynningarefnið er yfirleitt vatn en steinefni eru þynnt með mjólkursykri og búnar til pillur. Flest smáskammtalyf eru svo útþynnt að það eru nánast engar líkur á því að ein einasta sameind af upphaflega efninu úr jurtinni/dýrinu/steininum sé til staðar í glasinu sem þú kaupir. Smáskammtalæknar halda því fram að vatnið/sykurinn “muni hvað það er”. Ef blandan var hrist vel í þynningarferlinu, þá séu lyfjaáhrifin í vatninu/sykrinum, þó lyfjasameindin sé ekki lengur til staðar eftir þynninguna.

Grasalyf

Grasa- eða náttúrulyf eru úr heilum blöðum, hnýðum, rótum, stönglum eða berki jurta. Öfugt við smáskammtalyfin er hugmyndin sú að áhrifin aukist því sterkari sem blandan er, en ekki er mælt með of sterkum blöndum vegna aukaverkana og eituráhrifa sem þá geta hugsanlega komið fram. Grasalæknar og náttúrulæknar halda því fram að samspil margra efna í jurtinni valdi heildaráhrifum lyfsins. Þess vegna sé ekki nóg að einangra virka efnið úr jurtinni og gefa það.

Hefðbundin lyf

Hefðbundin lyf sem læknar ávísa eru flest upphaflega úr jurtum, rétt eins og grasalyf/náttúrulyf og mörg smáskammtalyf. Munurinn er sá að í hefðbundnum lyfjum hefur virka efnið verið einangrað. Oftast er það framleitt efnafræðilega eða tæknilega, sem er bæði ódýrara og hlífir plöntunni í náttúrunni. Hefðbundin lyf fá ekki að fara á markað fyrr en virknin hefur verið sönnuð vísindalega, og aukaverkanir, milliverkanir við önnur lyf og ofnæmisviðbrögð hafa verið rannsökuð. Skammtastærð er metin til að gefa sem mesta verkun, án þess að verulegar aukaverkanir, milliverkanir eða ofnæmisviðbrögð komi fram.

Lyfleysa

Nú hafa ýmis smáskammtalyf og grasalyf/náttúrulyf verið prófuð vísindalega. Ekki hefur tekist að sýna fram á að smáskammtalyf komi að gagni umfram lyfleysu (placebo), þegar um sjúkdóma eins og kvef, höfuðverk, svefnleysi eða alvarlegri sjúkdóma er að ræða. Það þýðir að það hefur sömu áhrif að taka smáskammtalyf og hreint vatn eða sykurpillu. Möguleg áhrif eru eingöngu vegna væntinga um bata, vegna þess að sjúklingurinn trúir því að um lyf sé að ræða, og líður þess vegna betur eftir inntöku.

Afnæming

Afnæming er meðferð sem hefðbundnir læknar nota við erfiðu ofnæmi. Aðferðafræðin svipar til hugmynda smáskammtalækna. Ofnæmisvaldurinn “læknar” ofnæmið, sé hann gefinn sjúklingnum í mjög útþynntu formi til að byrja með, svo útþynntu að ónæmiskerfið bregðist ekki við með ofnæmiseinkennum eins og útbrotum, nefrennsli eða kláða í gómi. Smám saman er gefinn sterkari skammtur, þar til sá sem af ofnæminu þjáist hefur “vanist” ofnæmisvaldinum. Ónæmiskerfi líkamans hefur aðlagast. Ferlið getur tekið allt frá nokkrum mánuðum upp í 3 ár. Árangur afnæmismeðferðar er mismikill eftir því hver ofnæmisvaldurinn er, en áfram er unnið að því að þróa aðferðina.

Samspil

Grasalyf eða náttúrulyf hafa sum hver sannað gildi sitt, en önnur ekki. Virku efnin úr jurtunum hafa þá verið einangruð og prófuð vísindalega. Í einhverjum tilvikum hefur komið í ljós að samspil margra efna í jurtinni er nauðsynlegt til að ná fullri verkun. Kenning grasalækna um að það sé betra að nota heilar jurtir eða jurtahluta, frekar en einangruð efni úr jurtum, er ekkert ólík því sem við næringarfræðingar höldum fram um matinn sem við borðum. Það er betra að borða mat sem inniheldur blöndu af mörgum hollum næringarefnum, frekar en að taka inn einangruð fæðubótarefni á pilluformi. Í matvælum eru hundruðir óþekktra og lítt þekktra efna sem ásamt orkuefnum, vítamínum og steinefnum, valda heildaráhrifum fæðunnar á líkamann.

Aukaverkanir

Hefðbundin lyf bjarga mannslífum og geta haldið niðri sjúkdómseinkennum og bætt þannig lífsgæði og lengt líf þeirra sem hefðu dáið eða þjáðst án þeirra. En flestöll lyf hafa aukaverkanir, og mörg hafa milliverkanir við önnur lyf, og sum geta valdið ofnæmi. Það er því best að þurfa ekki á lyfjum að halda. Þetta veit almenningur og sumir leita frekar í óhefðbundna geirann, til smáskammtalækna eða grasalækna/náttúrulækna, í von um að tinktúrur þeirra og remedíur valdi síður þessum hvimleiðu og óvelkomnu einkennum. Það er þó engin trygging fyrir hinni fullkomnu lækningu. Grasalyf/náttúrulyf geta valdið aukaverkunum, milliverkunum og ofnæmi, ekki síður en hefðbundin lyf. Þar að auki er gæðaeftirliti með framleiðslu þeirra oft ábótavant, svo meiri hætta er á að þau séu menguð af aðskotaefnum eins og þungmálmum, eða að neytandinn sé blekktur á einhvern hátt. Smáskammtalyf sem eru þynnt með ómenguðu vatni eða mjólkursykri ættu ekki að valda neinum óæskilegum verkunum. Eina hættan við smáskammtalyf er að sá sem er haldinn alvarlegum sjúkdómi dragi að leita til hefðbundins læknis, og á meðan versni sjúkdómurinn og verði illviðráðanlegur.


Tuesday, April 30, 2013

Ertu opin fyrir því óhefðbundna?



Þessa spurningu fæ ég gjarnan þegar ég fer í nudd. Ég á ekki auðvelt með að svara henni, því þó ég hafi miklar efasemdir um meðferðir sem ekki hafa vísindalegan grunn, er ég vissulega opin fyrir því að skoða nýjar (eða ævafornar) meðferðarleiðir. Og það er þannig sem vísindamenn eiga að vera. Þeir eiga að vera opnir fyrir nýrri þekkingu, opnir fyrir því að prófa nýjar (og ævafornar) aðferðir vísindalega, prófa hvort þær standast vísindalega skoðun. Geri þær það eiga þeir að taka þeim opnum örmum, innlima þær í hið hefðbundna heilbrigðiskerfi.

Sumt virkar


Nokkrar óhefðbundnar meðferðir hafa nú þegar hlotið viðurkenningu vísindanna, þó þær séu ekki allar niðurgreiddar af ríkinu. Nudd er eitt af því sem hefur sannað sig gegn vöðvabólgu og bakverkjum, sérstaklega þegar því er blandað saman við líkamsþjálfun. Jógaæfingar bæta jafnvægi og draga úr stirðleika. Ómega-3 fitusýrur hafa sannað sig gegn hjarta- og æðasjúkdómum og bólgusjúkdómum. Jóhannesarjurt virkar við vægu og meðalvægu þunglyndi. Hugleiðsla dregur úr streitu.

Í öðrum tilvikum er niðurstaðan ekki eins afgerandi. Nálastungur hafa einhverja virkni gegn vissum verkjum og ógleði. Hnykkingar á baki geta dregið úr bakverkjum.

Annað virkar ekki


Ýmsar óhefðbundnar meðferðir hafa ekki staðist vísindalega skoðun þrátt fyrir vandaðar og endurteknar rannsóknir. Enn aðrar á eftir að rannsaka betur.

Um miðjan apríl kom til landsins Edzard nokkur Ernst sem er læknir og höfundur bókarinnar Trick or Treatment ásamt Simon Singh, rannsóknarblaðamanni. Ernst er fyrrverandi prófessor í óhefðbundnum meðferðum við Exeter háskóla í Bretlandi. Hann hélt fyrirlestur við Háskóla Íslands og kom í viðtal á Rás 1.

Ernst segir fjölmargar óhefðbundnar meðferðir hafa verið prófaðar vísindalega í gegnum árin. En því miður verður að segjast eins og er, að langflestar hafa þær fallið á prófinu. Þar nefnir hann meðal annars smáskammtalækningar (hómópatíu), nálastungur gegn reykingum og til að gangsetja fæðingu, hnykkingar við astma og hnykkingar á hálsi, svæðameðferð, ristilhreinsun, eyrnakerti, segularmbönd, aloe vera, og kvöldvorrósarolíu.

“En þetta virkar vel fyrir mig”, er svar sem ég fæ oft, þegar ég sting upp á að viðmælandi minn hætti í því óhefðbundna og feti í staðinn hina hefðbundnu leið til heilsueflingar. Og það er staðreynd að það hafa margir reynt á eigin skinni að óhefðbundnar meðferðir virka víst, hvort sem virknin hefur verið sönnuð vísindalega eða ekki.

Kostir lyfleysu


Er þetta ekki mótsögn við niðurstöðu Ernst? Nei, raunar ekki. Ernst segir 95% óhefðbundinna meðferða ekki hafa neina virkni umfram lyfleysu (placebo). Það þýðir að það hefur sömu virkni að taka inn hreint vatn eða sykurpillu eins og að taka inn hómópatíska remedíu á vökva eða töfluformi. Það sem skiptir máli er hvort þú trúir því að vökvinn eða pillan muni bæta líðan þína, en ekki hvort um vatn, sykur eða remedíu er að ræða. Fótanudd hefur sömu áhrif til slökunar og vellíðunar, hvort sem það heitir svæðanudd eða hefðbundið fótanudd, hvort sem “réttu” eða “röngu” svæðin á iljunum eru nudduð.

Lyfleysuáhrifin eru raunveruleg, mörgum líður betur eftir meðferð sem þeir trúa að geri þeim gott. Er æskilegt að virkja lyfleysuáhrifin til að bæta líðanina? Vissulega, og allir góðir meðferðaraðilar, hefðbundnir læknar sem óhefðbundnir græðarar, virkja þessi áhrif. Þau hjálpa vegna þess þau skapa væntingar um bata, þau gefa fólki von. En hefðbundinn meðferðaraðili gefur auk þess lyf eða beitir meðferð, sem sýnt hefur verið fram á að virkar umfram lyfleysu. Heildaráhrifin ættu því að verða meiri af hefðbundinni meðferð en óhefðbundinni. Sé það ekki svo, gæti munurinn legið í þeim tíma, athygli, samúð og hlustun, sem óhefðbundnir græðarar veita skjólstæðingum sínum, en læknar veita síður.

Gallar lyfleysu


Lyfleysuáhrifin ein og sér duga skammt þegar um raunveruleg veikindi er að ræða. Í fyrsta lagi eru þau óútreiknanleg, því þau byggja á því hversu miklar væntingar tekst að skapa hjá einstaklingnum, hversu mikla trú hann/hún hefur á meðferðinni. Í öðru lagi endast þau oft stutt, því trú hefur tilhneigingu til að dofna með tímanum, og væntingarnar valda stundum afneitun raunverulegs vanda. Slíka afneitun er erfitt að halda í til lengdar, ef sársaukaboð eða önnur einkenni eru enn til staðar.

Það versta er samt ef lyfleysuáhrif valda því að einstaklingur seinkar því eða sleppir að leita sér hjálpar innan hefðbundna heilbrigðiskerfisins. Á meðan getur sjúkdómur versnað og jafnvel orðið illviðráðanlegur.

Annað er að sumar óhefðbundnar meðferðir eru ekki bara gagnslausar, heldur hreinlega heilsuspillandi. Sem dæmi hafa sum náttúrulyf frá Asíu reynst innihalda verulegt magn þungmálma.

Endurvekja og viðhalda áhrifunum


Til að hita upp fyrir komu Ernst til landsins var haldið málþing um óhefðbundnar lækningar í Háskóla Íslands í byrjun apríl. Þar kom fram að kvíðið fólk er einn stærsti hópurinn sem leitar óhefðbundinna lækninga. Kvíði veldur líkamlegum einkennum t.d. frá stoðkerfi og meltingu, auk andlegrar vanlíðanar.

Ég þekki kvíða vel af eigin raun og hef prófað allt milli himins og jarðar í þeirri von að öðlast betri líkamlega og andlega líðan. Ef græðaranum tekst að vekja mér væntingar og vonir finn ég fyrir lyfleysuáhrifum. Líðanin batnar, andlega og stundum líkamlega. En lyfleysuáhrifin endast aldrei. Þau dvína og hverfa á stuttum tíma og ég stend uppi nokkrum þúsundköllum fátækari, og með engu betri heilsu eða líðan.

Nú, þá er alltaf hægt að fara aftur til græðarans, eða leita til annars græðara sem býður öðruvísi meðferð, prófa aðra remedíu. Þannig fór ég milli alls kyns græðara, tók fæðubótarefni, blómadropa og remedíur, prófaði nálastungur og alls konar mataræði, heilun og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun og guð má vita hvað. Ég sé eftirá að ég var að reyna að endurvekja og viðhalda lyfleysuáhrifunum, halda í væntingar og von um bata.

Hvað skyldi ég hafa eytt miklum peningum í þetta samtals? Ég hef ekki hugmynd um það. Eitt er víst að ekkert af þessu minnkaði kvíða minn og tilheyrandi líkamlegan vanda, þó heilun og höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun hafi vissulega haft tímabundin slakandi áhrif.

Lífshættulegar aukaverkanir


Verst fannst mér þó þegar ég las í bókinni Trick or Treatment að ein meðferðin sem ég sótti stíft á tímabili, getur verið lífshættuleg. Þetta voru hnykkir á hálsi, framkvæmdir af útlærðum hnykkjurum (kírópraktorum). Það eru dæmi erlendis frá um dauðsföll af völdum heilablæðingar eftir hnykkmeðferð á hálsi. Æð sem flytur blóð til heilans getur rofnað við hnykkinn.

Það er sem sagt ekki nóg með að stirðleiki í hálsi mínum hafi aukist tímabundið eftir hverja hnykkmeðferð. Það er ekki nóg með að heildaráhrifin af margra mánaða meðferð hafi verið aukin eymsli í hálsi. Nei, það er ekki nóg með það. Ég tók bókstaflega áhættu með líf mitt í hvert skipti sem hnykkt var á hálsi mínum.

Ef ég kaupi hefðbundið lyf fylgir því seðill, þar sem taldar eru upp aukaverkanir og milliverkanir við önnur lyf, ábendingar og frábendingar. Tiltekið er í prósentum hversu algengar aukaverkanirnar eru. Oftast eru þær sárasjaldgæfar, en það er mikilvægt að sjúklingar séu upplýstir og meðvitaðir um hættuna.

Læknum ber að tilkynna allar aukaverkanir og milliverkanir sem þeir verða varir við. Ef lyf reynist hættulegt, hvað þá ef dauðsfall hlýst af, þá er lyfið umsvifalaust tekið af markaði, eins og nýleg dæmi sýna.

Hvers vegna eru hnykkjarar enn að meðhöndla hálsvandamál á þennan áhættusama máta? Hvar er innra gæðaeftirlit hnykkjara?