Saturday, March 31, 2012

Lystardagbók í stað matardagbókar


Mörg erum við óánægð með mataræði okkar og viljum breyta því, höfum jafnvel margreynt að breyta því.  Það er einkum tvennt sem óánægja okkar beinist að.  Annars vegar hættir okkur til að borða of mikið, og hins vegar að freistast af mat sem við vitum að gerir okkur ekki gott.
Ef við höfum leitað með þetta vandamál til sérfræðings, höfum við gjarnan verið beðin að halda matardagbók. Við skráum þá niður allt sem við borðum, matartegund og magn, auk máltíðaskipanar.  Í þessu felst sjálfkrafa aðhald, nema við séum þeim mun kærulausari við skráninguna.  Mörg okkar breyta mataræðinu ósjálfrátt til að dagbókin líti betur út.  Við verðum meðvitaðri um mataræði okkar, hvað við borðum, hversu mikið og hversu reglulegar máltíðirnar eru.  Mataræðið fer að taka meira mið af því sem við teljum vera betra eða æskilegra.
Nú heldur enginn matardagbók út í hið óendanlega.  Það kemur að því að við sleppum þessari hækju, en viljum að sjálfsögðu halda í breytinguna sem skráningin olli.  En oftar en ekki rennur sú fróma áætlun út í sandinn.  Vikurnar sem við héldum matardagbókina verða eins konar megrunarkúr eða strangur mataræðiskúr, átak sem tekur enda, og allt fer í sama farið.
Ég mæli frekar með lystardagbók fyrir þá sem vilja ná tökum á mataræðinu. Munurinn á matardagbók og lystardagbók er það hvað við skráum niður, og hvaðan aðhaldið kemur.    
Í lystardagbókina skráum við svengd og seddu við upphaf og lok hverrar máltíðar.  Við getum notað skalann frá 1-10 sem mælistiku, þar sem 1 er glorhungruð, og 10 er kútsödd.  Athyglinni beinum við innávið, hlustum á líkamann, lærum að þekkja merkin sem líkaminn gefur. Eftir örfárra daga skráningu förum við að taka eftir ýmsu sem við áður litum framhjá, t.d. líkamleg óþægindi vegna ofáts í lok flestra máltíða.  Og sum förum við að sjá ákveðið munstur, hvernig þessi líkamlegu óþægindi, auk samviskubits, valda því að við sleppum næstu máltíð, eða látum líða lengri tíma milli máltíða.  Þá er hætt við að við verðum allt of svöng þegar við loksins fáum okkur að borða, og aftur borðum við yfir okkur.  Þetta verður vítahringur.  Að sleppa úr máltíð, eða draga það að fá sér að borða, veldur ofáti og/eða stjórnleysi í næstu máltíð á eftir.  Við borðum þá það sem hendi er næst, það sem er einfalt og fljótlegt að fá sér, í stað þess að velja og útbúa hollan mat, og við getum ekki hamið okkur fyrr en við erum búin að borða allt of mikið. 
Lystardagbókin minnir okkur á að hlusta á líkamann, og þannig veitir hún okkur innra aðhald, aðhald sem kemur innan frá, frá okkar eigin líkama.  Eftir nokkurra vikna skráningu finnum við að það er betra að fá sér að borða þegar við erum hæfilega svöng, og betra að hætta þegar við erum hæfilega södd.  Í upphafi borðum við kannski þrjár máltíðir á dag og förum frá 2 upp í 9 við hverja máltíð, eða frá 3 upp í 8.  Smám saman finnum við að það er betra að borða 5 máltíðir á dag, og fara frá 4 upp í 7 við hverja máltíð.  Þá líður okkur betur í maganum, fáum síður vélindabakflæði og brjóstsviða, og það sem meira er, við höfum betri stjórn á því hvað við veljum okkur til að borða, getum frekar hugsað okkur að búa til mat frá grunni, nennum að skera í salat o.s.frv. 
Það heldur enginn lystardagbók út í hið óendanlega, fremur en matardagbók.  En þar sem aðhaldið kom innan frá, fremur en utanfrá, þá er auðveldara að halda sig við árangur lystardagbókar, en matardagbókar. Sleppum hækjunni í skrefum og minnum okkur á að hlusta á svengd og seddu fyrir máltíð og á meðan á máltíð stendur.  Smám saman kemst það upp í vana að leita innávið.
Í þessum bloggpistli var umræðuefnið svengd og sedda, hvernig lystardagbókin getur hjálpað okkur að stilla matarskömmtunum í hóf, en í næsta bloggpistli mun ég ræða hvernig lystardagbókin getur hjálpað okkur að velja hollari mat.

Friday, February 24, 2012

Orthorexia - fæðurétttrúnaður


Orthorexia nervosa er sjúkdómur sem hefur ekki enn verið viðurkenndur af alþjóðlegum samtökum geðlækna.  Sumir sérfræðingar eru samt farnir að nota þessa skilgreiningu um fólk sem er heltekið þörf fyrir að borða “rétt”. Hvað einstaklingur með orthorexiu telur rétt að borða og hvað rangt er einstaklingsbundið, en oftar en ekki snýst það um að forðast aukefni, E-efni, verksmiðjuframleidd matvæli, sykur, fitu, kolvetni, allan eldaðan mat, kjöt, mjólkurvörur eða allt úr dýraríkinu.  Munurinn á orthorexiu og anorexiu er að einstaklingur með orthorexiu hefur ekki stórkostlegar áhyggjur af líkamsþyngdinni, og er ekki í megrun.  Matarreglurnar snúast ekki um magn, heldur gæði. Reglurnar eru mjög strangar og eru gjarnan rökstuddar með því að vilja borða “hreinan” mat, “náttúrulegan” mat, “ómengaðan” mat.
Einstaklingar með orthorexiu neita sér um mat, frekar en að láta nokkuð af bannlistanum inn fyrir sínar varir.  Þeir eru margir vannærðir, og í undirþyngd, vegna þess að þeir ná ekki að fá öll þau næringarefni sem þeir þurfa, og nægar hitaeiningar, úr þeim mat sem er “leyfður”.  Brjóti þeir reglurnar, með því að kyngja einni rúsínu óvart, eða með því að flippa og fá sér tvo hamborgara og hálfan lítra af kóki, finnst þeim þeir þurfa að refsa sér með því að fasta, fara á hreinsikúr, eða gera eitthvað annað sem “bætir fyrir brot þeirra”.  Þráhyggja er afleiðing orthorexiu, fremur en orsök.
Náttúrulæknirinn Stephen Bratman lýsti sjúkdómnum fyrstur manna.  Hann hefur sett fram tvær spurningar sem eiga að gefa fólki vísbendingu um hvort það sé haldið orthorexiu.
Ég hef snarað þeim lauslega á íslensku hér:
Spurning 1:
Er þér umhugaðra um að borða rétt, en að hafa ánægju af að borða?
Spurning 2:
Veldur mataræðið þér félagslegri einangrun?
Ef báðum spurningum er svarað játandi, er það vísbending um orthorexiu.

Á Wikipediu síðu um orthorexiu er annar listi með fleiri spurningum. 
Spurningalisti af Wikipediu:
Eyðir þú meira en 3 klst á dag í að hugsa um hollan mat?
Finnst þér þú hafa fulla stjórn, ef þú borðar “rétt”?
Skipuleggur þú matseðil morgundagsins, í dag?
Hafa lífsgæði þín versnað með “réttara” mataræði?
Ertu orðin(n) strangari við þig?
Færðu meira sjálfstraust ef þú borðar hollan mat?
Líturðu niður á þá sem borða öðruvísi en þú?
Neitarðu þér um mat sem þér fannst áður vera góður, til þess að borða “rétt”?
Gerir mataræði þitt að verkum að þú átt erfitt með að borða annars staðar en heima hjá þér, sem hefur aftur valdið því að þú hefur fjarlægst vini og ættingja?
Finnurðu til sektarkenndar eða sjálfsásökunar ef þú brýtur mataræðisreglurnar?
Ef þú svarar tveimur spurningum eða fleiri játandi, gætir þú verið með væga orthorexiu, segir á Wikipediusíðunni.
 
Það er vel hægt að vera heilsumeðvitaður án þess að vera haldinn sjúkdómnum orthorexiu.  Heilsusamlegt mataræði þarf nefnilega ekki að innifela lista yfir “bannaðar” matartegundir (undantekningin eru þeir sem eru með sannanlegt fæðuofnæmi eða fæðuóþol). Það er sem betur fer hægt að upplifa aukna orku, fallegri húð, betri meltingu, meira jafnvægi og almennt bætta heilsu og vellíðan á fjölbreyttu, hófsömu og öfgalausu mataræði.

Wednesday, January 25, 2012

Fæðubótarefni eins og D-vítamín og andoxunarefni

Fæðubótarefni rokseljast um allan hinn vestræna heim.  Fólk trúir auglýsingum framleiðendanna og telur sig öðlast betri heilsu og minnka líkur á alls kyns sjúkdómum ef það kaupir og notar fæðubótarefni.  Sumir halda að því meira sem þeir kaupa og neyta, því fleiri efni og stærri skammta, því betri verði heilsan, því minni líkur á andstyggilegum sjúkdómum. 

Þó fæðubótarefni séu stundum æskileg og jafnvel nauðsynleg, geta þau gefið falskt öryggi, ef við teljum okkur trú um að við getum tekið þau í stað þess að borða fjölbreytta og næringarríka fæðu.  Það er langbest að fá næringarefnin úr fæðunni.  Næringarefnin vinna saman að því að efla heilsu okkar, og minnka líkur á sjúkdómum. Í fjölbreyttri og lítt unninni fæðu eru næringarefnin í réttum hlutföllum.  Í fæðunni eru auk þess hundruðir óþekktra eða lítt rannsakaðra efna sem gegna sínu nauðsynlega hlutverki.  Í hverri pillu af fæðubótarefnum er eitt eða tiltölulega fá efni.  Að taka eina steinefnategund umfram aðra, eða eina tegund andoxunarefnis, í langan tíma, getur truflað frásog úr meltingarvegi í blóð, virkni efna í líkamanum, og útskilnað um nýru.  Stórir skammtar geta valdið uppsöfnun umframbirgða í lifur og jafnvel eituráhrifum.  Á Íslandi, sem erlendis, hefur fólk verið lagt fárveikt inn á sjúkrahús með lifrarskaða eða nýrnaskaða vegna ofneyslu fæðubótarefna. 

Það er ekki svo langt síðan vísindin fóru að beina sjónum sínum að andoxunarefnum.  Andoxunarefnin er að finna í mörgum jurtum, ekki síst í berjum, og afurðum þeirra t.d. grænu tei.  Margt bendir til þess að þau séu bráðholl, geti eflt heilsu okkar og unnið gegn fjölmörgum sjúkdómum.  Þetta kom í ljós þegar stórir hópar fólks voru spurðir um neysluvenjur sínar, og svo var fylgst með þeim árum saman.  Ítrekað kom í ljós að þeir sem borðuðu andoxunarríka fæðu voru í minni sjúkdómshættu.  Í kjölfarið hvöttu næringarfræðingar almenning til aukinnar neyslu andoxunarríkrar fæðu. 

Andoxunarefnin voru einangruð úr jurtunum til að rannsaka þau nánar, og fæðubótarefnafyrirtækin brugðust skjótt við og markaðssettu þessi efni sem nauðsynlega fæðubót fyrir alla.  Á meðan var haldið áfram að rannsaka andoxunarefnin.  Þau voru gefin dýrum og fólki, ýmist heilbrigðu fólki eða sjúklingum.  Og í þessum inngripsrannsóknum hefur oftar en ekki komið í ljós að áhrifin eru engin, eða í versta falli slæm.  Það hefur í sumum rannsóknum mælst aukin hætta á sjúkdómum ef andoxunarefni eru tekin inn á einangruðu formi í stærri skömmtum en fást úr næringarríkri fæðu.  Þetta þarf ekki að koma á óvart.  Mannslíkaminn er ekki hannaður til að neyta stærri skammta af einangruðum næringarefnum en fást úr fæðunni.

Niðurstaðan er því sú að andoxunarrík fæða eins og grænmeti, ávextir og ber, er góð fyrir heilsuna, en neysla andoxunarefna sem fæðubót er í besta falli peningasóun, og getur jafnvel verið skaðleg heilsunni. 

Það er fleira en andoxunarefnin sem vekur hjá mér spurningar þessa dagana.  D-vítamín er tískuefnið í dag.  Ráðlagður dagsskammtur af D-vítamíni hefur verið hækkaður í Bandaríkjunum, og verið er að vinna að endurskoðun D-vítamínráðlegginga hér á landi og í fleiri löndum. Rætt hefur verið að D-vítamínbæta mjólkurafurðir.  Sumum finnst þetta ferli taka of langan tíma, og vilja hækkunina mun meiri en nú er í umræðunni.

Ég vil bara benda á að það þarf að vanda til verka, og hafa hækkunina hvorki of litla né of mikla.  Á Landspítalanum er D-vítamín mælt í blóði sjúklinga, og ef skortur mælist er sjúklingunum ráðlagt að taka stóra skammta D-vítamíns tímabundið, og auka D-vítamínneysluna hóflega til langs tíma. Einnig er þeim sem eru í mikilli hættu á beinþynningu ráðlagt að taka stærri skammta en öðrum.  Þetta er þá gert undir eftirliti sérfræðinga sem mæla stöðu D-vítamíns í blóði reglulega þar til jafnvægi hefur náðst. 

Það er ekki þar með sagt að allir séu með D-vítamínskort, eða að allir þurfi á ofurskömmtum D-vítamíns að halda í lengri tíma.  Það er beinlínis varasamt að almenningur labbi sér inn í næsta apótek eða heilsubúð og versli risaskammta af D-vítamíni eða öðrum fæðubótarefnum og taki mánuðum eða árum saman.  Höfum reynsluna af andoxunarefnunum í huga og spyrjum að leikslokum. 

D-vítamín fáum við úr sólinni á sumrin, en á veturna getum við fengið D-vítamín úr lýsi og feitum fiski eins og laxi, silungi, síld og lúðu.  Þeir Íslendingar sem hvorki taka lýsi né borða feitan fisk reglulega eru í hættu á D-vítamínskorti yfir vetrarmánuðina.  Þá geta fæðubótarefni komið sér vel, en hafa ber í huga að efri mörkin fyrir neyslu fullorðinna á D-vítamíni úr fæðu eru 50 míkrógrömm á dag.

Thursday, December 22, 2011

Áramótaheit - mótrök og meðrök


Áramótin nálgast óðfluga. Þá nota margir tækifærið til að strengja áramótaheit.  Gott er að slík ákvörðun eigi sér aðdraganda og sé ígrunduð og undirbúin.

Flest vitum við að við gætum lifað heilbrigðara lífi.  Við vitum líka flest hvað við þurfum að gera til að bæta heilsuna.  Við gætum sum hætt að reykja, önnur farið að stunda líkamsrækt, og enn önnur hætt í skyndibitanum og eldað mat frá grunni í staðinn.  En það er eitthvað sem hindrar okkur.  Og það getur verið árangursríkt að velta fyrir sér þessari hindrun.  Ekki til að dæma okkur fyrir leti og ómennsku, eða rífa okkur niður fyrir kjarkleysi eða stjórnleysi.  Gerum það bara til að skoða þessa innri hindrun og viðurkenna hana. 

Kannski erum við vanaföst, og sjáum enga ástæðu til að breyta því sem hefur virkað fyrir okkur hingað til.  Kannski erum við undir miklu álagi, í stöðugu kapphlaupi við tímann.  Við rétt náum að vekja börnin og klæða þau, koma þeim í skóla eða gæslu, klára vinnudaginn, versla, sækja börnin, borða, baða, svæfa.  Kannski erum við værukær, viljum lifa fyrir líðandi stund, skeytingarlaus um framtíðina.  Kannski erum við nautnaseggir, finnst einfaldlega gott að reykja, borða hamborgara og drekka kók.  Við sættum okkur þá við hósta á morgnana, bólur í andlitinu, bjúg á fótum, skert þol og þrek.  Kannski erum við ung ennþá, og ekki farin að finna fyrir hósta, bjúgi eða þrekleysi.  Til hvers þá að hafa áhyggjur af slíku? 

Ákvörðunin um breytingu er okkar.  Það getur enginn neytt okkur til að breyta lífi okkar.  Það getur heldur enginn breytt því fyrir okkur.  Þennan sjálfsákvörðunarrétt er mikilvægt að hafa í huga.  Lífsstílsbreyting er ekkert sem við verðum eða þurfum að gera.  Hún er eitthvað sem við getum valið að gera.  Orðin “verð” og “þarf” eru gjarnan hlaðin neikvæðum tilfinningum.  Þau kalla beinlínis á mótþróa og mótrökin hrannast upp í huga okkar.  Þá getur verið léttir að ýta þessum orðum burt úr huganum, og velta í staðinn fyrir sér því frjálsa vali sem við höfum.  Hvað viljum við raunverulega, hvað er mikilvægast? 

Það eru ekki tóm mótrök og hindranir í huga okkar, þar má líka finna rök með breytingu.  Okkur munar kannski um peningana sem sparast með því að hætta að reykja.  Það er bæði ódýrara og skemmtilegra að elda frá grunni, en að kaupa tilbúinn mat.  Og kannski er okkur farið að langa í betri heilsu og líðan. 

Í stað þess að eyða orku í togstreituna í huga okkar getum við skoðað í rólegheitum hvort við finnum leiðir framhjá hindrununum.  Það má skoða án allrar fordæmingar, án “verð” og “þarf”.  Er rými í hversdegi okkar til að hlúa að okkur, heilsu okkar og líðan til framtíðar?  Gætum við skapað slíkt rými?  Fimm mínútur á morgnana í hugleiðslu, til að stilla hugann, róa taugarnar, komast inn í núið?  Tíu mínútna gönguferð í hádeginu tvisvar í viku?  Nota kvöldin til að útbúa salat, sem við tökum með í vinnuna á morgnana?  Leiðirnar eru óteljandi, og mikilvægast að við finnum okkar eigin leið.

En hvað ef við viljum hætta eða sleppa einhverju sem er orðinn vani, og okkur finnst gott?  Þá getur fyrsta skrefið verið að velta fyrir sér hvað myndi hjálpa okkur til að hætta eða sleppa.  Ef við viljum hætta að reykja, gæti hjálpað að biðja um stuðning og umburðarlyndi nánustu fjölskyldu á meðan fráhvörfin ganga yfir.  Nikótíntyggjó gæti hjálpað.  Námskeið eða hópefli með öðrum í sömu sporum gæti verið sú aðstoð sem gerði gæfumuninn.  Nokkurra mínútna hugleiðsla til að binda enda á hverja máltíð gæti skipt máli.  Ef við viljum hætta í sælgætinu og skyndibitanum, gæti hjálpað að venja sig á aðra gönguleið heim úr vinnu eða skóla, leið sem liggur ekki framhjá sjoppu eða skyndibitastað.  Það gæti líka hjálpað að hafa skál með hnetum, möndlum, rúsínum og þurrkuðum ávöxtum á borðinu, til að grípa til þegar sælgætislöngunin kallar.

Áramótin geta verið okkur hvatning til að taka ákvörðun.  Til að ákvörðunin verði árangursrík er gott að hafa velt fyrir sér rökum með og á móti breytingu, hafa fundið leiðir framhjá hindrununum og réttu hjálpartækin.

Monday, November 28, 2011

Fita og kólesteról

Hugtök eins og fita og kólesteról eru hlaðin fordómum í huga margra. Fordóma má uppræta með þekkingu, og hér er pistill um flutning fitu og kólesteróls um líkamann. Ég kemst ekki hjá því að nota flókin hugtök úr lífefnafræðinni, en vísa í myndlíkingu sem hjálpaði mér að læra þetta efni undir próf á sínum tíma. Við skulum ímynda okkur að líkaminn sé borg, æðarnar séu götur og frumur líkamans séu hús eða heimili. Meltingarvegurinn er skipaskurður og í görninni er höfnin, þar sem skipin landa vörum sínum.

Eins og allir vita sem hafa þvegið upp, myndar fita fitudropa í vatni. Í blóði okkar eru líka örsmáir fitudropar af nokkrum mismunandi gerðum sem líkaminn myndar úr þríglýseríðum, fosfólípíðum, kólesteróli og fituleysnum vítamínum. Á yfirborði dropanna eru prótein. Fitudropar í blóðinu eru kallaðir lípóprótein (fituprótein).

Fitan sem við fáum úr fæðunni er blönduð galli í skeifugörninni ofarlega í meltingarveginum. Gallið minnkar fitudropana svo meltingarhvatar frá briskirtli eigi auðveldara með að kljúfa þríglýseríðin og ná þannig fitusýrum úr dropunum. Fitusýrurnar eru teknar upp (frásogaðar) úr þörmunum inn í þarmavegginn. Áður en þeim er hleypt út í sogæðarnar er þeim pakkað í nýja fitudropa. Þetta er ein tegund af lípópróteinum, sem kallast kílómíkrón. Sogæðarnar bera kílómíkrónin til blóðrásar nálægt hjartanu. Hjartað dælir þeim og blóðinu um allan líkamann. Á yfirborði frumna líkamans er efnahvati sem bindur kílómíkrón og önnur lípóprótein sem berast með blóðrásinni og klípur fitusýrur úr þeim eftir þörfum. Virkni hvatans eykst ef frumuna vantar fitusýrur til orkunotkunar. Fituleysin vítamín og kólesteról eru líka klipin úr kílómíkrónunum eftir þörfum. Kílómíkrónin minnka smám saman á ferð sinni um blóðrásina og leifarnar eru teknar upp af lifrinni nokkrum klukkustundum eftir máltíð. Hér getum við séð þarmavegginn í hlutverki hafnarmannvirkja, þar sem uppskipun fer fram. Kílómíkrónin eru flutningabílar sem færa heimilunum innfluttar vörur beint úr skipunum. Lifrin er flutninga- og endurvinnslumiðstöð sem tekur við restunum.

Lifrin býr líka til sína eigin fitudropa og sendir út í blóðrásina. Þetta eru lípóprótein sem eru kölluð VLDL og verða meira áberandi í blóðrásinni því lengra sem líður frá síðustu máltíð. Efnahvatarnir á frumunum binda VLDL og klípa fitusýrur, kólesteról og vítamín af þeim eftir þörfum. VLDL droparnir minnka smám saman og kallast þá LDL. Lifrin hefur viðtaka fyrir LDL og hreinsar þá úr blóðrásinni. LDL droparnir eru stundum kallaðir “vonda kólesterólið”, þó þeir innihaldi fleira en bara kólesteról. En LDL-droparnir hafa vont orð á sér vegna þess að þeir geta oxast (þránað) og fest við æðaveggina áður en lifrin nær að fjarlægja þá. Þá getur myndast bólga í æðaveggnum og hann kalkað. Að lokum getur æðin stíflast. Kransæðarnar, sem liggja utan á hjartavöðvanum og næra hann, eru sérlega viðkvæmar fyrir kölkun. Stífla í þeim getur verið lífshættuleg. Við skulum ímynda okkur að flutningamiðstöðin sjái heimilunum fyrir vörum þegar langt líður milli skipakoma. Vörurnar eldast á leiðinni og skemmast. Bílstjórarnir eiga að skila afgangnum til flutningamiðstöðvarinnar. En það kemur fyrir að þeir sofna undir stýri og klessa á húsveggi. Þá verða skemmdir á húsunum og umferð um göturnar getur stöðvast. Ef umferðarteppa veldur því að dælustöðin (hjarta borgarinnar) fær ekki eldsneytið sem hún þarf á að halda (súrefnisríkt blóð), stöðvast dælan og íbúar borgarinnar líða skort og deyja.

Önnur tegund lípópróteina kallast HDL. Lifrin sendir þessa fitudropa út í blóðrásina jafnt og þétt. HDL er stundum kallað “góða kólesterólið”, því hlutverk þess er að klípa kólesteról og fitusýrur úr öðrum fitudropum og skila heim til lifrarinnar. Við getum litið á HDL sem hreinsunardeild sem fer um götur borgarinnar. Hún hirðir upp restar af vörum og klesstum bílum og flytur í flutningamiðstöðina til endurvinnslu.

Kólesteról fáum við úr eggjarauðu og rækjum, en lifrin framleiðir líka kólesteról, enda er það forveri lífsnauðsynlegra hormóna í líkamanum. Mikil neysla harðrar fitu og kolvetnaríkrar fæðu hækkar “vonda kólesterólið” og minnkar “góða kólesterólið” í blóðinu. Neysla mjúkrar fitu hefur almennt góð áhrif á blóðfituna, en vísbendingar eru um að einómettuð fita eins og er í ólífuolíu, og ómega-3 fitusýrur í lýsi, fiski og hörfræolíu séu betri en ómega-6 fitusýrur sem eru í maísolíu, sólblómaolíu og fleiri jurtaolíum. Mikil neysla ómega-6 fitusýra eykur bólgumyndun í líkamanum og vísbendingar eru um að þær oxist eða þráni frekar og klessist við æðaveggina.

Wednesday, August 31, 2011

Skynsemin

Ég hef nokkrum sinnum áður talað um innri og ytri stýringu þegar kemur að mataræði og hreyfingu. En hvað með skynsemina, hvernig tengist hún þessum tveimur þáttum?

Þegar við beitum ytri stýringu við að næra okkur og hreyfa, förum við í blindni eftir skilaboðum úr umhverfinu. Ef skilaboðin koma frá auglýsingum um skyndibita og sjónvarpssápur hrakar heilsu okkar smám saman, þó við förum ekki að finna almennilega fyrir því fyrr en hátt á fertugsaldri. Þá bregður okkur í brún og við tökum mörg hver meðvitaða ákvörðun um að láta frekar stjórnast af heilsuskilaboðum úr umhverfinu. Skilaboðin eru oft þau að við eigum að neita okkur um allan sykur og hvítt hveiti, lifa jafnvel á hráfæði eða grænmetisfæði. Önnur algeng skilaboð eru að mæta þrisvar í viku í krossfit eða ketilbjölluþjálfun, nú eða hlaupa svo og svo marga kílómetra á viku. Það eru sett einhver markmið sem okkur er talið trú um að við eigum að ná, t.d. að komast niður í svokallaða kjörþyngd, fá sléttan maga, stærri vöðva eða komast hálft eða heilt maraþon. Og við reynum að fara eftir skilaboðunum til að ná markmiðinu.

Það versta við svona átak er ef við hættum að hlusta á líkamann og tilfinningar okkar, og ef við hættum að beita skynseminni. Þá höldum við áfram átakinu ótrauð, þó við séum stöðugt svöng og dreymi fátt annað en mat; pínum okkur áfram þó harðsperrurnar séu orðnar að krónískum meiðslum; trúum því við séum að gera okkur gott þó líkaminn kvarti stöðugt með meltingartruflunum og þreytu. Þegar við erum komin í slíka mótsögn við líkamann, tilfinningarnar og skynsemina, er stutt í að við gefumst upp. Því miður er það ekki skynsemin sem nær yfirhöndinni þegar þar er komið sögu, heldur tilfinningarnar og líkamlegar hvatir og þarfir. Við brjótum allar reglurnar sem við settum okkur. Við hættum að mæta í ræktina þó við séum búin að borga fyrir allan veturinn, og borðum yfir okkur af öllu sem á bannlistanum var. Í kjölfarið fylgir samviskubit og sjálfsniðurrif. Okkur finnst við léleg að hafa gefist upp, okkur finnst við hafa misst alla stjórn á lífi okkar.

Ég mæli frekar með innri stýringu. Innri stýring byggir á að hlusta á líkamann og þarfir hans. En hvað með skynsemina? Hvernig verður líf okkar ef við borðum alltaf það sem okkur langar í þá stundina, og hreyfum okkur bara þegar okkur langar til þess? Leggjumst við þá ekki bara í sófann með konfektkassa okkur við hlið? Skoðum þetta aðeins betur. Eftir tvo daga með konfektkassa í sófanum verðum við stirð í skrokknum og með magapínu. Þá er líkaminn að segja okkur að hlúa betur að okkur, með betri næringu og meiri hreyfingu. Skynsemin segir okkur það líka. Og við skulum ekki missa sjónar á skynseminni. Ef skynsemin er í takti við tilfinningarnar ber hún heilsuskilaboð sem við fáum úr umhverfinu saman við tilfinningar okkar og metur hvort skilaboðin séu skynsamleg, hvort við getum hugsað okkur að prófa að fara eftir þeim. Ef niðurstaðan er já, hefst reynslutími. Við prófum að gera litla breytingu á lífsstíl okkar. Eftir þennan reynslutíma metum við stöðuna á nýjan leik, berum hana saman við skynsemina og tilfinningar okkar. Virkuðu þessi skilaboð fyrir okkar líkama? Ef okkur líður betur en áður, höldum við áfram, og íhugum jafnvel að stíga annað skref, gera aðra litla breytingu.

Það er skynsamlegra að gera litla varanlega breytingu á lífi sínu, en að gera risaátak sem rennur í sandinn.

Tuesday, May 31, 2011

Vegur Búdda frá þjáningunni

Hvernig var aftur eðlisfræðijafnan sem við lærðum flest í framhaldsskóla um samband straums og spennu? Mig minnir að hún hafi verið svona:

Spenna = Straumur X Viðnám.

Þessi jafna kom mér í hug um daginn þegar ég las bók um gjörhygli og búddisma. Þar er nefnilega jafna sem minnir á þessa jöfnu, og hún er svona:

Þjáning = Sársauki X Mótstaða.

Rétt eins og í eðlisfræðinni er hægt að setja núll öðru megin við margföldunartáknið (X) og þá verður útkoman núll (allar tölur sem margfaldaðar eru með núlli verða núll). Þannig að ef sársaukinn er núll, þá er þjáningin eða spennan núll. Það hljómar rökrétt. Ef enginn er sársaukinn þá þjáumst við ekki. En við getum líka látið mótstöðuna eða viðnámið vera núll og þá verður þjáningin engin, sama hvað sársaukinn er mikill. Með öðrum orðum, þjáningin verður ekki til fyrr en við förum að streitast á móti sársaukanum.

Við erum öll undirorpin atburðum sem geta valdið okkur sársauka og erfiðleikum, svo sem slysum eða veikindum okkar sjálfra eða þeirra sem okkur þykir vænt um. Þessir atburðir eru tilviljanakenndir, eða þess eðlis að við stjórnum þeim ekki. En þeir eru hluti af lífinu, hluti af veruleika sem við verðum að sætta okkur við. Búddisminn kennir okkur að þjáningin verði ekki til fyrr en við förum að streitast á móti veruleikanum, óska þess að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru. Við þurfum þannig að breyta viðhorfi okkar til veruleikans, hætta að streitast á móti því sem þýðir hvort eð er ekkert að streitast á móti. Það hefur ekki í för með sér að við verðum dofin og upplifum engan sársauka. Við getum upplifað allt litróf tilfinninganna, en tilfinningasveiflurnar ganga yfir þjáningarlaust, ef við streitumst ekki á móti þeim.

Svo ég taki nú eitt saklaust og um leið algengt dæmi: Hver hefur ekki upplifað pirring og gremju í langri biðröð, þegar maður hefur allt annað að gera við tímann en að standa og bíða? Það er mótstaða okkar við þessum veruleika, biðröðinni, sem veldur okkur þessari þjáningu. Ef við hættum að streitast á móti, hættum að óska þess að biðröðin væri styttri, þá færist yfir okkur sátt og friður. Við getum notið þess að fá óvænt nokkrar mínútur til að vera í augnablikinu, finna fyrir tánum, hlusta á andardráttinn. Svo getum við náttúrulega notað þessar mínútur til að hringja nokkur símtöl eða skipuleggja morgundaginn í huganum. Svo lengi sem við gerum það án óþolinmæði, verður þjáningin engin.

Þegar yfir okkur hellist sorg vegna ástvinamissis, er fátt betra en að leyfa tárunum að streyma, mótstöðulaust. Við finnum sársaukann, logandi í brjóstinu, en svo fremi við sleppum honum lausum og grátum út, þá færist að lokum yfir okkur værð og sátt. Það er fyrst þegar við reynum að kyngja grátinum og harka af okkur, sem spennan og þjáningin verður óbærileg. Hún getur hreinlega valdið okkur líkamlegum veikindum eins og höfuðverk og vöðvaspennu með tilheyrandi stoðkerfisvandræðum.

Munum eðlisfræðijöfnuna góðu, eða hina búddísku útgáfu hennar og leyfum tilfinningunum að streyma um okkur án viðnáms, og við munum losna við alla spennu og þjáningu úr lífi okkar.